Sápuópera

Faðir Spúnkhildar deyr og á vissan hátt er það léttir. Þetta skammvinna dauðastríð var víst nógu erfitt fyrir fjölskylduna hans.

Það er komið fram yfir hádegi á laugardeginum þegar systurnar skríða á lappir eftir andvökunótt og Spúnkhildur fer auðvitað beint út á stétt að reykja þrátt fyrir mótmæli þeirrar stuttu sem finnst alveg nóg að afi hafi dáið úr reykingum. Spúnkhildur reynir að hugga hana með því að afi hafi nú reyndar verið fyllibytta líka og ólíklegt að reykingarnar hefðu drepið hann nema vegna þess að meira kom til. Ég heyri samtalið þar sem ég stend í eldhúsinu, þar hef ég eytt morgninum við að hræra í pastasósu og kjúlkingapottrétti, skera salat, steikja pönnukökur, smyrja brauð…

-Er einhver að koma í mat? spyr Kynvillingurinn, systir Spúnkhildar og starir furðulostin á eldhússborðið.

-Fólk verður að borða þótt hann hafi dáið, tauta ég. Börnin hafa nærst á sykurhúðuðu lofti í tvo daga.
-Borða! Þetta er hlaðborð manneskja. Og sonur minn Sjarmaknippið verður ekki einu sinni í mat því barnsfaðir minn og fyrrum elskhugi þinn, sá sem átti ekki tíkall, er á leiðinni að sækja hann, segir Kynvillingurinn.

-Eva er haldin matreiðslufíkn; útskýrir Spúnkhildur. Í hvert sinn sem hún getur ekki lagað hlutina, reynir hún að elda þá burt.
-Þetta er kannski flóttaleið en fíkn er það nú ekki. Ég kann ekki nema tvær aðferðir til að votta samúð og ég býst ekki við að maðurinn þinn yrði hrifinn ef ég svæfi hjá þér, svara ég.

-Þú getur sofið hjá mömmu,</em> segir Sjarmaknippið (sonur Kynvillingsins). Hún er hvort sem er skilin við Rúnu og svo er hún alltaf að tala um hvað hún sé feit svo þú ættir nú ekki að fóðra hana meira en nauðsynlegt er.
-Láttu ekki eins og bjáni elskan, Eva er streit, hún sefur ekki hjá konum, segir Kynvillingurinn og þótt það sé nú reyndar álitamál hversu streit ég er, er ég er satt að segja fegin að hún skuli halda það því okkur vantar ekki uppákomu á borð við kynferðislegt samband, nóg er víst froðan fyrir.
-Hún hefur nú samt sofið hjá pabba og pabbi hjá þér svo þið hljótið öll að hafa svipaðan smekk; segir Sjarmaknippið og finnst hann fyndinn.

-Fjárann eigum við að gera við allan þennan mat?; segi ég til að snúa talinu að öðru.
-Maðurinn sem átti ekki tíkall er matmaður; segir Spúnkhildur og þar með er það afgreitt.

Og hér sitjum við og troðum í okkur mat sem á tímum Jesúsar hefði mettað fleiri en 5000 (enda eldaður úr öllum afgöngum vikunnar þegar enginn var sérlega svangur):

-Ég, eina manneskjan í lífi mínu sem nálgast það að vera normal,
-Spúnkhildur konan mín, rambandi á barmi gjaldþrots og þunglyndis,
-Sú Stutta, dóttir hennar sem á síðustu tveimur mánuðum hefur flutt milli landshluta, byrjað í nýjum skóla, tvívegis komið lúsug heim, eignast nýja fjölskyldu, hatað og tekið í sátt nýja kærasta móður sinnar og misst tvo ketti, einn hund og afa sinn,
-Öryrkinn, nýi kærastinn Spúnkhildar sem jafnframt því að vera lögblindur á öðru auga er búinn að missa vinnuna, vill endilega flytja inn á okkur og sýnir mér svo yfirgengilega kurteisi að mig langar mest að flengja úr honum smjaðrið með leðurstrimlasvipu,
-Kynvillingurinn, systir Spúnkhildar, sem auk þess að vera kynvillingur er alki og átfíkill með ólæknandi blóðsjúkdóm, reyndar fulltrúi allra minnihlutahópa á Íslandi nema nýbúa, nýskilin við drykkjusjúka konu sína sem aftur er farin inn á Vog.
-Maðurinn sem átti ekki tíkall, stuðboltinn, húmoristinn og gáfumennið, barnsfaðir Kynvillingsins (þau hata hvort annað), æskuvinur Spúnkhildar og sá maður sem ég hef elskað mest í lífinu,
-Sjarmaknippið sonur þeirra, ofvirkt barn með banvænan erfðasjúkdóm, drengurinn sem ég missti þegar pabbi hans fór frá mér en varð aftur hluti af lífi mínu á sápuóperukenndan hátt og svaf í rúminu mínu sumarið sem móðir hans var í meðferð, pabbinn í öðrum landshluta og Spúnkhildur í þunglyndi,
-Sonur minn Byltingamaðurinn, listamaðurinn lesblindi (stundum kallaður Dundmundur) með hálsinn alsettan sogblettum,
-og sonur minn Pysjan, sauðfjárbóndi í tilvistarkreppu, reyndar búsettur hjá hinni veruleikafirrtu systur minni í Þorpi Dauðans eins og er en kemur í bæinn um helgar. Hér sitjum við, rétt eins og fjölskyldur gera upp úr hádegi á laugardögum.

-Drottinn gaf og Drottinn tók; segir Sú Stutta mæðulega og bítur i pönnuköku, Byltingamaðurinn og Pysjan eignast systur og daginn efir deyr afi.
-Já, svona er Guð, segir Sjarmaknippið beiskur í rómi, blessar sumar fjölskyldur með litlum börnum en leggur aðrar í einelti með sjúkdómum og dauða.

Á meðan við borðum bankar litla stelpan á efri hæðinni upp á og vill leika við Þá Stuttu. Litla stelpan býr ein hjá afa sínum. Móðir hennar dó úr heilablóðfalli í fyrra eftir þriggja ára veikindi, amma hennar er á Alsheimerdeildinni og pabbinn stunginn af til Litháen með 22ja ára súludansmey.

-Finnst einhverjum öðrum eins og þetta samkvæmi sé farið að minna á sápuóperu? spyr ég og hef varla sleppt orðinu þegar Blíða frænka mín hringir, til að tilkynna að hún sé loksins búin að fá nóg af því að vera lamin og sé því farin frá manninum sínum.

Það er kannski ekki alveg viðeigandi svona fáum klukkutímum eftir andlát í fjölskyldunni en húmor er eina aðferðin til að halda svona samkomu út og ég er ósegjanlega þakklát fyrir að enginn skuli taka þann pól í hæðina að ekki megi grínast á sorgarstund. Maðurinn sem átti ekki tíkall stingur upp á því að til að fullkomna velluna drífi ég í því að sofa hjá barnsföður Spúnkhildar.
-Já eða bróður þínum! skýtur Byltingamaðurinn inn í og heldur að hann sé svona fyndinn þegar við brestum í hláturrokur fram á eldhússborðið. Hann veit ekki það sem bæði Kynvillingurinn og barnsfaðir hennar vita að bróðir hins tíkallalausa sinnti okkur Spúnkhildi til skiptis á tímabili og varð steinhissa þegar það komst upp enda þótt við værum daglegir heimagangar hvor hjá annarri.

Þessi sena á sér stað heilum tveimur dögum eftir að vinur Kynvillingsins hengdi sig og það var áreiðanlega daginn þar á undan sem barnið kom heim með lús og við sótthreinsuðum heimilið. Og það er ekki fyrr en daginn eftir sem Spúnkhildur fær appelsínugult ljós á bankalán til að bjarga fyrirtækinu fyrir hádegi og eftir hádegi tilkynningu um að skólabróðir hennar til 10 ára, piltur með downs-syndrom, hafi látist úr lungnabólgu þá um morguninn. Ætli hörðustu sápufíklar hefðu ekki einmitt á því augnabliki staðið upp og slökkt á sjónvarpinu eftir að hafa ælt ofan í poppkornsskálina? Sjálf hefði ég verið búin að gefast upp í apríl.

Pakkinn er orðinn býsna skrautlegur þegar þessar tvær fjölskyldur koma saman. En ég er ekki svo viss um að meðalfjölskyldan sé mikið viðurlegri. Sennilega býr hver við sína sápuóperu þótt hann segi ekki endilega frá því. Ég hef allavega aldrei kynnst fjölskyldu sem á ekki sínar hallærislegu uppákomur og flóknar leyndarmálakeðjur eru sjálfsagt algengari en flesta grunar. Annars er reyndar ágæt tilbreyting að húka á handlaugarbrúninni og horfa á sápuna í lífi nýju fjölskyldunnar minnar. Kosturinn við að búa með jaðarfólki er nefnilega sá að sápan í mínu eigin lífi hjaðnar hjá dramatíkinni í kringum Spúnkhildi sem hreinlega freyðir yfir barmana þegar verst lætur.

En það er í lagi. Á meðan maður missir ekki húmorinn er allt í lagi.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina