Á útleið

Þá er það ákveðið, eftir nokkra klukkutíma stíg ég upp í flugvél ásamt manni sem ég hef þekkt í 40 mínútur. Það er ekki víst að við komumst alla leið á heimsenda því bátsferðir þangað eru ekki í boði daglega og ég verð að koma heim aftur á mánudaginn til að sinna vinnunni og strákunum. Ég gisti allavega í mynd úr einhverri af bókum Astrid Lindgren og maðurinn sem á kalksteinshús á hjara veraldarinnar segist ekki ætlast til þess að ég sofi hjá honum.

Haffi hringdi í mig í kvöld þegar ég var ekki ennþá alveg búin að gera upp við mig hvort ég ætti að fara.
-Auðvitað áttu að fara, sagði hann. Ef einhver byði mér til útlanda þyrfti ég ekki að hugsa mig um.
Hann sagði þetta alls ekki til þess að fela það að hann væri fúll yfir þessu, hann meinti þetta í hjartans einlægni. Honum er alvara með það að frelsi okkar eigi að vera á báða bóga. Ekkert „hvað ef þetta er nú raðmorðingi/hórmangari/ dópmangari/geðsjúklingur“. Ekki eitt orð til að draga úr mér löngunina til að fara eða fylla mig áhyggjum. Enda er það ástæðulaust, það eru meiri líkur á að ég lendi í bílslysi á Miklubrautinni en að ég verði fyrir líkamsárás á hjara veraldar. Það hefði samt verið skiljanlegt ef hann hefði latt mig til að fara og ef hann hefði gert það, hefði ég fengið bullandi sektarkennd.

Ég er hrærð yfir þessum viðbrögðum. Ég er farin að halda að honum þyki vænt um mig. Ef við ættum eitthvað sameiginlegt, annað en að vera að leita að hentugum maka, hefði ég ákveðið að fara ekki.

Best er að deila með því að afrita slóðina