Ég hef gaman af orðum sem tákna tvennt ólíkt. Orðið ‘hljóð’ er sennilega undarlegasta orð íslenskunnar því það táknar í senn hávaða og þögn. Hvernig á að útskýra svona rugl fyrir nýbúum?
Greinasafn fyrir flokkinn: Menning, listir og fjölmiðlar
Lýðræðið er pulsa
Góð leið til að styrkja menninguna
Ég býst við að mörgum komi það nokkuð á óvart en ég er almennt ekkert hrifin af því að ríkið styrki listir. Ennþá síður vil ég að auðmenn geri það. Listamenn hafa nefnilega í mörgum tilvikum pólitísku hlutverki að gegna og þessvegna má enginn sem hefur hagsmuna að gæta, hafa fjárhagslegt tangarhald á þeim. Halda áfram að lesa
Allt með kyrrum kjörum
Við heyrum dásamlegar fréttir af því að allt sé með kyrrum kjörum í Kenía. Kibaki og Odinga saman í stjórn og allir góðir vinir. Ekki veit ég í hvaða raunveruleikaþætti þeir lifa sem trúa því í alvöru að það þurfi ekki meira en 4 mánuði til að koma á eðlilegu ástandi í landi þar sem blóðug átök hafa geysað og fjöldi manna flúið heimili sín og svarnir andstæðingar sitja saman í ríkisstjórn. Halda áfram að lesa
Er Ómar í hættu?
Mér finnst sorglegt þegar áhugaverðir pistlahöfundar sem hafa hugrekki til að varpa fram óvenjulegum hugmyndum og spyrja óþægilegra spurninga, verða svo oft fyrir persónulegum árásum og skítkasti að þeir neyðast til að loka á möguleikann á að senda inn athugasemdir til að komast hjá því að taka 4 vinnudaga í viku í að verja sig.
Álög
Enskumælandi fólk býr til peninga. Íslenskan nær hinsvegar ekki yfir þá hugmynd. Íslendingar þéna peninga með þjónustu, afla fjár með líkamsafli sínu, eða græða fé á sama hátt og skóga, með því að sá og uppskera. Hugmyndin um uppskeru án útsæðis, erfiðis og þjónkunar við aðra er einfaldlega ekki til í málinu. Þegar Íslendingurinn er kominn með þóknunina, aflann eða gróðann í hendurnar, tekur hann til við að eyða honum. Jafnvel að sóa honum. Íslendingar verja ekki fjármunum til daglegra þarfa eða nota þá, heldur eyða þeim.
Orð síast inn í undirvitundina, móta hugmyndir okkar um veruleikann og gera okkur að því sem við erum. Ég hef þénað, grætt og aflað, oftast minna en mig langar til að eyða. Sennilega er hrifning mín á orðsifjafræði stóra ástæðan fyrir því hve sjaldan mér hefur tekist að búa til peninga úr engu og verja þeim til að búa til ennþá fleiri peninga.
Allt er í heiminum táknrænt. Það þurfti reyndar nokkuð leiðinlegt óhapp til að ég áttaði mig á þessu en það var mjög heppilegt óhapp því nú er ég búin að finna út hvað ég þarf að gera til að verða ósiðlega rík (á íslenskan mælikvarða).
Ef ég neita að tala íslensku næst þegar við hittumst, þá er ég líklega að endurforsníða harða diskinn í hausnum á mér. Ég er ansi hrædd um að quick format virki ekki.
Dööö!
Af hverju er það stórfrétt að hlutfallslega færri Pólverjar en Íslendingar hafi fengið á sig kærur en hinsvegar ekki minnst orði á að Litháar og Bretar séu samkvæmt þessari könnun mun meiri glæpahundar en landinn? Hverjir frömdu alvarlegu glæpina og skiptir það í raun einhverju máli? Hvaða kjána dettur í hug að fjöldi ákærðra í svona litlu samfélagi segi eitthvað um glæpahneigð eftir þjóðerni? Halda menn t.d. að Bretar séu líklegri til að fremja morð en Íslendingar eða gæti þetta háa hlutfall glæpabreta kannski staðið í einhverju sambandi við þá staðreynd að langflestir þeirra sem tóku þátt í mótmælaaðgerðum umhverfissinna í sumar (og voru sumir hverjir kærðir fyrir það eitt að dansa á Snorrabrautinni) voru Bretar?
Ég hef enga trú á því að Pólverjar séu löghlýðnari en Bretar en kannski halda þeir sem tóku að sér að setja fram og túlka niðurstöður þessarar einkar óvísindalegu rannsóknar að þeir séu að gera Pólverjum einhvern sérstakan greiða. Sennilega standa líkurnar á því að fólk brjóti af sér bara ekki í neinu sambandi við þjóðerni.
Við eigum rétt á að vita það líka
Um daginn stóð Útvarp Saga fyrir skoðanakönnun á því hvort fjölmiðlar ættu að gefa upp þjóðerni meintra afbrotamanna og þjóðarsálin álítur víst að það sé rétt, gott og nauðsynlegt. Ekki er ljóst hvaða tilgangi það á að þjóna, nema þá helst þeim að auðvelda okkur að meta líkurnar á glæpahneigð út frá þjóðerni. Ef kemur t.d. í ljós að 20 Pólverjar hafa verið sakaðir um líkamsárásir, þá hlýtur það að segja eitthvað um eðli og innræti Pólverja almennt og full ástæða til að kenna börnum okkar að varhugavert sé að umgangast slíkan óþjóðalýð og aðra negra. Halda áfram að lesa
Bréf til RÚV
Kæra RÚV
Mig langar í helling af peningum og varð því mjög glöð þegar fréttir bárust af því (samkvæmt áreiðanlegum heimildum) að meðlimir Saving Iceland fengju greitt fyrir að vera handteknir. Þar sem fréttastofa RÚV hefur aðgang að áreiðanlegri heimildamönnum en ég sjálf, og Óli aktivisti, Haukur sonur minn, Siggi pönk og Helga gamla anarkistaamma, harðneita öll að borga mér svo mikið sem krónu með gati, fer ég þess á leit að fréttastofa upplýsi mig um eftirfarandi atriði:
-Hvaða fjársterku aðilar útvega hreyfingunni fé til að borga mér?
-Hversu mikið ég fæ fyrir minn snúð?
-Er virðisaukaskattur innifallinn í þóknuninni eða leggst hann ofan á?
-Er þóknunin kannski ekki gefin upp til skatts?
-Er sami taxti fyrir alla eða hef ég möguleika á að hífa mig upp? (t.d. upp í krana)
Sú spurning sem brennur heitast á mér er þó þessi:
-Hvert ég á að senda reikninginn?
Um leið og ég fer fram á svör við þessum spurningum vil ég koma því að að samkvæmt heimildum sem ég tel áreiðanlegar, fá fréttamenn RÚV aukagreiðslur í formi kókaíns ef þeir ná að plata þjóðina með innistæðulausi bulli. Ég hef ekki í hyggju að færa nein rök fyrir þessari staðreynd en verði ég beðin um það mun ég standa við það sem ég segi.
Æi greyin mín
Voðalega fer það illa í fínu taugar landans ef einhverjum lúða tekst að fá óskir sínar uppfylltar.
Ætli það hafi nú ekki skeð á hærri stöðum að menn hafi skrifað sín eigin meðmæli eða fengið vini sína til þess og sent þau svo til undirritunar? Og hvað með það þótt Geir garmurinn hafi fengið Vigdísi og Ólaf í lið með sér? Skaðar það einhvern? Er það ósiðlegt? Halda áfram að lesa