Krútt dauðans

Myndgerður litla hefur átt dálítið bágt undanfarið. Kisurnar hennar urðu eftir fyrir austan þegar þær Spúnkhildur fluttu í bæinn og fyrstu vikuna í nýjum skóla fékk hún lús og það varð henni áfall. Mamma hennar ánetjaðist Örykjanum og ég held að Myndgerði finnist það ekkert skemmtilegra en mér. Hún er samt virkilega að leggja sig fram um að vera kurteis. Að minnsta kosti svaraði hún „hann er ekki eins mikið krútt og kisa en alveg allt í lagi samt“ þegar Kynvillingurinn spurði hana hvernig hún kynni við hann. Nú er hundurinn, sem einnig varð eftir fyrir austan, dauður og missirinn tekur auðvitað á litla sál. Spúnkhildur gaf henni tvo dverghamstra í sárabætur. Þeir eru krútt dauðans en ég er dauðhrædd um að Grái kötturinn éti þá.

-O ætli hann væri ekki búin að éta Fjólu ef hann á annað borð þyrfti að éta, segir Spúnkhildur. Nú eða Litlu, gulu hænuna.
-Sú Gula hefur vita á að fela sig sagði ég, og Fjóla heldur eingöngu til í mínu herbergi á daginn. En reyndar gæti Fjóla líka tekið upp á því að eltast við krúttin. Sonur minn Byltingin er búinn að friðlýsa kóngulóna sem býr fyrir utan eldhússgluggann. Af einhverjum ástæðum tekur Fjóla mark á honum. Ég ætla rétt að vona Myndgerðar litlu vegna að krútt dauðans verði henni ekki meiri freisting.

Næturlífið á heimilinu hefur aldrei verið fjörugra. Krútt dauðans andskotast í hlaupahjólinu fram til klukkan tvö. Fjóla flögrar inn og út um herbergisgluggann minn fram undir morgun og þá tekur Litla, gula hænan til við að ausa af viskubrunni sínum. Ég hef áhyggjur af því að Maðurinn sem heitir ekki Guðmundur fari að mynda sér skoðanir á dýrahaldinu en hingað til virðist hann ekkert hafa tekið eftir því.

Annars verð ég lítið vör við dýrin á daginn. Það plagar mig öllu verra að Öryrkinn er í bænum og telur víst skyldu sína að létta mér lesturinn með ægifögrum gítarleik. Því miður er ég svo oft búin að sannfæra telpukornið um að ég eigi ekki í neinum vandræðum með að vinna þótt sjónvarpið sé í gangi að ég get eiginlega ekki sagt honum að hann trufli mig. Enda truflar hann mig ekki beinlínis. Það er að segja, ég á ekkert erfitt með að einbeita mér að textanum sem ég er að vinna við þótt hann sé að glamra á gítarinn. Mér finnst bara „Undir bláhimni“ svo hryllilega vont lag og það er uppáhaldslag Öryrkjans. Hitt lagið sem hann kann er „Stairway to Heaven“. Sem er gott lag, það vantar ekki. En þið vitið hvað ég meina. Semsagt það að ef Öryrkinn væri krútt, myndi ég bjóða Fjólu að éta hann í morgunmat.

Þar með yrði hann Krútt Dauðans. En mér þykja dverghamstrar sætari.

Best er að deila með því að afrita slóðina