Var ég að kveðja hann?

Var ég að kveðja hann? Líklega. Ég hef saknað hans undanfarið og þegar svo er komið er ekki um annað að ræða. Hann fann það held ég. Fann eitthvað allavega. Hann bað mig ekki að vera lengur eins og venjulega. Þvert á móti rauk hann fram úr, sagðist verða að komast út, til að fá sér kaffi. Ekki „eigum við að fara út og fá okkur kaffi“, heldur „ég er eitthvað svo órólegur, ég verð að komast út“.

Af hverju líður mér eins og ég sé að yfirgefa hann, þegar það er hann sem rýkur út? Þegar það er hann sem hringir þegar honum sjálfum hentar og svarar stundum ekki í símann svo dögum skiptir? Þegar það er hann sem er ýmist drukkinn eða víðs fjarri?

Þegar allt kemur til alls eigum við ekkert sameiginlegt og hann veit ekkert um mig. Hann veit hvað ég heiti en ekki föðurnafnið mitt. Hann veit hvaða ár ég er fædd en ekki afmælisdaginn og hann veit að ég á tvo unglingsdrengi en engan kærasta. Hann hefur óljósa hugmynd um atvinnu mína, veit að mér finnst gaman að skrifa, að ég þoli reykingar illa, drekk lítið og finnst súkkulaði gott. Hann veit ekki hvar ég bý, hvaða störf ég hef unnið, hvaða menntun ég hef, hvar ég ólst upp, hvert ég hef ferðast, hvað ég borða, hvað ég les, hvernig ég ver kvöldinu. Hann veit ekkert hvaða smekk ég hef á kvikmyndum, tónlist, íþróttum, arkítektúr o.s.frv. Hann veit ekki hvaða afstöðu ég hef til trúmála, hvar ég stend í pólitík, hvað gleður mig, hvað ég óttast, hvað ég þrái eða hvað fer í taugarnar á mér.

Það eina sem ég hef fengið út úr því að vera með honum er líkamleg nálægð og ég býst við að það sama eigi við um hann. Hvers vegna hef ég þá saknað hans? Og af hverju finnst mér eins og ég sé að svíkja hann?

Best er að deila með því að afrita slóðina