Ég varð ekki vitni að þessu sjálf en framburður viðstaddra er á einn veg; Arinbjörn ekur snögglega beint í átt að Ólafi og bíllinn lendir utan í honum. Svo sem títt er um fólk sem verður fyrir óvæntri morðtilraun, komst Ólafur í geðshræringu, hrópaði ókvæðisorð að Arinbirni og sparkaði í bílinn.
Ólafur Páll kærði árásina. Fjöldi vitna lýsti sig reiðubúinn að gefa framburð sinn en enginn var kallaður til skýrslutöku, nema lögreglumennirnir. Málinu var vísað frá en Ólafur hinsvegar kærður fyrir eignaspjöll!
Auðvitað er hugsanlegt að sjái á bílnum en það þarf ekki mjög sterka siðferðisvitund til að sjá spillinguna og viðbjóðinn við að ásaka mann í þessari aðstöðu um eignaspjöll. Vitanlega komst maðurinn í uppnám en skemmdarverk var þetta ekki. Hann var ekki með nein verkfæri og allir sem hafa séð Ólaf vita að hann er langt frá því að vera naut að burðum.
Sannleikurinn er sá að í þessu máli er Ólafur Páll þolandi. Þetta er ekkert í fyrsta eða annað sinn sem hann verður fyrir ofsóknum af hálfu lögreglunnar og hefur ágangurinn gegn honum gengið svo langt að það rataði í sjónvarpsfréttirnar. Mig minnir að það hafi verið í ágúst 2005, eftir að lögreglan hafði harðneitað því að nokkrir aðgerðasinnar væru undir eftirliti, sem Ómar Ragnarsson myndaði lögreglubíl elta Ólaf m.a. marga hringi um sama hringtorgið. Auðvitað trúir því ekki nokkur maður að lögreglan hafi af einskærri tilviljun verið að hringsóla um sama torg og Ólafur. Þetta var ekki einu sinni illa dulið eftirlit heldur liggur beinast við að álykta að tilgangurinn hafi einfaldlega verið sá að hrella hann.
Aðgerðir lögreglunnar kunna að einhverju leyti að beinast gegn Ólafi persónulega en hann er langt frá því að vera eini umhverfisaktivistinn sem hefur reynslu af þessu tagi. Téður Arinbjörn lék þann leik hvað eftir annað þetta sumar að ógna mótmælendum með því að aka hættulega nærri þeim. Hann er einnig þekktur fyrir óþarfa harðræði við handtökur eða hvaða tilgangi þjóna til dæmis aðgerðir eins og þær að binda fólk með rafmagnsvírum, þegar það veitir ekkert viðnám annað en að leggjast niður, að halda andliti manns í leðjunni í lengri tíma og að skera sundur bakpoka? Ekki þeim tilgangi að halda uppi lögum allavega. Hugsanlega valdhorka og öðrum annarlegum hvötum en ekki þeim sem tilgangi sem hann þiggur laun fyrir að þjóna.
Eignaspjallakæran á hendur Ólafi Páli verður tekin fyrir í héraðsdómi Reykjavíkur kl 13 í dag. Stuðningsmenn hans efna til samstöðufundar á Lækjartorgi kl 12:30 og hvet ég alla sem vettlingi geta valdið til að mæta.
Ég var að koma neðan úr héraðsdómi. Þess er vænst að niðurstaða liggi fyrir um kl 16 í dag.
Samkvæmt framburði lögreglunnar urðu um 30 manns vitni að meintum eignaspjöllum. Skýrsla var tekin af fjórum mönnum, þ.e.a.s. lögreglumönnunum sjálfum.
———————
Ég var föst á fundi og komst ekki. Vonandi er vit í dómurum…
Posted by: hildigunnur | 21.04.2008 | 15:22:18
Dómur kveðinn upp eftir ca 2 vikur. Ég gat ekki verið viðstödd nema stutta stund en hef eftir félaga mínum að verjandinn hafi verið vel undirbúinn.
Posted by: Eva | 21.04.2008 | 16:31:50
Mamma Mia. Ég krossleg fingur og sendi góða strauma til dómaranna.
Posted by: Kristín | 21.04.2008 | 17:41:11
Mér finnst þetta mál alveg með ólíkindum og ég trúi ekki öðru en að dómarinn hendi þessu út.
Posted by: Guðjón Viðar | 21.04.2008 | 22:40:11