Lambakjöt í rúmið mitt

Það eru greinilega ekki örlög mín að sofa fram eftir á sunnudagsmorgnum. Fjandi skítt að geta ekki sofið þegar maður hefur druslast á árshátíð og vakað til 3 án þess að fá neitt út úr því nema prýðilegar snittur.

Antiksafnarinn kom til að sækja Neffríði og hann var svo elskulegur að aka mér heim. Mér finnst stórmerkilegt hvað Antiksafnarinn er alltaf áhugasamur um ástalíf mitt, sérstaklega í ljósi þess hvað ég hef alltaf frá litlu að segja í þeim efnum. Hann man næstum betur eftir elskhugum mínum en ég sjálf. Hann rifjaði t.d. upp fyrir mér í nótt að einu sinni átti ég bólfélaga á Selfossi en því var ég næstum búin að gleyma. Hann beit það líka í sig fyrir mörgum árum að ástmögur minn á Egilsstöðum hefði verið á fermingaraldri og hefur endalausan áhuga á sambandi mínu við þann ungling. Hann er að rugla saman manninum sem átti ekki tíkall (hann var altsvo yfirlýstur kærasti minn, að vísu 7 árum yngri en ég en var búinn að losa sig við sveindóminn og m.a.s. barna ungling, mörgum árum áður en ég ég flutti austur) og fermingardrengum sem flutti inn til mín á sama tíma en var ekki boðið að sofa á milli okkar. Ég hef reynt að leiðrétta þennan misskilning reglulega síðustu árin en þetta reynist vera það eina sem ég hef sagt Antiksafnaranum um ástamál mín sem hann getur bara ekki munað. Hann er hinsvegar minnugur þess að hann Litli Graður sem ég bjó með í eitt ár er líka 7 árum yngri en ég og staðfestir sú staðreynd vitanlega þá stefnu mína að vilja eingöngu lambakjöt í rúmið mitt.

Í nótt var það reyndar Neffríður sem spurði mig út í smekk minn fyrir yngri menn þótt hann ætti svosem löngu að vera lýðum ljós. Hér með upplýsist það opinberlega í eitt skipti fyrir öll:

-Já mér þykja ungir menn betri bólfélagar en þeir eldri.

Ef valið stendur á milli 22ja ára stráks og karls á mínum aldri mun ég sennilega velja þann yngri ef ég ætla mér eingöngu að sofa hjá honum. Ég hef góðar ástæður:

-Strákurinn er fallegri
-Hann er í betra formi
-Hann hefur mýkra hörund
-Hann ilmar betur
-Hann hefur meira hár á hausnum
-Hann hefur minna hár á skrokknum
-Hverfandi líkur eru á að hann eigi við ristruflun að stríða
-Hann er ekki búinn að reykja nógu lengi til að tjaran hindri blóflæði til þess líffæris sem helst er brúklegt til slíkra athafna.
-Hann hefur meira úthald
-Hann er tilbúinn í aðra umferð eftir 5 mínútur
-Hann ólst upp við það viðhorf að menn eigi að þrífa sig -allsstaðar.
-Hann ólst upp við það viðhorf að við skyndikynni sé jafn sjálfsagt að nota smokk og að fara út í skóm
-Hann hefur enn ekki öðlast þá reynslu og þroska sem þarf til að byggja upp frammistöðukvíða.
-Þar sem hann er ekki haldinn frammistöðukvíða, finnur hann enga þörf fyrir að segja mér kvennafarssögur af sjálfum sér
-Hann er ekki enn farinn að óttast að fá aldrei tækifæri til að spreyta sig á sódómsku eða öðrum sóðaskap og er því ekkert að stressa sig á að suða um það
-Hann hefur ekki vit á því að halda hræsnisfullan törnoff fyrirlestur um að þótt ég sé flestum konum dásamlegri sé hann samt ekki „tilbúinn“ í skuldbindingarsamband af því að hann sé svo mikið jólatré
-Hann er sennilega ekki að leita að nánara sambandi og þó svo sé fer hann ekki í fýlu þótt ég segi að það sé ekki raunhæft
-Hann hefur ekki vit á að verða sér úti um ókeypis sálfræðiþjónustu í leiðinni og hlífir mér því við harmsögum úr fyrri samböndum

Auk alls þessa eru ungu strákarnir yfirleitt hlýðnir og meðfærilegur. Þeir eru námsfúsir á þessu sviði og trúa því að ég hafi vit á því hvort, hvar og hvernig ég vil láta snerta mig þótt það rími ekki fullkomlega við fyrri reynslu þeirra. Þeir menn á mínum aldri sem hafa þessa kosti ungsveinsins eru ýmist fráteknir eða fyllibyttur nema hvort tveggja sé.

Þessvegna sef ég hjá strákum en ekki körlum og mun halda því áfram þar til frambærilegt mannsefni rekur á fjörur mínar.

Best er að deila með því að afrita slóðina