Ónýtt atkvæði

38496

Mér finnst það sorglegt viðhorf að velja næstskársta kostinn, “svo atkvæðið mitt verði ekki ónýtt”.

Atkvæðið er ekki ónýtt þótt fólkið sem þú treystir komist ekki í meirihluta. Stjórnmálaflokkar þurfa tíma og stuðning til að vaxa, eins og allt annað. Það að bíða með að gefa litlum flokki, sem maður treystir, atkvæðið sitt þar til hann er orðinn stór, er svona álíka gæfulegt og að spara fóður við folald sem er efni í gæðing, af því að það getur hvort sem er ekki unnið landsmótið í þetta sinn.

Minnihluti stjórnar þjónar líka tilgangi og sterkur minnihluti skiptir þessvegna máli. Þar fyrir utan felur hvert atkvæði í sér skilaboð sem geta haft margskonar áhrif síðar, bæði á gengi flokkanna og stefnu þeirra í tilteknum málum, jafnvel þótt þinn flokkur nái engum manni inn í þetta sinn.

Atkvæðið þitt er ekki ónýtt þótt þú vinnir ekki kosningarnar. Það er hinsvegar ónýtt eða illa nýtt ef þú lætur þér standa á sama um það hverjir stjórna bænum þínum og landinu eða gefur villandi upplýsingar um afstöðu þína.