Mér finnst sorglegt þegar áhugaverðir pistlahöfundar sem hafa hugrekki til að varpa fram óvenjulegum hugmyndum og spyrja óþægilegra spurninga, verða svo oft fyrir persónulegum árásum og skítkasti að þeir neyðast til að loka á möguleikann á að senda inn athugasemdir til að komast hjá því að taka 4 vinnudaga í viku í að verja sig.
Sóley Tómasdóttir gafst upp. Mér þótti það miður, því hún hefur svo sannarlega hrist upp í landanum með róttækum skoðunum sínum. Ég hef sennilega oftar en ekki verið ósammála Sóleyju Tómasdóttur en ég met hana mikils fyrir hugrekki sitt, fyrir að koma inn hjá mér efasemdum um ýmislegt sem ég hef tekið sem gefnu (ekkert örvar mig jafn mikið og að þurfa að takast á við mína eigin fordóma) og fyrir að halda uppi umræðu um kvenréttindi og fleiri mál sem þurfa athygli. Ég hef stundum skrifað færslur þar sem ég hef sett fram skoðanir sem eru algerlega á skjön við hennar og haft gaman af að finna galla á málflutningi hennar. Ég reyndi hinsvegar sjaldan að taka þátt í umræðum á blogginu hennar, vegna þess að sú umræða var oft svo langt frá því að vera málefnaleg. Oft fór umræðan óraveg frá efni færslunnar og einkenndist af stórfurðulegri illgirni manna sem fundu hjá sér hvöt til að ausa yfir Sóleyju persónulegum dónaskap, gera henni upp skoðanir sem hún hafði ekki sett fram eða leiða umræðuna að einkalífi hennar.
Mér finnst undarlegt að fólk skuli halda að slík framkoma sé verðugt innlegg í umræðuna en mér sýnist bloggið hans Ómars Ragnarssonar vera hægt og rólega á sömu leið. Ég læt eitt dæmi nægja íbili: Fyrir viku skrifaði Ómar færslu sem var ætlað að vekja mjög svo þarfa umræðu um það hvort ástæða sé til að endurskoða greftrunarsiði okkar. Þetta er ögrandi hugmynd og eðlilegt að hún veki hörð viðbrögð. Og allt í lagi með það. Þeim sem finnst hugmyndin út í hött er að sjálfsögðu fullkomlega heimilt að lýsa andúð sinni á henni. Mér finnst m.a.s. í lagi að þeir sem telja að Ómar sé vitleysingur segi það hreint út, svo fremi sem þeir rökstyðja það.
Það ber hinsvegar vott um rökþrot, dómgreindarskort og jafnvel illgirni þegar fólk getur ekki rætt hugmyndina án þess að draga persónulega eldsneytisnotkun Ómars Ragnarssonar í marga áratugi inn í umræðuna. Það sem hófst sem umræða um greftrunarsiði er allt í einu orðið að diskússjón um það hvaða bíla Ómar Ragnarsson hefur átt í gegnum tíðina, og hvort hann hafi gengið og langt í því að gríninu meðan hann vann sem skemmtikraftur. Ég á ekki eitt einasta orð! Jú annars; ætli orðið fávitar! nái ekki nokkrunveginn yfir það sem ég vildi sagt hafa. Mér finnst illmenni of töff þótt það sé vissulega ákveðin tegund af lítilmótlegri vonsku sem knýr fólk af þessu tagi.
Ég hef áhyggjur af blogginu hans Ómars. Það eru ekki margir bloggarar sem hafa bæði hugarflug og hugrekki til að pota í smáborgarann í okkur og vekja umræðu um viðkvæm mál. (Sem er auðvitað ekki það sama og að runka sér á persónulegum harmleikjum eða dreifa hatursáróðri eins og ennþá viðgengst á hinum fyrirlitlega, lítt ritstýrða moggabloggsvef þótt Skúli hafi loksins verið stoppaður af.) Það er dýrmætt að sjá mörg ólík sjónarhorn á sama efnið og netið er ágætur vettvangur til harðra skoðanaskipta (sem er auðvitað allt annað en persónulegt skítkast.) Ég hef áhyggjur af því að fámennur hópur ómálefnalegra skítadreifara muni á endanum neyða Ómar til að loka kommentakerfinu. Það þætti mér sorglegt.
—————————-
Ég er hissa á að þú skulir mæla gegn ritfrelsi Eva. Þú yrðir ekki ánægð ef blogginu þínu yrði eytt með litlum fyrirvara.
Posted by: Anonymous | 19.04.2008 | 11:30:55
—————————-
Láttu ekki eins og fífl nafnlaus. Fyrirvararnir eru í skilmálum moggabloggsins.
Annars er ég fyllilega sammála þér Eva.
Posted by: Kristinn | 19.04.2008 | 12:27:16
Jahérna. Mætir ekki anonymous á svæðið og setur inn athugasemd sem undirstrikar á allan hátt að Eva hefur lög að mæla.
Posted by: Eyrún | 19.04.2008 | 16:45:51
—————————-
Ég hef ekkert á móti ritfrelsi. Þvert á móti er ég mjög hlynnt ritfrelsi.
Ég er hinsvegar alfarið á móti því að hvaða himpigimpi sem er sé gefið færi á því að beintengja misgeðsleg viðhorf við fréttavef. Þess eru dæmi að moggabloggarar tengi persónulegar árásir, ósmekklegar spekúlasjónir og dylgjur, jafnvel hreinar rangfærslur við fréttir mbl.is.
Ef einhver vill halda úti áróðursbloggi gegn aröbum þá vil ég endilega að hann fái að gera það í friði. Málflutningur hvers og eins dæmir sig sjálfur og því ætti aldrei að banna fólki að tjá rangar og ógeðfelldar skoðanir. Ég hvet því Skúla til að stofna sína eigin netsíðu og gefa okkur þar með kost á að skoða og leggja mat á það sem hann hefur að segja og helst að svara því líka.
Mér finnst svo aftur einkennileg vinnubrögð ef hroðanum úr Skúla hefur verið eytt án þess að honum gæfist færi á að vista hann. Það hljómar ótrúlega að vefstjórar mbl.is eigi ekki kost á að taka síðu úr birtingu án þess að eyða henni.
Posted by: Eva | 19.04.2008 | 18:29:12
—————————-
Mér finnst nú hálfgerður dónaskapur að líkja Ómari við Sóleyju.
Ómar er víðsýnn hugsjónamaður sem kemur oft með nýja vinkla á málin á meðna Sóley er þröngsýnn ofstækismaður (konur eru menn) sem er ófær um að rökræða nema viðmælandinn sé algjörlega sammála henni.
Ómar er einhverjum ljósárum framar í hugsun.
Posted by: Hugz | 23.04.2008 | 21:41:55