Setjum sem svo að ég vinni hjá ríkisstofnun sem hefur það opinbera markmið að gæta hagsmuna öryrkja. Lengi hafa vinnubrögð stofnunarinnar verið harðlega gagnrýnd og upp á síðkastið hefur komið í ljós að í stað þess að standa vörð um réttindi öryrkja, hefur Stofnunin tekið beinan þátt í hneyksli. Halda áfram að lesa
Greinasafn eftir:
Sauður býður sig fram til stjórnlagaþings
Þessi lögspekingur er í framboði til stjórnlagaþings. Hann telur 1010 ára gömul lög enn í fullu gildi.
Þessi menntakona sem heldur að ríkiskirkja sé forsenda jólahalds og að engar kirkjur séu til í ríkjum muslima, telur sig einnig eiga erindi á stjórnlagaþing.
(Þetta kom fram á vef Þjóðkirkjunnar en færslur hennar um frambjóðendur eru ekki lengur aðgengilegar. Hinsvegar vitnar Sigurður Hólm í orð þeirra hér.)
Af meðvirkni
Meðvirkni er í tísku. Bæði það að játa meðvirkni sína og iðrast hennar og einnig að hneykslast á meintri meðvirkni pólitískra andstæðinga eða vorkenna þeim fyrir að eiga svona bágt.
Hvað merkir hugtakið?
Meðvirkni er það að afneita, breiða yfir eða réttlæta vandamál og ólíðandi hegðun annarra. Sú manneskja finnst varla sem dettur ekki einhverntíma í þá gryfju svo það er nú lítið vit í að tala um meðvirkni nema afneitunin sé orðin að síendurteknu mynstri.
Það er ekki meðvirkni þótt foreldri verði það einu sinni á að kenna óvitahætti og slæmum félagsskap um drykkjuskap unglings. Það er hinsvegar meðvirkni að reyna að telja öðrum á heimilinu trú um að krakkaskrattinn fái alltaf vírus á mánudögum. Það er heldur ekki meðvirkni þótt flokksgæðingur kenni öllum öðrum en ríkisstjórninni um afleiðingarnar af einni óheppilegri ákvörðun en þegar menn bera í bætifláka fyrir flokk sem heldur áfram á sömu braut eftir að stefna hans kom ríkinu undir Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, þá getum við kallað það meðvirkni. Reyndar er ég ekki frá því að meðvirkni sé það eina sem allir sjálfstæðismenn eiga sameiginlegt.
Ég hef aldrei sætt mig við þann hugsunarhátt að ef maður styðji stjórnmálaflokk eða grasrótarhreyfingu, þá hafi maður þar með afsalað sér réttinum til að mynda sér sjálfstæðar skoðanir og tjá þær opinberlega. Meðvirkniskortur minn er þó engin dyggð heldur byggist hann á óþoli gegn pólitískum merkimiðum auk þess sem ég er fremur ófélagslynd og lengi að mynda tilfinningatengsl. Ég gæti vel orðið meðvirk ef ég væri í miklum og nánum samskiptum við ‘sjúklinginn’ of lengi en það er einmitt í því umhverfi sem meðvirkni þróast.
Undirrót meðvirkni er ást
Elskandi maki drykkjumanns lýgur því að sjálfum sér að ástandið sé annað hvort skárra en það er, eða einhverju allt öðru en drykkjunni að kenna. Jafnvel þegar hann sér sjálfur hvar vandinn liggur, getur hann átt það til að reyna að slá ryki í augu annarra. Það er meðvirkni, undirrót hennar er ást og hjálpsemi en þegar þjónkunin við alkann bitnar á rétti annarra á heimilinu, geta afleiðingarnar orðið skelfilegar.
Meðvirkni með stjórnmálaflokkum þróast á sama hátt. Sá sem tekur virkan þátt í starfi stjórnmálaflokks eða hreyfingar, myndar tilfinningatengsl við manneskjur, málefni og viðhorf. Það er þessvegna sem pólitísk umræða hefur tilhneigingu til að verða ómálefnaleg og ‘meðvirk’. Fólk er sjaldan reiðubúið að skipta um skoðun á máli sem það hefur barist fyrir af hita og hörku, þrátt fyrir nýjar upplýsingar sem eru algerlega á skjön við forsendur þess, það er bara svo sárt að viðurkenna að maður hafi vaðið í villu og eytt tímanum til einskis eða jafnvel til ógagns. Það er líka auðveldara að fyrirgefa valdsmönnum og áhrifafólki afglöp í starfi þegar nefndir afglapar hafa boðið manni í afmælið sitt og hjálpað bróður manns að flytja.
Viðbrögðin við grein Ármanns Jakobssonar
Grein Ármanns Jakobssonar um endalok meðvirkni sinnar hefur vakið talsverð viðbrögð enda tókst Ármanni þar að móðga á einu bretti, alla hópa skuldara, hvernig sem skuldir þeirra eru tilkomnar og hvar í flokki sem þeir standa.
Reiða jeppakallinum sem með góðærisglígju í augum safnaði neysluskuldum og vill fá draumahúsið sitt að gjöf, finnst að sér vegið enda óþægilegt að fá umbúðalausan sannleikann í smettið. Hann vandar hinum strætisvagnaelskandi háskólauppskafningi ekki kveðjurnar en sennilega skammast sín líka pínulítið.
Atvinnulausi strætókortseigandinn sem missti bílinn sinn þegar hann gat ekki lengur borgað af láninu og er kominn í bullandi vanskil gagnvart íbúðalánasjóði er jafnvel ennþá móðgaðri en jeppinn. Honum finnst ríkisstarfsmaður, sem hvorki þarf að óttast atvinnuleysi né húsnæðismissi, óþarflega hofmóðugur þegar hann leyfir sér að kalla atvinnu- og heimilislausa vinnuveitendur sína ‘öskrandi jeppaeigendur’. Já, vinnuveitendur segi ég, því enda þótt sá atvinnulausi greiði ekki tekjuskatt þarf hann að borga virðisaukaskatt af öllu sem hann kaupir og fasteignagjöld af íbúðinni sem hann skuldar að 150 prósentum.
Hann kærir sig eiginlega ekki um að Ármann fái krónu til viðbótar úr ríkiskassanum en hann segir samt ekkert strax. Ekki fyrr en konan hans er farin að skella hurðum og segja að næst verði hann sjálfur að húka í röðinni hjá fjölskylduhjálpinni. Lágtekjufólk er nefnilega svo vant því að fá það framan í sig að það greiði ekki skatt og ætti því ekki að leyfa sér að hafa skoðanir á ríkisútgjöldum (og hvet ég boðbera þess viðhorfs til að hoppa upp í sjálfstæðisflokkinn á sér) að hann nennir ekki að ræða þetta lengur, heldur ákveður að borða eggin frá fjölskylduhjálpinni og taka frekar með sér stein á næsta mótmælafund.
Meðaljóninn sem enn stendur í skilum og ekur Toyotu í góðu standi er líka sármóðgaður. Árið 2007 hélt hann að nú væri hann loksins að verða ríkur og var jafnvel farinn að gæla við drauminn um sumarbústað. Hann á ekki nógu bágt til að hafa beinlínis rétt til að væla en hann er skíthræddur um að missa vinnuna og líður djöfullega í egóinu sínu. Nú getur hann ekki lengur borgað tómstundastarf fyrir börnin, keypt ný föt og farið í sumarfrí og þótt hann geti vel neitað sér um lúxus, þjáist hann af vanmetakennd yfir því að standa ekki lengur undir klassakröfum fjölskyldu og samfélags.
Hann hefur líka marga nóttina legið andvaka af reiði yfir því að kallarnir sem komu honum í þessa aðstöðu, fái sjálfir skuldir sínar afskrifaðar og geti haldið braskinu áfram. Hann ætti auðveldara með að sætta sig við hrakandi kjör ef eitthvert réttlæti væri í sjónmáli.
Auk þess mætti hann ekki aðeins sjálfs sín vegna (enda kaus hann þessi stjórnvöld yfir sig sjálfur og finnst þessvegna að hann ætti kannski bara að þegja) heldur aðallega vegna þess að gamla konan á neðri hæðinni, sem hefur gengið í sömu kápunni í 14 ár, er komin í biðröðina hjá fjölskylduhjálpinni og það var þá fyrst sem hann áttaði sig á því að eftir efnahagshrun lenda fleiri en óreiðumenn og væluskjóður í vandræðum.
Meðvirkni er ekki það sama og meðlíðan
Ármann segist, allt fram til 4. október sl., hafa sýnt ákveðna meðvirki með skuldugu fólki. Ég trúi því að Ármann hafi fundið til meðlíðunar með þeim sem eru að missa heimili sín, því Ármann er góðmenni og hefur alla tíð sýnt samúð með lítilmögnum. Ég trúi hinsvegar ekki á meðvirkni hans. Ég trúi því ekki að Ármann hafi nokkurntíma, svo lengi sem eina mínútu, trúað því að fólk sem hefur safnað skuldum sem það hefði getað forðast, með því að búa þröngt, borða grjónagraut og hjóla í vinnuna, geti nokkrum öðrum en sjálfum sér um kennt.
Það er staðreynd að Ármann Jakobsson hefur búið við meira öryggi en margir þeirra sem sjá ekki fram úr skuldum sínum í dag. Hafa og ýmsir látið í ljós þá skoðun sína (með hinum svaðalegasta fúkyrðaflaumi) að með þægilegu starfi og fjárhagslegu öryggi hafi Ármann fyrirgert málfrelsi sínu. Það er svo aftur önnur staðreynd að Ármann er hvorki kvótaerfingi né útrásarvíkingur, heldur ávann hann sér öryggi sitt sjálfur, með ráðdeild, dugnaði og hófsemi. Hann gerir sér grein fyrir því að skuldasafnarar eru ekki allir blásaklaus fórnarlömb kreppunnar og þótt hann hafi ekki beinlínis kallað skuldara ‘klingjandi heimskar óráðsíu yfirdráttardruslur’, hefur hann margsinnis bent á firringuna og áhættuna sem ofneysla hefur í för með sér. Það sem gerðist í kollinum á Ármanni þann 4. október var ekki ‘endalok meðvirkni hans’ því meðvirkur var hann aldrei. Allavega ekki með skuldurum. Meðlíðun á nefnilega ekkert skylt við meðvirkni.
Meðvirkni Ármanns
Mig rennir hinsvegar í grun að Ármann hafi lengi verið haldinn ákveðinni meðvirkni gagnvart stjórnmálaflokknum sínum, bæði fólki og viðhorfum, allavega minnist ég þess ekki að hafa nokkurntíma séð hann gagnrýna vg eða forystumenn flokksins fyrir neitt. Ég hef enga trú á því að það sé vegna þess að Ármanni hafi aldrei þótt neitt sem gert hefur verið í nafni vg gagnrýnivert.
Ég hef heldur enga trú á því að Ármanni finnist í alvöru að mótmæli eigi ekki rétt á sér þegar stjórnvöld sem gefa sig út fyrir að vera vinstri sinnuð;
-beita niðurskurðarhnífnum á heilbrigðiskerfið á sama tíma og þau halda uppteknum flottræfilshætti þegar sendiráðsbústaðir eru annars vegar.
-einkavæða og selja ríkisfyrirtæki
-kunna engin ráð gegn auknu atvinnuleysi og atgervisflótta
-láta banka í eigu ríkisins komast upp með að slá striki yfir milljarða skuldir auðkýfinga.
Ég held að Ármann horfist bara ekki í augu við það að stjórnmálaflokkar eru í eðli sínu valdsæknir og að hans flokkur er ekkert öðruvísi en aðrir flokkar að því leyti að hann mun alltaf setja hugsjónir sínar skör neðar voninni um völd. Ég hef trú á ýmsum þingmönnum vg og fólki sem starfar í grasrótarhreyfingum tengdum flokknum en ég hef enga trú á flokknum sem slíkum, fremur en nokkrum öðrum pólitískum flokki.
Ég trúi því að Svandís Svavarsdóttir sé í einlægni mótfallin stóriðju, að Ögmundur Jónasson hafi raunverulegan áhuga á mannréttindum og að Stefán Pálsson hati Nató meira en krabbamein, alnæmi og Sjálfstæðisflokkinn samanlagt. Ég hef hinsvegar enga trú á því að ef valið stæði á milli þess að fórna Þjórsárverum, skerða réttindi flóttamanna og fylgja Nató inn í Íran EÐA að fórna setu í ríkisstjórn, þá yrðu hugsjónirnar látnar ráða.
Ég spái því að:
-Varnarmálastofnun verði ekki lögð niður 1. janúar, heldur verði því frestað til 1. apríl og svo aftur.
-Fram að næstu kosningabaráttu, verði ekki tekið eitt einasta skref í átt að úrsögn Íslands úr Nató.
-Ísland muni ekki viðurkenna ríki Palestínumanna á þessu kjörtímabili.
-Ísland muni ekki fordæma meðferð Kínverja á Tíbetum á alþjóðavettvangi.
-Fram að næstu kosningabaráttu verði umhverfissjónarmið hvað eftir annað látin víkja fyrir voninni um efnahagslegan ábata og að stjórnarflokkarnir kenni hvor öðrum, Sjálfstæðisflokknum og kreppunni um það.
-Í stjórnartíð vg verði erlendum aðilum seldur nýtingarréttur á auðlindum þjóðarinnar, ekki í stórum stíl heldur bara til að redda einhverju fyrir horn.
-Fleiri auðmenn fái milljarða gjafir frá Ármanni og öðrum skattgreiðendum í formi afskrifta.
-Athafnamenn og fyrirtækjabraskarar sem þegar hafa sýnt af sér vafasama viðskiptahætti fái bunch of money úr vasa Ármanns og annarra skattgreiðenda í formi uppbyggingarlána og/eða styrkja.
-Pólitískar stöðuveitingar verði réttlættar með orðunum ‘hann á ekki að gjalda fyrir ætterni sitt/vináttu sína/pólitísk afskipti sín’.
Ennfremur spái ég því að Ármann Jakobsson muni samt ekki skrifa pistil um endalok meðvirkni sinnar með vg.
Eva | 17:34 | Varanleg slóð |
TJÁSUR
BRAVÓ!!!!!
Djöfull ertu góð.
Posted by: anna | 4.11.2010 | 19:07:43
Verð að viðurkenna að ég stiklaði á stóru. Hafði ekki eirð í að lesa hvern stafkrók. Athyglisbresturinn, sjáðu.
Ármann er sjálfsagt ágætis drengur. Þó er hann meðvirkur. Meðvirkni er oftar en ekki tengd áfengisneyslu, en þó þarf ekki því til að dreifa að fólk verði meðvirkt.
Sjálfur var ég meðvirkur á yngri árum, en hef fyrir löngu þroskað sjálfan mig út úr því rugli. Ég ólst upp við áfengisneyslu og allt stuðið og stemmninguna sem því fylgir.
Hins vegar var ég eitt sinn kvæntur. Konu sem var (og er) meðvirkari en bæði andskotinn og ég. Þó voru engin deyfilyfjavandamál í hennar uppeldi.
Posted by: Krulli | 4.11.2010 | 20:38:49
Frábær grein!
Posted by: Ibba Sig. | 4.11.2010 | 20:59:48
einu endalokin sem ég upplifði voru virðing mín á pistlahöfundi sem svo sannarlega var til staðar. Eftir að hafa orðið vitni að því að 68 ára lífeyrisþegi missi ofan af sér og borði pönnukökur í öll mál til að ná endum saman efast ég ekki um neyð í landinu mínu þó ég sé kannski ekki persónulega að upplifa hana. Vonandi verð ég meðvirkur alla mína ævi
Posted by: páll heiðar | 5.11.2010 | 16:42:44
Ármann var ekki að afneita fátækt á Íslandi Palli. Hann tók stórt upp í sig með því að tala eins og allir sem mótmæla ríkisstjórninni í dag hafi offjárfest en hann hefur aldrei afneitað því þörf sé á sérstökum aðgerðum til hjálpar þeim verst stöddu.
Posted by: Eva | 5.11.2010 | 19:08:47
Þeórískt séð
Ég hef samanlagt tólf ára reynslu af því leigja íbúðarhúsnæði á Íslandi. Þar af bjó ég í sama húsinu í rúm 3 ár. Húsið var gott, leigan lág og þar sem húsið var í eigu sveitarfélagsins og fylgdi starfinu mínu, þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af því að leigusalinn tilkynnti mér að hann þyrfti að fá íbúðina sína aftur og ég þyrfti því að flytja. Þetta var góður tími. Áður hafði ég búið í 3 ár á öðrum stað þar sem húsnæði fylgdi starfi. Það var líka ágætt.
Hin 6 árin sem ég bjó í leiguhúsnæði, leigði ég samtals 11 íbúðir. Ástæðurnar fyrir þessum tíðu flutningum voru eftirfarandi: (Hér kemur leiðinleg upptalning sem hægt er að sleppa án þess að missa af neinu úr pistlinum)
1. staður: Ég átti ekki fyrir fyrirframgreiðslu (enda hefði ég þá alveg eins getað keypt) og fékk því aðeins íbúð sem stóð bara til að leigja út í 3 mánuði.
2. staður: Skömmu eftir að ég flutti inn fékk ég tilkynningu um að til stæði að rífa húsið (sem var óíbúðarhæft og það eina sem ég fann sem ég stóð undir fjárhagslega) og fékk ákveðinn frest (ég man ekki hve langan) til að flytja. Fór strax að leita og flutti áður en fresturinn rann út, eftir 8 mánaða búsetu í músétinni brunagildru. Húsið var samt ekki rifið fyrr en nokkrum árum síðar.
3. staður. Ég fékk íbúð en flutti eftir 8 mánuði þegar mér bauðst vinna með húsnæði úti á landi. Þar var ég í 3 ár.
5. staður. Ég ákvað að fara í Háskólann og flutti því í bæinn, fann eftir mikla leit íbúð sem var til leigu í 6 mánuði.
6. staður. Eftir rúmt ár á sama stað skildi dóttir leigusalans við manninn sinn og vantaði húsnæði svo ég var beðin að flytja. Ég hefði getað komist upp með að sitja lengur í íbúðinni en gat ekki hugsað mér að vera þar sem ég væri óvelkomin.
7. staður. Hér var leigan var svo há að ég þurfti að vinna allar helgar og oft á kvöldin í miðri viku til að ná endum saman. Ég hefði getað verið lengur þar en tók því fagnandi þegar mér bauðst ódýrari íbúð.
8. staður: Ég sagði leigunni upp sjálf þegar ég fékk úthlutaðri verkamannaíbúð fyrr en ég átti von á, eftir að amma mín hafði (án samráðs við mig og í fullkominni óþökk minni) heimtað greiða af áhrifamönnum í flokksklíkunni sinni. Enn í dag veit ég ekki hvort mér var troðið fram fyrir öryrkja sem svaf í hjólhýsi eða eitthvað í þá veruna en ég afþakkaði ekki íbúðina heldur lét mér nægja að lesa yfir ömmu minni og réttlætti það að þiggja íbúðina með þeim rökum að yngri sonur minn, fjögurra ára að aldri, myndi þegar eftir 4 heimilum. Svona getur maður nú verið mikill hræsnari. Ég var lengi með samviskubit gagnvart leigusalanum fyrir að fara með stuttum fyrirvara enda þótt ég vissi af reynslunni að eftirspurnin eftir íbúðum af þessari stærð var mun meiri en framboðið. Ég bjó í þessari íbúð í 3 ár en fór þá út á land í öruggt húsnæði sem fylgdi vinnunni.
10. staður
Ég þurfti að brúa nokkurra mánaða bil þar til ég fengi afhenta íbúð sem ég var að kaupa (vegna þess að það var útilokað að fá örugga langtímaleigu) og leigði því húsnæði sem hentaði fjölskyldunni engan veginn. Var þar í 5 mánuði. Bjó svo í eigið húsnæði úti á landi þar til ég flúði í betra menningar og atvinnuumhverfi. Mér tókst að leigja íbúðina út en gat ekki fengið fyrirframgreiðslu
12. staður: Ég átti ekki fyrir fyrirframgreiðslu en fékk íbúð til 5 mánaða.
13. staður: Ég fékk langtímaleigu, jibbý. Var þar í eitt ár en leigusalinn var rambandi á barmi gjaldþrots og íbúðin var seld ofan af mér.
14. staður: Húsið mitt úti á landi seldist og ég keypti íbúð en var í millitíðinni í 3ja mánaða leigu
Oftar en ekki var það leigumarkaðurinn, fremur en mínar eigin ákvarðanir sem voru undirrót flutninganna. Leigumarkaðurinn á Íslandi er, eða hefur allavega lengst af verið, óboðlegur fólki sem vill vita hvar það muni búa næstu jól. Þessvegna reyna flestir að kaupa húsnæði, hvort sem þeir geta það eða ekki. Þegar ég festi fyrst kaup á húsnæði, hafði ég í rauninni ekkert efni á að kaupa. Málið er bara að ég hafði heldur ekki efni á að leigja og flutningar eru ekki bara sálarslítandi, þeir kosta líka helling af peningum. Ég ‘fiffaði greiðslumat’, þóttist t.d. ætla að vera bíllaus og sýndi þar með fram á útgjaldalækkun.
Sannleikurinn er sá að ég ætlaði aldrei að vera bíllaus. Ég keypti uppi í Fellahverfi, var í Háskólanum, með tvö börn í leikskóla uppi í Lækjarbotnum. Námslánin dugðu ekki til að reka heimili og bíl, auk útgjaldanna við húsnæðiskaupin. Að vísu þurfti ekki að borga neitt nema vexti og verðbætur fyrstu tvö árin ef ég man rétt en ég hafði tekið lán fyrir fyrirframgreiðslunni og til að ná endum saman vann ég með skólanum.
Hefði ég getað verið bíllaus? Þeórískt séð já. Að vísu vann ég við að skúra veitingahús á næturnar þær helgar sem drengirnir mínir voru hjá pabba sínum og enginn strætó sem gekk á þeim tíma en mikið rétt, ég hefði líklega komist hjá því ef ég hefði sleppt bílnum.
Þeórískt séð já, en fljótlega eftir að ég flutti í Torfufellið bilaði bílinn. Ég var bíllaus í viku og nei, vitiði það, það stóð einfaldlega þannig á strætóferðum að dæmið gekk bara heldur ekki upp á daginn.
Auðvitað hefði ég getað látið strákana skipta um leikskóla. En ef ég hefði þvælt þeim á milli leikskóla í hvert sinn sem ég flutti á milli hverfa og bæja, þá hefði ég sennilega staðið frammi fyrir öðrum vandamálum og alvarlegri en þeim að þurfa að reka bíl.
Kom ég mér í þessar aðstæður sjálf? Já, það gerði ég sannarlega. Ég hefði getað frestað barneignum, búið í föðurhúsum þar til ég var komin í góða framtíðarstöðu og orðin fær um að kaupa litla íbúð í göngufæri við vinnustað og skóla. Eða það sem hefði verið betra, að leita og leita og finna að lokum litla, langtíma leiguíbúð í eigu sveitarfélags eða fyrirtækis sem myndi örugglega ekki fara á hausinn eða biðja mig að rýma fyrir ættingjum sínum. Jájá, þeórískt séð hefði ég aldrei þurft að standa í húsnæðishrakningum og aldrei þurft að eiga bíl.
Í dag er ég blessunarlega bíllaus og bý í lítilli, öruggri leiguíbúð. Ef þarf að skipta um vatnslagnir kostar það mig ekki krónu aukalega. Ef þarf að rýma íbúðina vegna viðhalds, verður mér útvegað annað húsnæði á meðan, í sama hverfi. Ef ég vil flytja þarf ég að segja upp með 3ja mánaða fyrirvara. Ef leigusalinn vill losna við mig (sem gerist ekki nema vegna langvarandi vanskila eða mjög óeðlilegrar umgengni) þarf hann að gefa mér árs frest. Mér finnst gott að leigja -EN ég bý líka í útlöndum núna.
Þeórískt séð hefði ég alltaf getað haft þetta svona. Ég hefði getað flutt til útlanda 18 ára og ég hefði líka getað komið mér í mjög svipaðar aðstæður á Íslandi.
Þeórískt séð já. En veruleikinn er bara ekkert sérlega þeórískur.
Eva | 17:11 | Varanleg slóð |
TJÁSUR
Áttirðu nokkrar bækur? 🙁
Posted by: Guðmundur Óafsson hagfræðingur | 2.11.2010 | 17:19:39
Já og flutti þær með mér þar til ég horfðist í augu við það árið 2004 að flestar þeirra höfðu aðeins verið lesnar einu sinni. Þá fór ég smám saman að losa mig við þær og í dag á ég aðeins handbækur og til viðbótar kannski svona 20 perlur sem skipta mig máli. Bækur eiga best heima netinu, næst best á bókasöfnum.
Posted by: Anonymous | 2.11.2010 | 18:22:14
Hvað kemur starf manns málinu við?
Allsstaðar er maður spurður um starfsheiti, jafnvel fyrir dómi.
Vandséður er tilgangur þess að spyrja fólk um starfsheiti í réttarsal nema starf þess komi málinu beinlínis við. Það er eðlilegt að starfsheiti og eða menntun komi fram þegar læknir gefur læknisfræðilegt álit en hvaða máli skiptir það annars hvort vitni er ráðherra, öryrki eða pípulagningamaður? Ef dómurinn hefur ekki hug á að nota þær upplýsingar, hversvegna er þá falast eftir þeim?
Einhvernveginn læðist að mér grunur um að sumt fólk þyki í krafti stöðu sinnar marktækara en annað og einmitt þessvegna er jafn illa við hæfi að starfsheiti sé standardspurning fyrir dómi og að krefja vitni svara um hvaða sjónvarpsþáttum þau fylgist með eða hvort þau fari reglulega til tannlæknis.
Safaríkt svar frá mannréttindaráðherra
Ég hef töluvert álit á Ögmundi Jónassyni. Allavega tel ég hann öðrum líklegri til að koma góðum hlutum til leiðar sem dómsmálaráðherra og yfirleitt kemur hann mér þannig fyrir sjónir að hann hafi sterka réttlætiskennd, sé sjálfum sér samkvæmur en jafnframt víðsýnn og tilbúinn til að hlusta á almenna borgara þegar þeir deila skoðunum sínum með honum. Ég varð því dálítið hissa í morgun þegar ég opnaði tölvupóstinn minn og las svar við erindi sem ég sendi inn á vefsetur hans, líklega á mánudaginn.
Þetta var örstutt fyrirspurn um það hvort mannréttindaráðuneytið hefði beitt sér eða hyggðist á einhvern hátt bregðast við máli írönsku konunnar Sakineh Ashtiani sem nú situr í fangelsi í Tarbriz og bíður þess að vera grafin niður í holu og grýtt til bana. Ég hef oft skrifað ráðamönnum og opinberum stofnunum vegna mannréttindamála og yfirleitt hef ég fengið svör, misgóð að vísu, oft bara einhverja klisju um að viðkomandi muni ‘fylgjast með þessu máli’ (hvernig sem það á nú að hjálpa) en næstum alltaf benda svörin til að einhver hafi allavega lesið bréfið. Össur Skarphéðinsson, svaraði t.d. sama erindi frá mér í síðustu viku og sagðist hafa mótmælt dómnum í bréfi sem var afhent sendiherra Irans í Noregi. Að vísu má ekki birta það bréf opinberlega og maður hlýtur að velta því fyrir sér hversvegna þurfi leynimakk í kringum álit íslenskra stjórnvalda á mannréttindabrotum, en hann svaraði þó allavega eins og hann hefði lesið tölvupóstinn.
Svarið sem ég fékk við bréfi mínu til Ögmundar var sent frá netfanginu safi@bsrb.is. Hraðleit á google bendir til þess að eigandi þessa netfangs sé upplýsingafulltrúi bsrb og það er svosem gott mál ef bsrb hefur áhuga á mannréttindamálum. Ég veit samt ekki alveg hvort ég á að túlka svarið sem merki um að Ögmundur áframsendi slík erindi til vina sinna hjá BSRB, að Ögmundur sjálfur deili netfangi með Sigurði eða sem merki um að einhver fáviti hafi komist í tölvupóstinn.
Svarið er stutt og laggott og skrifað í hástöfum:
ÞÓTTI VÆNT UM BRÉF ÞITT. KÆRAR ÞAKKIR. KV. ÖGMUNDUR
Vilhjálmur Egilsson er bjánakeppur
Á föstudaginn varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að hlusta á 5 misklikkaða karla tjá sig um skoðanir sínar á því hvort virkjanastefna bæri frekar vott um skynsemi eða geðbilun. Ég hef fylgst sæmilega með umræðunni um virkjanamál og svo áhugavert sem umræðuefnið er, var fátt nýtt í málflutningi karlannna, með einni undantekningu þó. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífins, afrekaði að koma mér á óvart.
Inntakið í ræðu Vilhjálms var mikilvægi hagvaxtar og nauðsyn þess að líta til þeirra fyrirtækja og stofnana sem lengst hefðu lifað og mestum arði skilað, því eitthvað hlytu þau að hafa gert rétt. Hann nefndi sérstaklega kaþólsku kirkjuna og Kaupfélag Skagfirðinga í því sambandi. Ekki fór hann nánar út í það hvernig má heimfæra vinnubrögð og siðferði þeirra fyrirtækja upp á orkuframleiðendur og áliðnaðinn en já, ég skil hvað hann á við.
Að framsöguerindum loknum var Vilhjálmur spurður hvernig hann ætlaði að réttlæta það að byggja efnahagslíf þjóðarinnar á hugmyndafræði sem einkenndist af græðgi og hroka. Hann svaraði á þá leið að grægði og hroki væru vissulega lestir og gætu leitt til slæmra ákvarðana en þessir lestir væru nú samt eldri en bæði brennivín og framhjálhald. Svo hélt hann áfram að þrugla um Kaupfélag Skagfirðinga og kaþólsku kirkjuna en bætti um betur og talaði um gríðarlega framsókn Kínverja í efnahagsmálum, sem þeir gætu að verulegu leyti þakkað virkjanastefnu sinni. Hann var þá spurður hvort hann vissi ekki hvernig Kínverjar hefðu fótumtroðið náttúruverndarsjónarmið. Vilhjálmur svaraði að bragði að hann héldi nú að það hlyti bara að fara að lagast hjá Kínverjunum. Ekki skýrði hann það nánar.
Semsagt kaþólska kirkjan og Kaupfélag Skagfirðinga eru þau fyrirtæki sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins vill að Íslendingar taki sér til fyrirmyndar enda græðgi og hroki með elstu syndum mannsins. Virkjanastefna Kínverja getur einnig orðið okkur hvatning til að halda áfram á sömu braut enda mun þetta með náttúruspjöllin nú sjálfsagt reddast.
Ég hef ekki næga þekkingu á geðsjúkdómum til að meta það hvort veruleikafirring af þessu tagi teljist sjúkleg eða ekki og mér er eiginlega alveg sama. Ég veit heldur ekki hvort Vilhjálmur getur leyst nógu mörg verkefni á greindarprófi til að slaga upp fyrir fávitamörkin og mér er eiginlega alveg sama um það líka. Málflutningur þessa valdamanns er einfaldlega of bjánalegur til þess að það þjóni tilgangi að reyna að mæla vandamálið eða gefa því nafn og ekki ætla ég að móðga geðsjúka eða þroskahefta með því að líkja þeim við þennan bjánakepp. Ég mælist þó til þess að næst þegar ætlunin er að halda uppi vitrænni umræðu um virkjanamál, efnahagsmál eða annað sem skiptir máli, verði fundinn ræðumaður sem hefur eitthvað fram að færa annað en hreinræktaða þvælu. Það er víst nógu slæmt að bjánakeppir af þessu tagi hafi áhrif á mikilvægar ákvarðanir þótt maður þurfi ekki líka að sitja undir bullinu í þeim á málþingum.
Eva | 14:58 | Varanleg slóð |
TJÁSUR
Var þarna og tek undir þetta. Held þó að ekki geti verið von á vitrænni umræðu þegar íslenskir karlmenn eru annars vegar. Unga fólkið og þú voruð með bestu spurningarnar. Engin svör skiptu máli, en það var þess virði að vera þarna til að heyra í ungu hugsjónafólki sem bendir á að setja þessa hluti í stóra samhenginu.
Svo fannst mér frábært að fundurinn skildi leysast upp í stjórnleysi. Það gæti bent til þess að Íslendingar séu loksins að þora að sýna óhlýðni og tilfinningar.
Posted by: Margrét Sigurðardóttir | 19.09.2010 | 16:17:05
Verst að hafa misst af þessum sirkus, Vilhjálmur er magnað dæmi um veruleikafirringu og siðleysi. Greini ég annars einhvern biturleika hjá Margréti og hennar alhæfingum?
Posted by: Gísli Friðrik Ágústsson | 19.09.2010 | 16:56:05
Ljótt er að heyra. Ég hef það fyrir venju, þegar ég tel alla sem eru mér ósammála vera fífl og bjánakeppi, þá lít ég í eigin barm. Þá hlýt ég að vera mjög vitur og lítill bjánakeppur. Kemur mér á óvart hve sterk þú ert í efnahagsmálum kæra Eva.
Posted by: G | 19.09.2010 | 17:37:38
Ég hef ekkert vit á efnahagsmálum. Ég hef hinsvegar vit á réttlætismálum og það var sannarlega ekki með réttlæti sem kaþólska kirkjan eignaðist auðæfi sín. Sögu kaupfélags Skagfirðinga þekki ég ekki nógu vel til að dæma en eins og bjánakeppurinn tók reyndar fram eru menn misjafnlega ánægðir með kaupfélagsstjórann. Það má því vel vera að við ættum kannski að slá varnagla áður en við ákveðum að taka þetta fyrirtæki til fyrirmyndar.
Ennfremur veit ég, það sem góðir arðhyggjumenn, eins og Tryggvi Þór, kjósa oft að líta fram hjá, að stóriðja (og reyndar stórfyrirtækjastefna almennt) er nátengd mannréttindabrotum. Eins og orðið hagvöxtur hljómar annars vel, er sá hagvöxtur sem byggir á því að níðast á smælingjum, sjúkur, rangur og ógeðfelldur, rétt eins og auður kaþólskur kirkjunnar.
Posted by: Eva | 19.09.2010 | 18:59:59
Á Íslandi er slegist um störf í stóriðju. Ég held að mynd þín af stóriðju sé úr bókum Dickens eða öðrum nítjándu aldarbókum. Snaran er álíka fráleit heimild. Stóriðja hefur fært íslensku verkafólki hugmynd um miklu betri vinnustaði en þeir hafa átt að venjast.
Posted by: G | 20.09.2010 | 5:49:46
Mín mynd af stóriðju er ekki frá Dickens heldur frá Amnesty International (http://www.amnesty.is/hvadthugetur/griptu-til-adgerda/nr/1796) og heimildamyndum frá síðustu árum. Þín mynd er frá íslenskum vinnustöðum og þú kýst sjálfur að snúa blinda auganu að viðbjóðnum sem á sér stað áður en súrálið kemur til Straumsvíkur. Því miður hefur þú ekki einu sinni heimsku þér til afsökunar.
Posted by: Eva | 20.09.2010 | 8:24:03
Það er nú ekki allt jafnfagurt sem fer fram inni á vinnustöðum stóriðjunnar. Tíð og alvarleg vinnuslys, til dæmis.
Gaman annars að sjá orðið „bjánakeppur“ á … tja, á prenti. Ég held að ég hafi nefnilega fundið það upp.
Posted by: Vésteinn Valgarðsson | 20.09.2010 | 14:17:30
þú hefur líklega ekki verið á togurum
Posted by: G | 21.09.2010 | 22:53:26
Ég heyrði þetta ágæta orð fyrst haft eftir þér fyrir nokkrum árum Vésteinn. Mér þótti það gott og það hefur tilheyrt virkum orðaforða mínum síðar.
Posted by: Eva | 22.09.2010 | 7:34:51
Heyrðu annars, ég var að reyna án árangurs að senda þér tölvupóst. Heyrir gamla póstfangið þitt sögunni til?
Posted by: Vésteinn Valgarðsson | 26.09.2010 | 17:33:35
Já ég er með eva@norn.is núna.
Posted by: Eva | 29.09.2010 | 6:40:33
Já ég er með eva@norn.is núna.
Posted by: Eva | 29.09.2010 | 6:41:06
Kúl.
Posted by: Vésteinn Valgarðsson | 29.09.2010 | 23:16:34
Þjóðernishyggja er af sömu rót og trúarbrögð
Ég er nokkuð viss um að Dylan hefur verið undir áhrifum af þessum söng þegar hann samdi With God on Our Side.
Af rassgötum og tussum
Ég nota orðið rassgat sem vægt blótsyrði, svona til að gefa til kynna að mér sé eilítið sigið í skap.
-Rassgat, segi ég ef kaffifilterinn rifnar og korgurinn rennur ofan í könnuna.
-Rassgat, hnussa ég þegar ég sé svona fyrirsagnir. Ég get líka átt það til að biðja syni mína um að rassgatast til að ganga betur um, segja að krakkarassgatið hafi skilið frystinn eftir opinn eða að einhver sem mér finnst vera of langt í burtu frá mér, búi úti í rassgati.
Ég nota rassgat ekki sem blótsyrði af því að ég hafi sérstaka óbeit á rassgötum. Rassgöt eru stórfín til síns brúks og ég reikna með að langflestir séu nokkuð sáttir við sitt eigið. Því síður táknar óánægja mín með að geta ekki stjórnað búsetu vina minna að ég sé harður andstæðingur byggðastefnu eða mér finnist börn ómerkilegri lífverur en annað fólk þótt tiltekið krakkarassgat geti reynt á þolrif mín um stundarsakir. Rassgat er bara orð sem ég nota til að tjá ergelsi. Ég hugsa ekki einu sinni sérstaklega um rassgöt þegar ég nota orðið í þessháttar merkingu og þótt myndmálið sé skemmtilegt á ég ekki við að bókstaflegt heljarstökk, hvað þá líffræðilegt endaþarmsop, þegar ég bendi Samfylkingingunni vinsamlegast á þann möguleika að hoppa upp í rassgatið á sér.
Þessari mynd af Samfylkingunni stal ég af myndasíðum google.
Tungumálið afhjúpar viðhorf okkar, svo langt sem það nær. Það að rassgat skuli hafa dálítið neikvæða merkingu í daglegu tali segir okkur eitthvað um afstöðu menningarsamfélags okkar til líkamans og skáldskaparhefðin staðfestir hana. Öll ástarskáld yrkja um augu, mörg um hár, barm og hendur en rassgöt koma sjaldan fyrir í ástarkveðskap. Tali skáld á annað borð um rassa (sem er sjaldgæft), hafa fagrar konur lendar, tröllkonur þjóhnappa og feitar kjeddlingar afturenda eða skut. Ég man ekki eitt einasta dæmi úr íslenskum ljóðum eða skáldsögum þar sem bakrauf er vegsömuð og trúað gæti ég að fyrsta skáldið sem yrkir hástemt lofkvæði um hina unaðsbleiku stjörnu sinnar heittelskuðu verði talið til gárunga. (Hér hefði verið gaman að vísa á mynd af fallegu rassgati en einu borumyndirnar sem komu upp þegar á leitaði að ‘anus’ á google voru af gylliniæð, njálg, Opruh Winfrey og svo kennslubókarteikningar.) Reyndar man ég heldur engin dæmi um að önnur líkamsop séu beinlínis mærð en menn eiga þó til að hvísla í eyru og það þykir sjálfsagt að anda að sér ilmi. Tilvist hlusta og nasa er þannig viðurkennd þótt þessum líkamshlutum sé ekki gert hátt undir höfði en tilgangur rassgatsins er hinsvegar algert tabú (af skiljanlegum ástæðum).
Niðurstaða; rassgöt þykja ekki fín og jafnvel þótt orðið geti haft yfir sér jákvæðan blæ þegar smábarn er kallað rassgat í bala, vegur það ekki á móti neikvæðu merkingunni. Auk þess verður litla rassgatið seint talið virðulegt og álit þess verður ekki veigamikið fyrr en það er hætt að vera svona mikið rassgat.
Tungumálið afhjúpar okkur -já, en samt sem áður segja orðin sem við notum ekki allan sannleikann um viðhorf okkar, það þarf að setja þau í samhengi líka. Þegar ég slæ upp ‘algjört rassgat’ á myndasíðum google, er þetta fyrsta myndin sem kemur upp en það hvarflar ekki að mér að það sé merki um hundahatur. Það bendir heldur ekki til kvenfyrirlitningar að nota orðið tussufínt.
Nei, rassgöt þykja ekki fín. Það þykja tussur ekki heldur. Og það er í sjálfu sér umhugsunarvert. Hugsanlega jafnvel eitthvað sem við ættum að breyta og þar sem tungumálið lýsir ekki aðeins veruleika okkar heldur skapar hann líka, er það eitt þeirra tækja sem við getum notað til að móta viðhorf. Já, reyndar alveg tussufínt tæki.
Þessi voðalegu orð
Ef maður sem hefur beitt þig andlegu, líkamlegu, fjárhagslegu og kynferðislegu ofbeldi árum saman tekur upp á því að hanga öllum stundum fyrir utan heimili þitt, þarf margra mánaða ferli til að fá því framgengt að honum verði bannað að koma nálægt þér áður en hægt er að fá lögregluna til að fjarlægja hann. Dæmin sanna þó að mjög erfitt er að fá nálgunarbann með dómi því ferðafrelsi ofbeldismannsins er talið dýrmætara en öryggi þolandans.
Það þarf hinsvegar ekki meiri ógn en skilti með áletrun á borð við stríð er glæpur til þess að maður sem aldrei hefur verið orðaður við ofbeldi af nokkru tagi, sé fjarlægður af almennri gangstétt og handtekinn ef einhverjum hjá bandaríska sendiráðinu finnst áminningin óþægileg.
(Hér eru Myndir og umfjöllun Svipunnar )um aðgerðina sem Lárus var síðar dæmdur fyrir og mótmælin gegn ákærunni á hendur honum.
Niðurstaða dómsins yfir Lalla sjúkraliða er skýr, Lárus er sekur. Borgararnir eiga samkvæmt honum að hlýða lögreglu í einu og öllu, hvort sem skipunin á við einhver lagarök að styðjast eða er bara geðþóttaákvörðun. Samkvæmt dómnum er lögreglu þannig heimilit að reka hvern sem er, af hvaða opinbera svæði sem vera skal. Nú bíð ég spennt eftir dómi um að lögreglu sé heimilit að banna manni að ganga í bol með áletrun sem fer í taugarnar á einhverjum eða bera ögrandi skartgripi og hárgreiðslu.
Og hvernig kemst dómurinn að þessari niðurstöðu? Jú í dómnum segir:
Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laganna hvílir sú skylda á íslenskum stjórnvöldum að grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda sendiráð fyrir árásum og koma í veg fyrir röskun á friði eða skerðingu á virðingu þess.
Ekki hefur komið fram hvort Lárus var handtekinn vegna yfirvofandi árásar á sendiráðið, röskun á vinnufriði eða hvort áletrunin stríð er glæpur skerðir virðingu þess. Eitthvað af þessu hlýtur að vera grundvöllur handtökunnar, annars væri hún ólögleg. Allir sem hafa séð myndbandið frá atburðinum (það var birt í fréttum en ég finn það ekki) hljóta að viðurkenna að þarna var engin árás í uppsiglingu og engin röskun á friði heldur. Við hljótum því að túlka dóminn á þá leið að Lárus hafi verið handtekinn fyrir að vega að virðingu sendiráðsins.
Stríð er glæpur! Hann sagði það! Hann sagði það ekki bara, hann skrifaði það líka! Hann sagði stríð er glæpur. Hvílík gífuryrði, hvílík móðgun. Hugsa sér að nokkur skuli vega þannig að virðingu stríðsherranna og það í nafni tjáningarfrelsis. Hversu langt getur einn maður leyft sér að ganga í því að vega að virðingu hinna göfugu manna sem stjórna baráttunni fyrir heimsyfirráðum Bandaríkjamanna? Stjórnarskrá Íslendinga hefur þetta að segja um tjáningarfrelsið:
Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.
Þessi skilgreining á tjáningarfrelsinu tryggir Lárusi, samkvæmt dómnum, ekki rétt til að veifa skilti á gangstétt. Semsagt; Lárus Páll hefur brotið gegn allsherjarreglu og öryggi ríkisins. Hann stefnir siðgæði þjóðarinnar væntanlega í hættu með því að innleiða þá hugmynd að stríð sé glæpur og vegur að mannorði helstu stríðsherra Bandaríkjanna með því að halda þessari skoðun fram á þessum helga stað. Þá má leiða líkur að því að hann spilli heilsu manna með tiltækinu, enda munu neikvæðar tilfinningar vera heilsuspillandi. Aukinheldur vegur hann að réttindum stjórnar Bandaríkjanna til að drepa þá sem drepa þarf og svipta þá frelsi sínu sem eru yfirvöldum til leiðinda. Það hlýtur því að teljast nauðsynlegt og samræmast lýðræðishefðum að taka þennan stórhættulega glæpamann úr umferð.
Stríð er glæpur.
Ó hve voðaleg orð
Þetta var einu sinni barn. Afghanskt barn. Nú vitum við að það er glæpsamlegt að vega að virðingu bandaríska sendiráðsins með því að kalla það sem kom fyrir þetta barn glæp.
Lárus Páll hefur nú tvívegis verið handtekinn á Laufásveginum að beiðni starfsmanna bandaríska sendiráðsins. Ekki vegna þess að hann hafi gert neitt ólöglegt. Ekki vegna þess að hann hafi ógnað nokkrum, tafið neinn eða truflað neinn með hávaða. Hann hefur verið handtekinn og í annað skiptið dæmdur sekur, einfaldlega fyrir að skrifa þessi voðalegu orð.