Ég stend í þeim undarlegu sporum að vera synjað um aðgang að námsefni þar sem vitnað er í skrif mín. Þessi staða varð mér tilefni hugrenninga um hlutverk háskóla og eignarhald á þekkingu. Þótt þessi pistill fjalli fremur um háskóla en kynjapóltík finnst mér rétt að birta hann á þessu svæði þar sem hann er sprottinn af kynjafræðikennslunni í HÍ.
Hlutverk háskóla
Hlutverk háskóla er tvíþætt; að afla þekkingar og dreifa henni. Hugmyndin með rekstri háskóla er sú að þekking sé áhugaverð sem slík en einnig lykill að meiri lífsgæðum. Þekkingar er aflað með rannsóknum. Henni er komið áleiðis með birtingu rannsókna í vísindatímaritum, með málþingum og með háskólakennslu og útgáfu námsefnis.
Vísindasamfélagið nýtur að vonum virðingar en vert er þó að hafa hugfast að meirihluti rannsókna leiðir ekkert nýtt í ljós og skilar engum hagsbótum. Við rekum háskóla vegna þess að oft þarf langa leit til að finna það sem skiptir máli og það er talið nógu mikilvægt til þess að fórnarkostnaðurinn sé ásættanlegur. Við hættum t.d. ekkert að leita að lækningu við krabbameini þótt miklir fjármunir fari í rannsóknir sem ekki skila gagnlegum niðurstöðum.
Hverjir eiga þekkinguna?
Það er almenningur sem ber kostnaðinn af starfi háskóla. Án fólks sem greiðir skatta og vinnur láglaunastörf væri ekki hægt að halda háskólum uppi. Þar með á almenningur líka rétt á því að njóta afrakstursins. Það er því óþolandi að leikmenn skuli ekki hafa óhindraðan aðgang að þeim rannsóknum sem birtar eru í vísindatímaritum. Íslenskur almenningur er svo vel settur að hafa landsaðgang að rafrænum vísindatímaritum og fleiri gögnum en þegar leikmaður utan háskólasamfélagsins, í t.d. Bretlandi, vill kynna sér rannsókn, getur hann aðeins séð stutt yfirlit yfir helstu niðurstöður. Ef hann vill sjá t.d. hvernig úrtak var valið og hvernig spurningar voru orðaðar, þarf hann að borga mörg þúsund krónur fyrir hverja einustu grein.
Áskriftir að ritrýndum vísindatímaritum eru fokdýrar. Íslenska ríkið borgar t.d um 200 milljónir á ári fyrir landsaðganginn. Utan Íslands er það aðallega háskólafólk sem hefur aðgang að þessum gögnum. Fólkið sem rekur háskólana, borgar laun vísindamanna, kostar útgáfu tímaritanna og borgar aðgang háskólanna að þeim, hefur víðast hvar engin tök á að fylgjast með því hvað er eiginlega verið að bardúsa í þessu blessaða vísindasamfélagi. Það er svo ennþá ömurlegra að þessi mikli kostnaður skýrist aðallega af einkahagsmunum útgefendanna. Höfundar greinanna fá ekki aukagreiðslur fyrir birtingu enda eru þeir á prýðisgóðum launum (hjá almenningi) við rannsóknarstörf og eiga ekkert að fá meira. Einhver kostnaður fer í prentun en á tímum internetsins er óþarfi að gefa út pappírstímarit. Aðalástæðan fyrir verðinu er eignarhald útgáfufyrirtækja á þekkingu sem almenningur á með réttu.
Hver á kennslugögnin?
Það er svo ennþá fáránlegra þegar lítill skóli eins og Háskóli Íslands, takmarkar aðgang almennings að námsefni. Um daginn frétti ég að skrif mín um feminisma væru tekin til umræðu við kynjafræðina í HÍ og að textadæmi væru á glærum sem birtar eru á Uglunni. Auðvitað langar mig að vita hvernig mín skrif eru kynnt en þessar glærur eru ekki aðgengilegar almenningi og ekki einu sinni öllum nemendum skólans. Ég sendi því hlutaðeigandi kennara, Gyðu Margréti Pétursdóttur, tölvupóst og bað um afrit af glærunum. Jafnframt bauðst ég til að mæta og kynna gagnrýni mína á feminsma og einnig að svara spurningum skriflega. Svarið sem ég fékk var að þar sem nemandi hefði unnið glærurnar gæti ég ekki fengið aðgang að þeim. Boði mínu um að kynna mitt mál og sitja fyrir svörum var hafnað.
Það verður að teljast athyglisverð afstaða að kennslugögn í háskóla séu trúnaðarmál. Sem betur fer hegða ekki allir háskólar sér á þennan hátt. MIT, sem er einkarekinn háskóli, hefur t.d. í mörg ár birt námsefni sem framleitt er við skólann á þessum opna vef. Mér er alveg sama hver vann glærurnar, það hlýtur að vera sanngjörn krafa að gögn sem eru notuð til kennslu við ríkisrekinn skóla séu vinnuveitanda meintra vísindamanna (þ.e. almenningi) aðgengileg. Þessi leyndarhyggja þekkist í fleiri greinum en kynjafræði. Í tengslum við Vantrúarmálið heyrðist sú skoðun að Vantrúarfólk hefði ekki haft rétt til að skoða glærur Bjarna Randvers, þar sem þær hefðu verið vistaðar á „lokuðu svæði innan HÍ“ og í skýrslu siðanefndar kemur fram að nefndin hafi fengið aðgang að vefsvæðinu „með leyfi Bjarna Randvers“ rétt eins og þau gögn sem vistuð eru á vefsvæðinu séu hans persónulega eign. Háskóladeildir virðast þannig litnar svipuðum augum og Frímúrarareglur og kennslugögn þeirra skoðaðar sem leyniskjöl.
Af hverju skiptir þetta máli?
Við þurfum að breyta þeim hugsunarhætti að þeir sem standa utan háskólasamfélagsins eigi að sætta sig við að aðrir skammti þeim þekkinguna úr hnefa. Sú stefna er afleit vegna þess að einsleitur lesendahópur skapar og viðheldur kennivaldi innan vísindanna og ef vísindasamfélagið lýtur ekki aðhaldi og eftirliti getur það snúist gegn akademísku frelsi. Auk þess er það réttlætismál gagnvart þeim sem bera kostnaðinn af þekkingaröflun að þeir hafi óheftan aðgang að upplýsingum.
Þetta skiptir líka máli vegna þess að kostnaðurinn er svo gífurlegur að hann stofnar jafnvel aðgangi háskólafólks að þekkingu í voða. Ástæðan fyrir því að allir Íslendingar hafa aðgang að landsnetinu er sú að í svo litlu samfélagi myndi lítið sparast ef aðeins háskólasamfélagið hefði aðgang. Það þarf ekki mikið út af að bera til þess að kostnaðurinn verði óviðráðanlegur. Íslendingar eru ekkert þeir einu sem eiga það á hættu að ráða ekki við að kaupa áskriftir að tímaritum því jafnvel forríkir háskólar á borð við Harvard eru farnir að kvarta undan þessari fjárkúgun.
Vísindasamfélagið ræðir nú leiðir til að rísa gegn fjárkúgun útgefandanna. Ömurlegt er til þess að vita að á sama tíma stundar Háskóli Íslands einhverja smásálarlegustu þekkingareinokun sem fyrirfinnst í vestrænum háskólum; að neita almenningi um aðgang að kennslugögnum. Svo langt gengur þessi afdalamennska að mér persónulega er synjað um aðgang að efni þar sem fjallað er um mín eigin skrif. Finnst ykkur þetta í lagi?
Akademían á ekki að vera leyniregla heldur gegnir hún þjónustuhlutverki og ætti því að standa húsbónda sínum skil gerða sinna. Sá húsbóndi er ekki útgáfufyrirtæki eða nemendur í tiltekinni háskóladeild, heldur almenningur sem borgar brúsann. Ég leita því til almennings, í von um að einhver lesandi sem hefur aðgang að vefsvæði kynjafræðinnar á Uglunni, sé tilbúinn til að leka í mig þessum „leyniskjölum“.