Afmælisgjöf

Mig vantar afmælisgjöf handa konunni minni, sagði kúnninn. Klukkuna vantaði 4 mínútur í 6 og frúin þegar komin heim.

Við ráðlögðum honum að kaupa góða nuddolíu. Fara svo heim og taka almennilega til, skipta á rúminu, láta renna í dekurbað fyrir konuna og enda rómantíska kvöldstund á því að gefa henni gott nudd.

Málið var í rauninni dautt þegar Spúnkhildur notaði orðalagið „dekra við“ og um leið og ég nefndi tiltekt, byrjaði hann að fikra sig í átt að dyrunum.

Demantar virka líka, kallaði Spúnkhildur á eftir honum.

Ég skal veðja að hann hefur farið niður í Blómálf og keypt pottaplöntu.

Matrósar

Hátíðasalur Mammons minnti helst á sardínudós á heitum degi. Ég opnaði út, af mannúðarástæðum, og á 2 mínútum fylltist búðin af mönnum í matrósafötum. Ég kom þeim út. Mundi ekkert eftir því hvað Spúnkhildur er veik fyrir mönnum í einkennisbúningum fyrr en hún nefndi það sjálf.

Tilraun til vopnaðs ráns

Í gær kom maður í annarlegu ástandi í Nornabúðina, gaufaði bitvopni upp úr rassvasanum og bað kurteislega um hundraðkall.

Spúnkhildur aftók með öllu að fyrirtækið hefði yfir að ráða hundraðköllum til ölmusugjafa og manngarmurinn paufaðist út, heldur sneypilegur.

Svo kom löggumann og hirti hann. Ég sárvorkenndi greyinu en það er ekki alveg víst að hann hefði mundað kutann af sama hengilmænuhætti gagnvart 12 ára barni eða íbúum elliheimilisins.

Þarf það endilega að vera verðmætt?

Anna segir að raunveruleg verðmæti séu fólgin í vinum þínum en ekki þeim sem þú sefur hjá.

Einhvernveginn finnst mér rökrétt að sofa þá bara hjá vinum sínum. Verst að vinir mínir eru allir fráteknir. Nema Spúnkhildur og ég vil ekkert sofa hjá henni.

Reyndar komst ég að þeirri niðurstöðu fyrir nokkrum árum að það væri vesenisminnst að sofa hjá einhverjum sem mér er hæfilega illa við eða hef allavega nógu lítið álit á til að ekki sé hætta á að það þróist út í einhverjar ástargrillur. Mér hefur samt aldrei verið neitt illa við Elías en ég vissi líka að hann yrði ekkert í boði nema í stuttan tíma svo það var ekki verulega hætta á að yrði eitthvað ástarkjaftæði úr því.

Í augnablikinu er mér því miður ekki illa við neinn.

Úr engu

Prrr…kalt í dag.

Ekkert að gera í búðinni og Spúnkhildur veik heima. Smábátur flýr kuldann inn í hlýtt hálfrökkur Nornabúðarinnar, horfir á mig fletta spilum og segir mér frá verkefnum sem hann er að vinna fyrir skólann.

Svo þegjum við saman smástund.

-Það er eitt sem ég hef aldrei almennilega skilið, segir hann svo skyndilega upp úr eins manns hljóði, þetta með það hvernig heimurinn varð til úr engu. Hvernig getur hafa verið ekkert?

Ekki hef ég svörin þrátt fyrir 30 ára aldursmun og skeggleysið hindrar hann ekkert í því að skeggræða endaleysu- og eilífðarmálin. Hann er spakur drengurinn en ætli hann eigi ekki eftir að komast að sömu niðurstöðu og flest okkar; að það sé örugg leið til að missa vitið að reyna að finna svörin.

Um andúð mína á hinum illa Mammoni

Guðfræðingur nokkur sem iðulega finnur hjá sér hvöt til sérdeilis frumlegrar bókmenntatúlkunar á skrifum mínum, hefur komist að þeirri niðurstöðu að þar sem mér sé tíðrætt um „illsku Mammons“ hljóti ég að vera róttæklingur hinn mesti. Sjálf kannast ég ekki við öll þessi skrif um illsku Mammóns. Ég hef miklu fremur talað um hann sem fremur vingjarnlegan gaur sem ég vil gjarnan eiga næs samskipti við. Að vísu hef ég stöku sinnum talað um illsku Mammons í írónískum stíl. Halda áfram að lesa