Til eignar eða afnota

Nú er ég löngu búin að jafna mig eftir hálsbólgu, berkjubólgu og geðbólgu sumarsins en mér leiðist ennþá.

Langar ekki að lesa, langar ekki að skrifa, langar ekki að hitta neinn, langar ekki að sækja um vinnu, langar yfirhöfuð ekki að vinna jafnvel þótt einhver byði mér bankastjórastöðu eða eitthvað álíka vel launað. Það eina sem mig langar í veröldinni er að sofa hjá, fátt verið um fína drætti undanfarið -í bókstaflegustu merkingu.

Hengslast fram í eldhús þegar Spúnkhildur kemur heim úr bakaríinu og
dey fram á eldhússborðið.
-Mig vantar karlmann!
-Til eignar eða afnota? spyr Spúnkhildur og hrærir út neskaffi fyrir mig, en á okkar heimili er kaffilögun óbrigðgult merki um botnlausan kærleika.

-Hvorttveggja. Einn lítinn og sætan til að leika mér að, hann gæti t.d. líkst Elijah Wood. Hann á að mæna á mig hundslegum aðdáunaraugum og hlýða öllu sem ég segi. En svo vil ég líka alvörukarlmann til eignar. Hann á að vera álíka kynþokkaknippi og Johnny Depp, eiturklár, ofstopaskemmtilegur, vaða í peningum, vera haldinn kynferðislegri lotugræðgi -alltaf á sama tíma og ég og svo á hann að reisa mér kastala í skógi vaxinni fjallshlíð, svo ég geti setið við efsta turngluggann og horft yfir lendur mínar
-Mmmm, á milli þess sem þú líður um salina með yndisþokka?
-Já, einmitt. Og svo á hann að smita mig af eldlegum áhuga sínum á útivist og íþróttum svo mér finnist beinlínis gaman að hreyfa mig og fái ljósmyndahæf læri og þvottabretti.
-Væri ekki einfaldara að láta hann bara trixa þig með töfrasprota?

Jú ég verð að viðurkenna að í sjálfu sér væri það æskilegri lausn en það þýðir nú lítið að vera með óraunhæfar væntingar.