Sálnaveiðari á Victor

Kvöldið endaði með astmakasti. Það var svosem fyrirsjáanlegt. Ætlaði aldrei að vera svona lengi en áfengi er ekki til þess fallið að styðja skynsamlegar ákvarðanir.

Ég hringdi í Haffa úr símanum hennar Sigrúnar. Hann var vitanlega dottinn i það og vildi endilega hitta mig á Victor. Ég samþykkti þótt ég hati skemmtistaði enda ekkert álitlegt eiginmannsefni í samkvæminu nema einn ungur og sætur sem er ennþá með far eftir hring á fingrinum. Hann hefði sjálfsagt alveg dugað sem bólfélagi en ég nenni ekki að eiga marga slíka.

Ég þoldi ekki lengi við á Victor. Þurfandi karlar með augun ofan í hálsmálinu á manni, ein ljót og illa máluð hóra, feitar saumaklúbbskerlingar og hópur Þjóðverja, ofgnótt tóbaksreyks en enginn Haffi. Ég brá mér í hlutverkið „tík dauðans“ og sannfærði nokkra miðaldra skrifstofukarla, sem fundu sig knúna til að hæla óviðjafnanlegri fegurð minni, um að innri fegurð minni væri stórkostlega ábótavant.

Erfiðara reyndist að losna við þýskan trúboða sem tók þá afstöðu að truntuleg framkoma mín væri eingöngu tilkomin vegna vanþekkingar á alltumvefjandi kærleika Jesú Krists, frelsara vors og vildi ólmur kynna mér áætlun Guðs um að nota sig sem verkfæri til að bjarga minni vesælu en þó fögru sál frá táradal trúarlegrar vanþekkingar. Þegar ég dró viðveru almættisins á öldurhúsum borgarinnar í efa, krafðist hann greinargóðra svara um það hvernig ég héldi eiginlega að heimurinn hefði orðið til.

Hvernig í fjáranum dettur fólki í hug að gera þá kröfu til manneskju sem veit ekki hvernig brauðrist er sett saman að hún kunni skil á stjarneðlisfræði? Mér þóttu þessar spurningar þeim mun meira þreytandi sem þær voru þýskuskotnar og það eina sem ég kann er í þýsku eru fyndnar setningar á borð við „ich schtikhe dem schlussel im schloss“ og svo túristafrasinn „das ist aber sehr teuer!“ Hvorugt dugar vel sem röksemdafærsla í slíkum málum og þar sem Haffi hafði enn ekki látið sjá sig fór ég aftur í vinnustaðarteitið.

Ég fíla ekki drukkið fólk. Endalaust verið að skipta um lag, allar samræður fullkomlega innihaldslausar og hvað mig varðar þá hleypur áfengi í klofið á mér en tóbaksreykur í lungun á mér og þetta tvennt fer ekki sérlega vel saman. Antiksafnarinn keyrði mig heim þegar ég var búin að jafna mig af astmanum.

Þegar ég kom heim sá ég á gemsanum að Haffi hafði hringt. Löngu áður en ég hringdi í hann svo það hefur ekki verið til þess að láta mig vita að honum seinkaði. Miklir eymdarinnar vesalingar eru þessir menn sem ég hef sofið hjá í gegnum tíðina.

Nú er síðasta rós sumarsins að springa út.
I´m sick but I´m pretty baby!

Best er að deila með því að afrita slóðina