Sauður býður sig fram til stjórnlagaþings

Þessi lögspekingur er í framboði til stjórnlagaþings. Hann telur 1010 ára gömul lög enn í fullu gildi.

Þessi menntakona sem heldur að ríkiskirkja sé forsenda jólahalds og að engar kirkjur séu til í ríkjum muslima, telur sig einnig eiga erindi á stjórnlagaþing.

(Þetta kom fram á vef Þjóðkirkjunnar en færslur hennar um frambjóðendur eru ekki lengur aðgengilegar. Hinsvegar vitnar Sigurður Hólm í orð þeirra hér.)

Skítt með það. Þetta eru náttúrulega bara bjánakeppir sem ólíklegt er að muni nokkurntíma hafa nokkur áhrif. Þeir sem ég hef áhyggjur af eru sauðirnir. Sauðirnir sem jarma gagnrýnislaust upp í valdastofnanir samfélagsins og ala á mannfjandsamlegum viðhorfum en tala þó ekki alveg nógu heimskulega til að útilokað sé að einhver hlusti. Maðurinn er nefnilega hjarðdýr og ef forystusauðirnir eru andstyggilegir þá verður fjöldinn það líka.

Þessi sauður er í hópi þeirra sem hætta er á að mestu fífl samfélagsins hlusti á. Athyglisvert er svar hans við spurningunni um samband ríkis og kirkju en hann segir m.a.

Ég er fremur andvígur hugmyndum um fjölmenningu og tel þær gefast illa. Ég tel að enginn eigi að verða íslenskur ríkisborgari án þess að tala þokkalega íslensku og að hann semji sig að íslenskum háttum, lögum og siðvenjum þjóðarinnar.

Nú veit ég ekki betur en að sömu lög gildi fyrir alla í landinu, sama hvort þeir eru upprunnir á Íslandi eða annarsstaðar. Ég sé í fljótu bragði ekki aðrar leiðir til að meta það hvort innflytjandi hafi ‘samið sig að íslenskum lögum’ en þá að skoða sakaskrá hans. Ef það er það sem maðurinn á við, er þá ekki rökrétt að svipta alla þá sem brjóta lög ríkisborgararétti? Eða finnst almenningi rétt að gera hærri kröfur til innflytjenda?

Og hvað er átt við með því að ‘semja sig að íslenskum háttum og siðvenjum’? Hvaða hættir og siðvenjur eru það? Flokkast það mæta of seint á fundi sem íslenskir hættir? Eða merkir þetta að ekki megi borða með með prjónum þar sem það tíðkast ekki á Íslandi? Verða muslimir skyldaðir til að halda jól?

Spurt var um samband ríkis og kirkju en Halldór svarar með áróðri gegn innflytjendum. Reyndar tekur hann einnig afstöðu sína til nokkurra ríkisfyrirtækja, verkalýðsfélaga og Evrópusambandsins inn í þetta svar sitt um samband ríkis og kirkju, svo við fyrsta yfirlestur hélt ég að maðurinn væri bara of mikill sauður til að svara réttri spurningu. Svo las ég fleiri svör frá fólki sem styður ríkiskirkju og þá rann upp fyrir mér ljós. Halldór er alls ekki sá eini sem svarar spurningunni með því að opinbera kynþáttahyggju sína. Það virðist nefnilega vera að þeir sem mest hampa ‘kristilegum gildum’ og vilja tryggja völd Þjóðkirkjunnar, séu þeir hinir sömu sauðir og þeir sem ekki skilja mannúðargildi á borð við jafnrétti og bræðralag.

Sigurður Hólm tók saman þennan lista yfir nokkur athyglisverð svör frá þjóðkirkjusinnum. Ég hvet alla sem ætla að kjósa fólk á stjórnlagaþing til að skoða hann vandlega, velta því fyrir sér hvað fleira en fávisku og fordóma þeir sem styðja ríkiskirkju kunni að eiga sameiginlegt og spyrja frambjóðendur einnig út í afstöðu sína mannréttindamála, hernaðar- og náttúruverndar en margir þeirra sem bjóða sig fram segja ekki orð um þessa hluti á kynningarsíðunni.

Jesús frá Nasaret hélt að sögn á lofti ýmsum mannúðargildum. Gildum sem hafa verið til frá örófi alda og eiga uppruna sinn í þeirri einföldu staðreynd að samfélögum sem hafa þau að leiðarljósi farnast betur. Gildum eins og miskunnsemi, umburðarlyndi og umhyggju gagnvart lítilmagnanum. Oft láta þeir sem styðja vald kirkjunnar í veðri vaka, eða segja jafnvel hreint út að kristnir menn fylgi þessum gildum í mun ríkara mæli en aðrir en þegar nánar er að gætt er þjónkun við kirkjuna sannarlega engin trygging fyrir því að þeir sem vilja völd hennar sem mest hafi sjálfir tileinkað sér þau mannúðargildi sem þeir í heimsku sinni og hroka kalla ‘kristileg’.

Starfsmenn biskupsstofu hlupu á sig með því að leggja þessa spurningu fyrir frambjóðendur til stjórnlagaþings. Það er óviðeigandi, jafn óviðeigandi eins og ef varnarmálastofnun hefði spurt um afstöðu frambjóðenda til hernaðarbandalaga eða forsetaembættið um afstöðu þeirra til valdheimilda forseta. Samt sem áður er ég biskupsstofu þakklát fyrir að hlaupa á sig á þennan hátt. Skaðinn er sennilega enginn en hinsvegar er fjöldi heimskingja og kynþáttahyggjufólks búinn að afhjúpa sig. Halldór er aðeins einn af mörgum og nú er hægt að nota lista Þjóðkirkjunnar til að greina sauðina frá höfrunum og halda þeim (þ.e. sauðunum) utan þjóðvega, eða öllu heldur þeirra vega sem hinn geðslegri hluti þjóðarinnar kýs að ganga.

Share to Facebook

One thought on “Sauður býður sig fram til stjórnlagaþings

  1.  —————————————————–
    Maður er orðlaus eftir þennan lestur.

    Og ekki tók betra við þegar ég fór yfir svör fleiri frambjóðenda á síðu Sigurðar Hólm.

    Þvílíkt og annað eins…..

    Posted by: Einar | 14.11.2010 | 11:56:50

     —————————————————–

    Hvers vegna má kirkjan ekki spyrja um (og birta) viðhorf frambjóðenda til þjóðtrúarinnar ? Það er ekki eins og það sé auðvelt að fylgjast með þessu 520 og eitthvað snillingum sem bjóða sig fram, hvað þá skoðunum þeirra á hitamálum.

    Posted by: Hugz | 14.11.2010 | 22:56:40

     —————————————————–

    Það er mjög gott að þessi spurning kom fram og ég vildi gjarnan fá ýmis önnur svör um afstöðu frambjóðenda. Ég vil t.d. vita hvort þeim finnist þurfa að breyta ákvæðum stjórnarskrár um tjáningarfrelsi, heimildir yfirvalda til ‘eftirlits’ og ýmislegt fleira.

    Það skiptir hinsvegar máli hver spyr þessara spurninga. Ef Gallup hefði spurt hvort Þjóðkirkjan eigi að njóta sérstakrar verndar, væri það gott mál. Það væri líka í lagi ef einhver samtök sem ekki eru á spena hjá ríkinu hefðu gert það.

    Ef samtök nýnasista spyrja um afstöðu til þess hvort binda eigi varnir gegn flóttamönnum í stjórnarskrá, þá er það ekki það sama og ef nýnasistasamtökin sem eru ríkisrekin undir dulnefninu útlendingastofnun spyrja um hið sama. Í báðum tilvikum vitum við hvaða svari er óskað eftir. EN í öðru tilvikinu er það fólk sem er á launum hjá þér og öðrum skattgreiðendum sem notar vinnutímann sinn og nafn ríkisstofnunar til að reyna að hafa áhrif á niðurstöður kosninga.

    Í tilviki biskupsstofu hefur þessi pólitíska spilling sennilega engin áhrif, því svörin eru flest of heimskuleg til að hafa áhrif á þá sem vilja aðskilnað og kirkjuvaldssinnar eru ólíklegir til að skipta um skoðun jafnvel þótt þessir bullustertir afhjúpi sig. Ég tel þó að í mörgum málaflokkum væri hægt að hafa áhrif á niðurstöður kosninga með því að spyrja frambjóðendur betur um afstöðu sína og það er einfaldlega ekki í verkahring ríkisstofnana. Þegar kirkjan er búin að afsala sér völdum sínum og forréttindum komin af spenanum og áhangendur hennar sjálfir farnir að borga brúsann, þá er biskupsstofu velkomið að fara í kosningabaráttu, fyrr ekki.

    Posted by: Eva | 15.11.2010 | 8:26:55

Lokað er á athugasemdir.