Traust

-Mér þykir þú köld, að fara til útlanda fyrirvaralaust, með bláókunnugum manni, sagði Keli.
-Enginn hefur skaðað mig hingað til nema fólk sem ég þekkti og treysti, svaraði ég. Keli hló.
-Þannig að þér finnst rökrétt að treysta þeim sem þú þekkir ekki, frekar en vinum þínum? Það finnst mér athyglisverð niðurstaða.
-Það sem ég á við er að maður veit aldrei hverjum maður getur treyst en flest fólk reynist manni samt vel. Ef einhver minna bestu vina væri axarmorðingi, myndi hann sennilega ekki segja mér frá því og ef ég teysti vini mínum, sem síðar reynist axarmorðingi, því skyldi ég þá ekki alveg eins treysta ókunnugum manni sem hefur ekki gefið mér ástæðu til annars?

Keli sagði að kannski ylti það að nokkru leyti á því hversu góður mannþekkjari maður væri, hvort og hvenær væri óhætt að treysta fólki. Ég er ekki eins viss. Ég er ekki mannþekkjari og ætti því kannski aldrei að treysta neinum. Það þætti mér slæmt. Í raun er þetta bara spurning um jákvætt eða neikvætt viðhorf til mannskepnunnar. Allavega fyrir þá sem ekki hafa sérstaka hæfileika til að sjá innræti fólks án þess að kynnast því. Smámsaman á lífsleiðinni tekur maður annaðhvort þá afstöðu að treysta fólki þar til kemur í ljós að það er ekki óhætt eða maður ákveður að treysta fólki ekki, fyrr en það hefur áunnið sér traust. Hið sama gildir um allt annað sem viðkemur mannlegum samskiptum.

Sýnir maður fólki virðingu þar til maður sannfærist um að það sé ekki virðingarvert eða þarf fólk að sanna sig fyrst?

Elskar maður óhikað eða þarf játningu frá hinum aðilanum til að maður þori að taka áhættu á því að verða fyrir sársauka og höfnun?

Ég er bláeyg. Ég geri ráð fyrir því að flest fólk sé ágætis fólk. Með öllum þeim ágöllum og ógeði sem mannskepnunni er eðlislægt en samt sem áður verur sem í grundvallaratriðum er ánægjulegt að eiga samskipti við. Það hlýtur að vera erfitt að burðast með stöðuga tortryggni og geta aldrei treyst neinum eða sýnt einlæga vinsemd, fyrr en viðkomandi er búinn að leysa einhvern verkefnapakka. Ég er ekki einu sinni viss um að með því móti verði maður fyrir færri skakkaföllum.

Ég gef fólki fúslega tækifæri til að fara illa með mig og reyndin er sú að fæstir nýta það tækifæri. Þeir sem nýta það fá annað tækifæri ef þeir biðja um það, ef mér þykir vænt um þá þurfa þeir ekki einu sinni að fara fram á það. Það sorglega er að þeir sem ég hef elskað svo heitt að ég var reiðubúin til að gefa þeim fleiri en tvö tækifæri til að skaða mig, þeir nýttu þau öll og grófu jafnvel upp fleiri. Stundum fannst mér það næstum grimmdarlegt. En kannski er eðlilegt að fólki sé í mun að sanna að það sé ekki traustsins vert? Kannski það sé einfaldlega inngreipt í eðli mannsins að þurfa alltaf að vera að sanna að aðrir hafi rangt fyrir sér? Ef maður er tortrygginn vill sá ókunnugi sanna að honum sé treystandi. Ef maður sýnir einhverjum óverðskuldað traust, þarf hann að sanna að manni hafi skjátlast. Getur það verið að manneskjan sé svona mikil gelgja? Ef svo er, er kannski skynsamlegra að krefjast þess að fólk sanni sig áður en maður býður það velkomið, en þannig vil ég ekki lifa.

Enn guðar draugur á glugga. Segir að án trausts sé allur fagurgali fánýtt hjal en það eigi reyndar einnig við um sannleikann. Ég verð að játa að hann kemst vel að orði og hann hefur rétt fyrir sér. Í dag finnst mér jafnvel sannleikurinn fánýtur, þótt ég hafi beðið þess í 9 ár að fá söguna alla. Og hvers vegna í ósköpunum ætti ég að treysta honum nú? Hann fékk sannarlega næg tækifæri til að misbjóða mér og hann nýtti þau öll. Þegar allt kemur til alls er maðurinn það sem hann gerir.

Hann er, þrátt fyrir ágæta greind og gnægð persónutöfra, illa farinn af tilefnislausri minnimáttarkennd sem hefur gert hann hégómlegan. Hann þrífst á athygli og aðdáun. Þyrstir svo sárlega í athygli og aðdáun að það er nánast sama hvaðan gott kemur í þeim efnum. Og þó. Það er víst ekki verra ef hin aðdáunarfulla er ekki beinlínis greindarskert. Og ef hún er þokkalega útlítandi líka hlýtur sæmilegt egóbúst að fást út úr því að sjá hana fleygja sér í gólfið og syngja

„Ég er glöð og ég er
góð, því Jón er kominn heim“.

En nú man ég ekki lengur það kvæði.

Best er að deila með því að afrita slóðina