Pottþétt afsökun

Ég er búin að finna pottþétta afsökun fyrir því að skrifa ekki skáldsögu.

Sko.
Halldór Laxness var í hópi stórkostlegustu ljóðskálda 20. aldarinnar. A.m.k. á Íslandi. Kannski var hann bestur þeirra allra. Samt er hans nafn sjaldan það fyrsta sem er nefnt í umræðu um ljóðagerð 20. aldar. Málið er að karlinn var svo frábær skáldsagnahöfundur að hann sem ljóðskáld, féll í skuggann af sjálfum sér. Það er nú eilítið írónískt en ég býst við að hann hafi haft húmor fyrir því sjálfur. Það hef ég hins vegar ekki.

Nú þarf ég aldrei framar að hafa áhyggjur af því að ég sé að kasta lífi mínu á glæ (undarlegt orð sem merkir í raun sjór) með því að skirrast við að helga mig skáldsagnagerð. Ég get alltaf sagt að ljóðin mín hafi enn ekki fengið verðskuldaða athygli og ég ætli ekki að taka þá áhættu að fá nóbelinn fyrir skáldsögu og standa í eigin skugga æ síðan.

Ég er annars orðin svo fær í réttlætingartækni og öðrum varnarháttum sjálfsins, að ég er að hugsa um að nýta þessa hæfni mína til að stofna fyrirtæki sem útvegar fólki afsakanir fyrir hvers kyns amlóðahætti og skýringar á því hvers vegna það sé ekki eins og það gæti verið og ekki statt þar sem það ætti að vera. Stofnkostnaður yrði ein stílabók og nýtt gsm númer, sem dregst svo aftur frá skatti, þannig að fyrirtækið ætti að skila þokkalegum hagnaði.

Best er að deila með því að afrita slóðina