Erfðabreytt korn er glæpur

Einu sinni var gaur sem hét Gvuð Almáttugur. Hann mun hafa skapað himinn og jörð og jurtirnar og dýrin.

Nú er hann dauður en í staðinn er kominn einhver annar sem segist hafa skapað, ja kannski ekki himinn og jörð en allavega ýmsar jurtir. Hann heitir að vísu ekki Gvuð heldur Monsanto en hann er fyrirtækjarisi sem hegðar sér eins og hann sé Gvuð, þ.e.a.s. hann hefur keypt sér einkarétt á erfðabreyttum korntegundum.

Fyrir smábændur þýðir þessi einkavæðing á lífverum t.d. að bóndinn verður að kaupa nýtt útsæði á hverju ári þar sem sumar erfðabreyttar plöntur bera ekki fræ. Fyrir aðra þýðir þetta að ef erfðabreytt korn berst inn á lönd þeirra, geta þeir reiknað með að verða lögsóttir fyrir þjófnað ef þeir selja afurðina.

Ég veit ekki hvor erfðabreytt korn er óhollt og ég viðurkenni að mér finnst ágætt að til séu steinalaus vínber. Það sem mér finnst algjört ógeð við erfðabreytt matvæli er viðbjóðseðli kapítalimans sem ætíð setur auð og völd ofar rétti manneskjunnar til að lifa við sæmilegt frelsi og öryggi.

Pappakassar

Sannleikurinn hefur aldrei gjört mig frjálsa, það hinsvegar gerir rækileg tiltekt. Eins leiðinlegt og það er að losa sig við dót sem þvælist fyrir manni er það stundum nauðsynlegt og yfirleitt saknar maður þess ekki að ráði. Að vísu veit ég ekkert hvað ég ætla að gera við dótið sem ég bar upp úr kjallaranum í fyrradag, ég er ekki alveg tilbúin til að aka því í Sorpu og hef ekki pláss fyrir það heima hjá mér en það er samt eitthvað frelsandi við að vera búin að koma því í merkta pappakassa.

24408_114594108562709_1993902_n

 

Nauð

Stefán og drengirnir hans komu í mat til mín í gær.

Askur: Hversvegna skilur fólk? Ég myndi aldrei vilja skilja. Maður ætti bara að giftast einhverri sem maður er viss um að maður muni alltaf elska.
Stefán: Það er það sem fólk gerir. Maður trúir því en svo skiptir fólk um skoðun þegar vandamálin verða of mörg.
Eva: Og þegar þú þarft alltaf að vera með besta vini þínum þá verðurðu þreyttur á honum.
Askur: Maður ÞARF ekki að vera alltaf með besta vini sínum.

Það er nú þannig með drengi, þeir gera ekki endilega ráð fyrir raunveruleikanum.
Rún dagsins er Nauð.