Frænka mín félagsmálapakkinn

Vera er veruleikafirrt. Ég kom aðeins við hjá henni í hádeginu. Hún var að sjóða skuldasúpu. Leit vel út að öðru leyti en því að hún var í götóttum buxum. Reyndar keypti hún þær með götunum á og mér telst til, miðað við heilar buxur og þá ekki úr Kolaportinu, að hvert gat sé metið á 2378 kr.
Það lá ágætlega á henni. Að vísu er hún með tæp 600.000 í vanskilum fyrir utan allt annað sem hún sér ekki fram á að geta greitt en hún á þó allavega götóttar brækur og er því í grundvallaratriðum hamingjusöm.

-Ég er að leita mér að íbúð sagði hún.
-Nú, ég hélt að þetta væri langtímaleiga.
-Jájá, mig bara langar svo í aðeins stærri íbúð, með góðum garði og svo vil ég ekki vera í þessu hverfi innan um eintómt félagsmálapakk.

Ég starði á hana furðulostin.
-Fyrirgefðu en ert þú ekki félagsmálapakk sjálf?
Hún horfði á mig særðu augnaráði en fyrirgaf mér samt af því að hún veit að ég er nógu naív til að segja það sem aðrir láta sér nægja að hugsa og einfeldingum fyrirgefst meira en öðrum.
-Ég hef nú svosem ekki í hyggju að vera á Féló til frambúðar, sagði hún og það sjálfsagt í fullri einlægni. Bætti því við að hún hefði sótt um á grilljón vinnustöðum en enginn virtist áfjáður í að ráða ómenntaða, einstæða móður til stjórnunarstarfa.

-Það gæti verið sterkur leikur fyrir þig að vinna á McDonalds í smátíma, sagði ég, vinnuveitendur eru kannski spenntari fyrir þér ef þú ert að leita að betri vinnu heldur en ef þú ert búin að vera á atvinnuleysisskrá í marga mánuði.
-Djísús Eva, Makkdónalds, hefurðu séð þetta litla öglí búningana þar? Í alvöru, ég færi aldrei í svoleiðis. Annars sótti ég um eitt í gær sem eru góðar líkur á að fái. Ef það gengur upp ætla ég að halda upp á það með því að fara í fitusog
og brjóstastækkun.

-Jæja, ef lottóvinningur hrynur óvænt inn í tilveru mína ætla ég að kaupa kæliskáp.
-Ertu ekki búin að því?
-Nei, ég bara á ekki fyrir honum ennþá.
-Af hverju seturðu hann ekki bara á vísa?
-Af því að mér er alltaf skipað að borga af því helvíti aftur, alveg eins gott að safna pening og losna við vextina.
-Safna pening! Halló, það er árið 2003, ekki 1930.
-Og hvað með það. Er eitthvað erfiðara að safna nú en þá?
-Nei en það er auðveldara að safna skuldum.
-Mig langar ekkert í skuldir.
-En þig langar samt í ísskáp?
-Jaaaá, sagði ég og fann að ég var að tapa þessari rökræðu, án þess þó að gera mér grein fyrir því hvar ég hefði klikkað.
-En þér þykir ekki nógu vænt um sjálfa þig til þess að láta það eftir þér. Þér finnst sennilega að þú eigir það ekki skilið, sagði hún. Þar með var ég mát og verð ég þó sjaldan orðlaus.

Ég verð að játa að þrátt fyrir viðleitni mína til að setja mig inn í hugsanagang annarra, skil ég ekki ennþá hvernig í ósköpunum fólk kemst að þeirri niðurstöðu að það sé auðveldara, betra og umfram allt eðlilegra að kaupa eitthvað með því að borga það eftirá heldur en fyrirfram. Nú hef ég verið án kæliskáps í 3 vikur og niðurstaðan er sú að það sé að vísu böggandi en þó langt frá því að vera ómögulegt. Vinir og vandamenn telja þetta ísskápsleysi mitt ýmist vera til marks um sérvisku, þvermóðsku gagnvart náttúrulögmálum, almennt driftarleysi eða jafnvel í Veru tilfelli; lágt sjálfsmat!!!

Í alvöru talað, í fullri einlægni, ég er ekki að reyna að vera fyndin; það eru þau sem eru biluð en ekki ég. Er það ekki?

Best er að deila með því að afrita slóðina