Hittum AGS

Hitti AGS gær ásamt Árna Daníel. Þetta var mikið froðusnakk.

Ingó tók myndina og eftir á fórum við þrjú og fengum okkur bjór saman. Kom í ljós að Ingó var orðinn of seinn með að skila inn ljósmyndum sem áttu að fara á sýningu í Miami. Var sko ekki einu sinni byrjaður að taka þær og eiginlega bara að leita að módeli.

Nújæja, við höfum svosem rætt möguleikann á því að ég pósi fyrir hann og það varð úr. Nóttin fór í tökur og myndvinnslu en hann náði að skila inn.

Fokk gaman að vinna með honum og nokkuð víst að við eigum eftir að vinna meira saman.

 

Afmælisgjöf

Mig vantar afmælisgjöf handa konunni minni, sagði kúnninn. Klukkuna vantaði 4 mínútur í 6 og frúin þegar komin heim.

Við ráðlögðum honum að kaupa góða nuddolíu. Fara svo heim og taka almennilega til, skipta á rúminu, láta renna í dekurbað fyrir konuna og enda rómantíska kvöldstund á því að gefa henni gott nudd.

Málið var í rauninni dautt þegar Spúnkhildur notaði orðalagið „dekra við“ og um leið og ég nefndi tiltekt, byrjaði hann að fikra sig í átt að dyrunum.

Demantar virka líka, kallaði Spúnkhildur á eftir honum.

Ég skal veðja að hann hefur farið niður í Blómálf og keypt pottaplöntu.

Uhhh!

Rifjaði upp hvers vegna ég henti viðbótinni „Are you interested“ út síðasta sumar.
Úrvalið hefur lítið breyst. Hvern á maður nú helst að skoða betur? Þennan sem er með prófílmynd af hundinum sínum? Þennan sem er með prófílmynd af sjálfum sér 3ja ára? Eða þennan sem er með prófílmynd af sjálfum sér og konunni sinni í faðmlögum?

Fann reyndar fallega lopapeysu á Y og klikkaði á ‘browse people like me’. Fékk upp vatnsgreiddan fermingardreng frá Aberdeen, feitan kana um fimmtugt, hest…

Prófaði enn eina ferðina að máta Braga Valdimar Skúlason inn í erótíska fantasíu, en það er það væri bara eitthvað svo sjúkt og rangt við að sænga hjá manni sem kann á greiðu.