Maðurinn í Perlunni rekur ferðamannaþjónustufyrirtæki á hjara veraldar. Hann starfar að hluta til á Íslandi en er að fara út í fyrramálið og bauð mér að koma með sér. Mig dauðlangar að þiggja boðið en ég geri ráð fyrir að flestum þætti það galið. Fólki fannst nógu galið af mér að fara með Birni til Spánar í fyrrasumar. Ég þekkti Björn svosem ekki sérlega vel en þó nógu vel til að vera viss um að hann myndi aldrei gera mér neitt og aldrei beita mig þrýstingi til neins sem ég vildi ekki. Þetta er svolítið öðruvísi.
Ég þekki hvorki haus né sporð á manninum, hann býður reyndar af sér góðan þokka en það segir nú lítið. Það gæti þessvegna verið að kalksteinshúsið á enda veraldar sé alls ekki til og að raunverulegur tilgangur hans sé sá að selja mig í kynlífsánauð til Malasíu. Ég er reyndar ekkert hrædd um það en ég er heldur ekki sérlega tortryggin að eðlisfari. Geri ráð fyrir að …… yrði snöggur upp í predikunarstólinn ef hann vissi hvað ég er að hugsa.
Ég sagðist ætla að skoða málið, athuga verkefnalista næstu daga og tékka á því hvort Pysjan geti verið hjá pabba sínum nokkra daga í næstu viku. Ég gleymdi að spyrja hvort hann ætlaðist til þess að ég svæfi hjá sér. Kannski rétt að hafa það á hreinu áður en nokkuð er ákveðið.