Rykið hefur gert sér hreiður undir rúmi mínu,
gotið ljósgráum rykhnoðrum
sem fjölga sér stöðugt.
Stundum skríður það undir sængina
í leit að æti.
Kitlar nasirnar
Ertir hálsinn.
Dregur úr koki mér
máða vini,
ósögð ástarorð,
hálfköruð ljóð
og fóðrar unga sína.
Af og til
sæki ég kúst
og sópa rykhreiðrinu undan rúminu.
Mér finnst að kurteis ætti að vera ritað kurteys. Af því að kurteysir eru þeir sem ausa kurti í allar áttir. (Þá væntanlega kurti og píi) Annars væru þeir kurtnir. Ég man allavega ekki eftir fleiri orðum með viðskeytinu -eis. Ekki einu sinni píeis.
Undarlegt hvað sumt fólk hefur góða sjón
og það með bjálka skagandi út úr auganu.
Bjálka sem ná alla leið inn að rúmgafli hjá manni.
og rekast í tærnar á meðan maður sefur.
Suma daga vaknar maður
með flísar í tánum
og þorpsbúann sitjandi á rúmstokknum
rekandi bjálkann í rúmgaflinn,
með flísatöng á lofti
til þjónustu reiðubúinn.
En þrátt fyrir alla þessa hjálpsemi
hefur enginn reynt
að plokka myrkrið undan sænginni.
Sjáðu grösin í garði nágrannans.
Saklausu, litlu kærleiksgrösin
sem teygja sig í fagurgrænni gleði í átt til sólar
og sjúga þyrstum rótum
svala úr frjósömum sverðinum.
Ó, hve þau dafna vel í þessum garði,
snyrt eftir þörfum og nærð á hverju sumri
mönnum til yndis.
Í minni lóð vex aðeins
gulur sinuflóki.
Svo rennblautur af gamalli rigningu
að hann brennur ekki einu sinni
þótt eldur sé borinn að honum.
Og þó er það eina leiðin til að uppræta hann.
Á lóðinni minni
vaxa puntstrá með haustinu.
En hver kærir sig
um þessháttar fegurð?
Mér finnst það sorglegt viðhorf að velja næstskársta kostinn, “svo atkvæðið mitt verði ekki ónýtt”.
Atkvæðið er ekki ónýtt þótt fólkið sem þú treystir komist ekki í meirihluta. Stjórnmálaflokkar þurfa tíma og stuðning til að vaxa, eins og allt annað. Það að bíða með að gefa litlum flokki, sem maður treystir, atkvæðið sitt þar til hann er orðinn stór, er svona álíka gæfulegt og að spara fóður við folald sem er efni í gæðing, af því að það getur hvort sem er ekki unnið landsmótið í þetta sinn.
Minnihluti stjórnar þjónar líka tilgangi og sterkur minnihluti skiptir þessvegna máli. Þar fyrir utan felur hvert atkvæði í sér skilaboð sem geta haft margskonar áhrif síðar, bæði á gengi flokkanna og stefnu þeirra í tilteknum málum, jafnvel þótt þinn flokkur nái engum manni inn í þetta sinn.
Atkvæðið þitt er ekki ónýtt þótt þú vinnir ekki kosningarnar. Það er hinsvegar ónýtt eða illa nýtt ef þú lætur þér standa á sama um það hverjir stjórna bænum þínum og landinu eða gefur villandi upplýsingar um afstöðu þína.