Sonur minn Pysjan er enn ekki skriðinn úr holu sinni. Stundum stingur hann nefinu út rétt sem snöggvast en hrökklast inn í holuna aftur um leið og hann verður þess var að einhver er að fylgjast með honum. Og það er ekki af því að hann sé feiminn. Það er af því að hann er í eðli sínu lundi og það er nákvæmlega þannig sem lundapysjur hegða sér. Hann veit hvenær hans tími kemur.
Sonur minn Pysjan ætlar að verða bóndi þegar hann er orðinn stór. Fátt þykir honum leiðinlegra en samræður og telur það lágmarkskurteisi, ef fólk þarf endilega að vera að geifla á sér þverrifuna, að það einskorði umræðuefnið við litbrigði íslenska hrossastofnsins. Litir íslensku sauðkindarinnar koma líka til álita sem umræðuefni, enda er fræðslumyndbandið „Í sauðalitunum“ uppáhaldskvikmyndin hans. Ekki kemur þó til greina að taka þessi óskyldu umræðuefni fyrir í einu og sama samtalinu.
Pysjan er Ísland. Yfirborðið hrjúft en eldur undir. Til 5 ára aldurs sat hann þungur á brún og gaut augunum tortryggnislega út undan sér á gesti og gangandi, sagði fátt ef nokkuð svo ókunnugir heyrðu og jafnvel gagnvart fjölskyldunni hafði hann lítið til málanna að leggja, annað en einstaka heimspekilegt „dödd!“ „Döddið“ var einskonar
allsherjaryfirlýsing, fól ýmist í sér staðfestingu á því að hann væri sammála síðasta ræðumanni, eða fullkomlega ósáttur við aðstæður sínar, allt eftir því hvaða tón hann lagði í döddið og hvort því fylgdi kímið bros, ískrandi hlátur eða geðillskulegt urr með tilheyrandi svipbrigðum. Í rauninni hefur það lítið breyst. Hann hefur reyndar prýðilegan orðaforða og er ekki í vandræðum með að koma fyrir sig orði ef hann sér sérstakan tilgang í því en í samskiptum við fjölskylduna gæti hann allt eins notað hið óræða „dödd“ til að koma tilfinningum sínum og skoðunum til skila.
Hraunkvika rennur í æðum hans. Hann getur náð frábærum árangri í hverju sem er, svo framarlega sem honum gefst kostur á að keppa í því. Og fólk hrífst af honum og segir; hvernig getur fugl með svona litla vængi flogið svo langa vegalengd? Samt hreykir hann sér hvorki né hneigir sig, heldur lætur sem ekkert sé og heldur áfram flögri sínu milli lands og sjávar og lætur ekki yfir sér nema hann þurfi að verja svæðið sitt. Ef það gerist fer eignarréttur hans ekki fram hjá neinum. Hann trúir ekki á tilviljanir, hvað þá óheppni og leitar umsvifalaust uppi sökudólg ef eitthvað er ekki nákvæmlega eins og hann vill hafa það. Sjái hann á annað borð ástæðu til að segja eitthvað meira en „dödd“
notar hann kjarnyrta íslensku og mikið af henni.
Ég tek Pysjuna nærri mér. Velti því stöðugt fyrir mér hvað muni gerast þegar hann skríður úr holu sinni. Fær hann þægilega magalendingu í svölum sjó eða lætur hann heillast af ljósunum í bænum og rankar við sér í húsasundi?
Það er bara þessvegna Pysjan mín litla sem ég er stöðugt að reyna að troða þér í pappakassa. Þótt ég viti vel hvað þér er illa við að það þegar einhver beinir ljósgeisla inn í skotið sem þú felur þig í.