Orð dagsins

Uppáhaldsorðið mitt þessa dagana er ‘sneiðafantur’ sem samkvæmt orðabók Menningarsjóðs á við um þann sem setur meira á diskinn sinn en hann getur borðað. Þeir sem sérstakur hefur verið að yfirheyra undanfarna daga eru að líkindum hinir mestu sneiðafantar.

Grasekkja

Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað ég er háð Orðsifjabókinni, fyrr en ég lánaði Magga hana. Þessar 3 vikur hefur varla liðið dagur án þess að ég finni hjá mér sérstaka þörf fyrir að fletta henni.

Í augnablikinu er það orðið grasekkja sem þvælist fyrir mér. Er hún grasekkja af því að hún nennir ekki að elda þegar karlinn er að heiman og hefur bara salat í matinn? Eða kannski hugsunin sé sú að karlinn sé nú meiri grasasninn að tolla ekki heima hjá sér?

Tjásur:

Halda áfram að lesa

Kurt og pí

Mér finnst að kurteis ætti að vera ritað kurteys. Af því að kurteysir eru þeir sem ausa kurti í allar áttir. (Þá væntanlega kurti og píi) Annars væru þeir kurtnir. Ég man allavega ekki eftir fleiri orðum með viðskeytinu -eis. Ekki einu sinni píeis.

Glámbekkurinn

Þegar ég er orðin húsgagnahönnuður, ætla ég að sérhæfa mig í hönnun glámbekkja. Ekki klámbekkja því ég held að sé nóg framboð á þeim á markaðnum.

Ég var nær fullorðin þegar ég áttaði mig á þeirri augljósu staðreynd að glámbekkur hlýtur að vera bekkur fyrir glám. Kannski vegna þess að bekkir eða hillur sem eru sérstaklega til þess hugsaðar að geyma á þeim gleraugu, fylgja sjaldnast innréttingum. Sem er auðvitað stórfurðulegt í ljósi þess að á meðalheimili má gera ráð fyrir því að einhver þurfi fyrr eða síðar á gleraugum að halda. Og þar með glámbekk til að geyma þau á.

Ég reikna með að hönnun glámbekkja muni færa mér ótakmörkuð auðæfi.