Þá er það loksins staðfest að leigusalinn bjó í alvöru með litháískri súludansmey. Ég komst að því í dag þegar ég sótti um aukavinnu á „Kynlegum konum“ einu strippbúllunni hér uppi í Gólanhæðunum. Eða einu svo vitað sé, svo ég ljúgi nú engu. Búllmundur, eigandi staðarins, spurði hvar ég byggi. Þegar ég sagði honum það varð hann steinhissa og spurði hvort Fatlafólið væri kominn í stórútgerð. Sú litháíska hætti víst á búllunni skömmu eftir að þau kynntust og Búllmundur hefur enga trú á að það skýrist eingöngu af hreinleika ástarinnar.
Vinnutíminn er frá ellefu til þrjú sem hentar gífurlega vel því ég yrði þá komin heim áður en Spúnkhildur fer í bakaríið.
-Heldurðu að við ráðum við þetta? spurði ég. Birta hló háðslega.
-Ég ræð við það jú, en hvað ætlar þú að gera á meðan? Steikja pönnukökur kannski?
Birta hefur enga trú á mér. Henni finnst rosalega ómerkilegt að steikja pönnukökur og hún er ægilega ósátt við mig fyrir að leggja mig niður við að leiðrétta auglýsingatexta og endurskrifa hroða sem einhverjir illa skrifandi grasasnar hafa klambrað saman. Ég þarf líklega ekki að taka fram að það er Birta sem hefur flutt öll þessi dýr inn á heimilið. Nema Litlu, Gulu Hænuna. Hún er víst algerlega á mína ábyrgð.
-Og hvað heldurðu að fólk segi? Gaggaði Litla Gula Hænan sem hafði sofið í fatahenginu þegar við komum inn en greinilega náð hluta af samtalinu.
-Hvaða fólk? spurði Birta.
-Bara allskonar fólk. T.d. Maðurinn sem heitir ekki Guðmundur. Kannski stundar hann súlustaði og þá sér hann þig.
-Hahh, og þá vitum við að hann stundar súlustaði. Hversu kúlt er það? sagði Birta.
Reyndar hef ég enga trú á því að Maðurinn sem heitir ekki Guðmundur stundi súlustaði. Ég hef meiri áhyggjur af því að ég, sem er kvöldsvæf, eigi erfitt með að halda mér vakandi til klukkan þrjú á næturnar og að ég þyki ekki sérlega kynþokkafull í ullarsokkum og geyspandi upp í viðskiptvinina. Mér verður nefnilega svo kalt þegar ég er þreytt að ég er eiginlega alltaf í ullarsokkum á kvöldin.