Stormur

Getur verið að sértæk jólaskrautsröskun sé ekki lengur almennt aðventuheilkenni? Eða hefur þol mitt gagnvart ofhlæði ósmekklegra ljósaskreytinga aukist? Ég verð allavega lítið vör við blikkljós og aðrar skreytingar sem ofbjóða fegurðarskyni mínu, finnst bara flest hús og garðar ósköp hófleg og huggleg.

Ég gæti nú best trúað að einhverjar ljósaseríur hafi fokið í nótt. Ég var satt að segja frekar skelkuð í mestu látunum og gekk á með martröðum það sem eftir lifði nætur. Ég er yfirleitt ekki svona veðurhrædd en það þarf ekki mikið til að koma mér úr jafnvægi þessa dagana. Það er ástaróbermið sem er að hvekkja mig. Tekur á taugarnar að eiga eitthvað til að missa.

Ef maður bara vissi hvað er að gerast þarna inni

Ætli feministahreyfingin léti ekki frá sér einhverjar athugasemdir ef karlmenn væru látnir gefa konum einkunnir fyrir frammistöðu sína í bælinu?

Ég hef ekki séð tannagnístran frá neinum karlasamtökum vegna þessarar könnunar. Ætli þeim sé alveg sama eða er einhver önnur ástæða fyrir að heyrist aldrei í karlmönnum þegar tegundin er á einhvern hátt tekin fyrir? Þessi könnun er svosem of hallærisleg til að vera svara verð en það virðist bara alveg sama hvernig er fjallað um karlmenn, þeir bera nánast aldrei hönd yfir höfuð sér. Ég hneigist til að líta á það sem gunguskap en kannski eru þeir bara upp til hópa of ánægðir með sig til að taka mark á umfjöllun sem væri líkleg til að koma konum í uppnám?

Ljúflingslag

Án þín um eilífð langa
óf ég af gullnum þræði
rekkjuvoð rúnum brydda
rennur hún veröld alla.
Auglit mitt vakir yfir
álagahvílu þinni
syng ég þér svani um aldir
sofðu, ég unni þér.

Til mergjar

Allt vesen og dram í mannlegum samskiptum er runnið af einni eða fleiri af þremur rótum

-Því sem A segir og/eða gerir.
-Því sem A meinar eða meinar ekki með því sem hann segir og/eða gerir.
-Því hvernig B túlkar það sem A segir og/eða gerir. Halda áfram að lesa

Hólí krapp!

Ekki spyrja mig hvað hljóp í mig, það er ekki eins og ég hafi einhvern tíma til að sóa í vitleysu í dag, en mér varð það á að kíkja sem snöggvast á femin.is. Ég kenni þér um það Beta.

Þetta hlýtur að vera rökvilla ársins 2007:

Því eldri sem þú ert, því fleiri elskhuga hefur þú átt, og því fjölbreyttara kynlíf hefur þú stundað.

Plís, fyrir þá litlu trúarglætu sem ég ennþá hef gagnvart mannkyninu; getur ekki einhver vísað mér á rannsókn sem sýnir fram á það með óyggjandi hætti að konan sé heimskara kynið?

Lit

Ljúflingur. Huldumaðurinn minn.

Þegar ég ætlaði að ýta þér til hliðar svaraðir þú með því að segja tíkinni þinni allt af létta og herja út formlegt leyfi til að gista hjá mér. Ég orti þér ljóð í tilefni af þeim undarlega gjörningi. Hélt áfram að leita að frambærilegum kærasta en tók samt nokkrar óafturkræfar ákvarðanir. Fannst ég næstum elskuð um tíma. Halda áfram að lesa

Pólitíkin rak upp bofs

bogb

Ég hef tekið eftir því undanfarið að nokkrir moggabloggarar sjá ástæðu til að hnýta í það fyrirkomulag feministahreyfingarinnar að vera með sérstakan karlahóp, fyrir náttúrulega utan stöðugar persónulegar árásir á Sóleyju Tómasdóttur og fleiri duglegar konur.

Ég hef aldrei unnið með feministahreyfingunni sjálf, finnst sumt af því sem þær eru að gera frábært, sumt tilgangslaust og sumum viðhorfum er ég algerlega ósammála.

Halda áfram að lesa