Að læra af mistökum

Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni sagði einu sinni að hugmyndin um að læra af mistökunum væri ekkert annað en léleg afsökun þeirra sem gefast alltaf upp í fyrstu tilraun.

Þeir sem þekkja hann ekki gætu haldið að hann misskilji frasann en svo er ekki. Hann sér bara hlutina frá öðru sjónarhorni en meðalmaðurinn. Sennilega er heilmikið til í þessu hjá honum. Allavega hefur óttinn við endurtekin mistök dregið úr mér löngunina til að reyna aftur, fremur en að blása mér í brjóst hugmyndir af nýjum aðferðum. Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni lítur ekki á mistök sem mistök, heldur óumflýjanlegan fylgikvilla þess að gera nokkuð af viti. Hann hefur satt að segja kennt mér ýmislegt, drengurinn sá.

Ég er ekki viss um að hann hafi lært jafn mikið af mér. Samt lagði ég mig fram. Ég kenndi honum að beygja sagnir í kennimyndum og greina á milli hátta. Á samræmda prófinu átti hann að setja sögnina að vaxa í viðtengingarhátt.

Hann skrifaði; þót ég igsi.