Vælið í forræðislausum feðrum

bidÓttalega leiðist mér vælið í forræðislausum feðrum sem halda því fram að mömmurnar banni þeim að umgangast börnin sín. Mér finnst sjálfsagt að vekja athygli á vanda þeirra feðra sem eru raunverulega hindraðir í því að vera með börnum sínum en á köflum minnir málflutningur forræðislausra feðra á baráttuaðferðir feminista. Ofsóknarkenndar fullyrðingar um eðli og innræti helmings mannkynsins, fórnarlambsvæðing og fordómar; þetta eru þau orð sem koma upp í hugann.

Stundum getur verið ástæða til að takmarka umgengi

Vitanlega eru til mæður sem láta hefndarþorsta stjórna gerðum sínum (og feður líka) og ég er ekki að mæla því bót ef mæður sýna af sér svo illt innræti að hindra umgengni föður og barna. Fólk sem eyðileggja samband barns við foreldri sitt ætti sjálfkarfa að dæmast vanhæft til að fara með forsjá þess. En hvað á gott foreldri að gera þegar hitt foreldrið er vanhæft?

Ég þekki móður sem neitaði að senda barnið til pabbans um helgar fyrr en hann væri búinn að sigrast á óstjórnlegri fíkn sinni í áfengi og hass. Maðurinn var engan veginn fær um að taka ábyrgð á börnum. Ég þekki aðra sem heimtaði að fá barnið heim um hádegi á sunnudag til að láta það læra, þegar krakkinn kom í þriðja skiptið í röð úr helgardvöl hjá pabbanum án þess að skólataskan hefði verið opnuð. Ég held nú að flestir hafi skilning á málstað þessara kvenna og ég gæti trúað að feður sem vanrækja umgengnisskyldu sína séu öllu umfangsmeira vandamál en hefndarfíkn mæðra.

Úrræði eru til staðar

Annars skil ég ekki hugsanagang þeirra sem hætta bara að umgangast börnin sín vegna þess að móðirin setur einhver fáránleg skilyrði sem eiga sér enga stoð, hvorki í lögum né samkvæmt hefð. Vita þessir vesalingar ekki að í landinu gilda lög sem tryggja barninu rétt til að þekkja og umgangast báða foreldra sína? Vita þeir ekki að þótt reglur um lágmarksumgengni hafi ekki verið lögfestar, er sterk hefð fyrir því að forræðislaust foreldri hafi barnið hjá sér aðra hvora helgi? Dettur þeim í hug að nokkur maður samþykki eða styðji bullkröfur svona kvenmannsvitleysinga?

Ég er ekki að segja að það sé auðvelt en það eru til úrræði gegn fólki sem vanvirðir rétt barna og foreldra til umgengi. Það má t.d. beita dagsektum ef konan lætur sér ekki segjast við áminningar og ef það dugar ekki til er hægt að fá aðstoð lögreglu til að sækja barnið. Af einhverjum ástæðum er þessum úrræðum afar sjaldan beitt svo það væri nú fróðlegt að vita hversu oft menn í þessari aðstöðu leita aðstoðar sýslumanns. Ætli geti verið að það reyni svo sjaldan á þetta vegna þess að pabbarnir klikka sjálfir?

Hafa þessir pabbar raunverulega áhuga?

Ég mæli ekki með kerfi sem auðveldar hefnigjörnum konum að eyðileggja samband barns og föður en getur það kannski verið að sumir þessarra feðra megi ekki vera að því að taka barnið á umsömdum tíma og gangist svo upp í hlutverki píslarvotta þegar þeir geta ekki tekið geðþóttaákvarðanir um það hvort og hvenær þeir sinna barninu?

Ég spyr vegna þess að ég hef svo oft rætt við menn sem halda því fram að mæðurnar hafi komist upp með það árum saman að neita þeim um að sjá börnin. Flestir eru þeir óreglumenn og skortir stjórn og ábyrgð á flestum sviðum tilverunnar. Fæstir þeirra hafa nokkurntíma sótt rétt sinn (og rétt barnanna auðvitað en mér finnst alveg óþarfi að gera lítið úr rétti foreldra til barna sinna). „Það er nú algjört neyðarrúrræði að fara með lögregluvaldi inn á heimilið“ er viðkvæðið ef maður spyr hversvegna þeir sæki ekki rétt sinn.

Umgengnistálmanir eru neyðarástand

Auðvitað er það neyðarúrræði. Ég myndi ekki gera það sjálf -nema auðvitað ef einhver ætlaði að taka börnin mín frá mér. Slík aðstaða væri í mínum huga neyðarástand og ég myndi aldrei láta það viðgangast. Ég myndi jafnframt gera börnunum grein fyrir því að ábyrgðin liggur hjá þeim sem brýtur lögin en ekki þeim sem sækir rétt sinn. Ég hygg að flestar þeirra örfáu frekjudósa sem reyna í alvöru að hindra ábyrga feður í því að hitta börnin sín, myndu láta sér segjast ef þær ættu von á því að barnið yrði einfaldlega sótt.

Dæmi um umgengnistálmanir

Annars er oftast hægt að vinna svona mál án harðra aðgerða ef menn hafa virkilega áhuga á því.

Vinkona mín er forræðislaus móðir. Hún og barnsfaðir hennar skildu þegar barnið var tveggja ára. Þau bjuggu hvort í sínum landshluta og brátt fór að bera á því að pabbinn torveldaði samskipti hennar við barnið. Tímasetningin hentaði honum alltaf illa þegar hún vildi fá barnið. Hann neitaði að senda drenginn til hennar með ættingjum sem voru á leið til hennar svo hún sjálf að sækja hann með tilheyrandi kostnaði. Hann lét hana ekki vita þegar hann dvaldi með barnið í nágrenni við hana í margar vikur, heldur komst hún að því seinna að hún hafði misst af tækifæri til að sjá litla strákinn sinn. Það kom jafnvel fyrir að pabbinn var búinn að samþykkja að hún fengi að hafa barnið í ákveðinn tíma en hætti svo við klukkutíma áður en flugvélin átti að fara í loftið.

Eftir tveggja ára leiðindi sá þessi vinkona mín fram á að það yrði endalaust vesen fyrir hana að fá barnið til sín. Hún hætti samt ekki bara að hitta barnið. Auðvitað ekki. Hún leitaði til sýslumanns, hún ræddi við lögfræðing, hún gerði pabbanum grein fyrir því að hún gæfist aldrei upp og viti menn; eftir nokkurra mánaða harðvítuga baráttu var skjalfestur samningur um lágmarksumgengni.

Hegðun sem lög ná ekki yfir

Pabbinn hélt þó áfram að nota öll tækifæri til að skapa leiðindi og þótt ástandið væri í orði nokkurnveginn viðunandi, var það ekki nógu gott fyrir smekk vinkonu minnar. Suma hegðun ná engin lög yfir. Henni sárnaði þegar drengnum var kennt að kalla nýju kærustu pabbans mömmu. Hún dugði honum ágætlega sem mamma sjálf og auk þess taldi hún þetta óheppilegt fyrir barnið þar sem engin reynsla var komin á sambandið. Hún varð þess vör að föðurfólk barnsins talaði um hana og hennar fjölskyldu á neikvæðum nótum og slíkt ná lögin ekki yfir heldur. Hún vildi líka helst geta hitt barnið meira en samningur um lágmarksumgengni kvað á um án þess að þurfa að leggjast á hnén.

Í stað þess að væla um það hvað pabbinn væri ósanngjarn, kom konan sér sjálf í aðstöðu til að umgangast barnið. Hún flutti milli landshluta þótt það væri bæði dýrt og erfitt og leigði sér íbúð eins nálægt heimili barnsins og hún gat. Þar sem snáðinn þurfti nú ekki einu sinni að fara yfir götu til að komast til hennar, fór hann að venja komur sínar þangað daglega. Pabbinn hefði þurft að vera fullkominn skíthæll til að hindra það og auðvitað kynntist barnið mömmu sinni of vel til að neikvætt umtal næði að eyðileggja samband þeirra.

Þegar drengurinn byrjaði í skóla, hafnaði vinkona mín vel launaðri vinnu og sótti um vinnu sem skólaliði í þessum sama skóla. Núna er hún á launum (skítalaunum að vísu en henni er alveg sama) við að umgangast barnið sitt og sennilega eru uppeldisleg áhrif hennar á barnið orðin alveg jöfn þeim sem faðirinn hefur.

Hvað má það kosta?

Ég er ekki að réttlæta kerfi sem setur fólk í þá aðstöðu að þurfa að berjast fyrir börnunum sínum á þennan hátt. Ég bendi hins vegar á að enginn skíthælsháttur réttlætir það að foreldri gefist upp á því að krefjast réttar til barna sinna. Svo þið feður sem látið eins og barnsmæður ykkar séu kvengerðin af Halim Al en hafið samt aldrei staðið í meiri baráttu en þeirri að hringja í félag ábyrgra feðra til að væla, veltið því aðeins fyrir ykkur hverju þið eruð raunverulega tilbúnir til að fórna.

Ef móðirin er í rauninni markvisst að reyna að eyðileggja samband ykkar við börnin, spyrjið þá sjálfa ykkur hvað þið séuð reiðubúnir að leggja á ykkur til að hindra hana í því.

Hversu mörgum klukkutímum af vinnutíma ykkar og frítíma viljið þið fórna til að ræða við lögfræðinga og standa í hrútleiðinlegri pappírsvinnu? Eruð þið tilbúnir til að sækja barnið á umsömdum tíma og sjá til þess að það bursti tennurnar og vinni heimaverkefnin sín, jafnvel þótt það kosti það að þið missið af landsleik eða partýi? Eruð þið tilbúnir til að segja nýju kærustunni að hún sé bara því miður ekki í fyrsta sæti og það komi ekki til greina að sleppa því að taka barnið næstu helgi af því að Flugleiðir bjóði svo ódýra verslunarferð til útlanda bara núna?

Ef barnsmæður ykkar eru svo illa innrættar að reyna að eyðileggja samband ykkar við börnin eigið þið vissulega alla mína samúð en mikið dvínar virðing mín ef þið sýnið ekki þá karlmennsku að spyrna á móti.

———-

Áður birt á Annál þann 21. ágúst 2003

6 thoughts on “Vælið í forræðislausum feðrum

Lokað er á athugasemdir.