Tilraun til þöggunar

Andartak hélt ég að ég hefði rekist á viðræðuhæfan femínista. Kvenréttindakonu sem í stað þess að ausa skít yfir Jón Steinar Gunnlaugsson, vildi fara þá leið að skoða rök hans og dæma hann út frá þeim. En mér skjátlaðist. Enda þótt viðkomandi femínisti stillti sig um að nota ónefni og óska honum dauða, reyndist markmið hennar eitthvert allt annað en að skoða gögnin.

Umræðan um Jón Steinar

Mér er ósárt um að almennir borgarar hreyti fúkyrðum í valda- og áhrifafólk eða hæðist að því í bakherbergjum, hvort heldur er í kjötheimum eða á netinu. Opinberar persónur verða að reikna með því að verða fyrir baktali og ómálefnalegri gagnrýni. Mér finnst aftur á móti lélegt að konur sem úthúða jafnt körlum almennt sem nafngreindum mönnum, án þess að færa nokkur rök fyrir máli sínu, skuli fagna því að karl missi vinnuna fyrir að nýta tjáningarfrelsi sitt til að ræða gremju sína í garð myllumerkjaherferða í lokuðum hópi. En það kemur ekki á óvart, tvöfalt siðgæði er einn flötur á þeirri tvíhyggju sem einkennir femínistahreyfinguna á okkar tímum. Annað dæmi um fjórtán einkenni femínismans, sem birtast í KGMH-málinu eru dólgslegar baráttuaðferðir þar sem rökræða er sniðgengin og gagnrýni ekki svarað efnislega heldur með svívirðingum og ásökunum um annarlegar hvatir.

Jón Steinar Gunnlaugsson er sannarlega ekki hafinn yfir gagnrýni. Hann hefur alveg átt það til að fara út fyrir velsæmismörk og fengið sína flengingu hjá Lögmannafélaginu fyrir vikið. Og  nei, það er auðvitað ekki í verkahring lögmanns að gefa þolendum umbjóðanda ráð af sálfræðilegum eða siðferðilegum toga. En umræðan um Jón Steinar síðustu vikuna snýst ekkert bara um það glappaskot, heldur er hann sakaður um að vera hliðhollur kynferðsglæpamönnum. Hann hefur jafnvel verið sakaður um að hindra framgang réttvísinnar með sératkvæðum í dómsmálum. Þótt ég hafi stundum undrast afstöðu Jóns Steinars, ekkert bara í kynferðisbrotamálum heldur einnig ýmsum öðrum málaflokkum, finnst mér ómaklegt að ætla honum það að vilja refsileysi við kynferðisbrotum.

Mér fannst því verulega jákvætt þegar kona nokkur birti skjáskot úr fréttum af sératkvæðum Jóns Steinars, til þess að sýna fram á hvað það nákvæmlega er sem gagnrýnin snýst um. Aðferðin er góð en ég var ekki sammála þeim ályktunum sem hatursmenn JSG daga af þeim rýru gögnum sem birtast í þessum skjáskotum.

 

Rökræður bannaðar?

Fyrsta skjáskotið sem ég skoðaði var frétt af sératkvæði JSG í máli þar sem kröfu um framlengingu gæsluvarðhalds yfir meintum barnaníðingi var hafnað. Jón Steinar var sammála öðrum hæstaréttardómurum og héraðsdómi um að skilyrði gæsluvarðhalds væru ekki uppfyllt. Hinir hæstaréttardómararnir töldu áframhaldandi gæsluvarðhald ekki réttlætanlegt þar sem málið hefði ekki verið rekið með fullnægjandi hraða. Í sératkvæði sínu gerir Jón Steinar grein fyrir þeirri afstöðu að skilyrði gæsluvarðhalds séu ekki uppfyllt þar sem fyrirliggjandi sönnunargögn dugi ekki til þess að uppfylla skilyrði laganna fyrir gæsluvarðhaldi.

Ég setti inn athugasemd við skjáskotið, spurningu þess efnis hvort afstaða Jóns Steinars fæli virkilega í sér samþykki á kynferðisbroti.* Ég átti von á að einhver myndi svara því til að sönnunarmat Jóns Steinars væri stórgallað en mér til furðu og ánægju skoðaði konan málið, komst að þeirri niðurstöðu að þetta mál ætti ekki heima í þessu skjáskotasafni og fjarlægði það.

Daginn eftir skoðaði ég annað skjáskot.

Ég skoðaði dóminn og setti svo inn athugasemd, man hana ekki orðrétt en efnislega var hún á þessa leið:

Þetta er ljótt mál en ég sé ekki að Jón Steinar hafi tekið afstöðu til sektar eða sýknu með sératkvæði sínu. Hann rökstyður skoðun sína með því að lög heimili ekki framlengingu á gæsluvarðhaldi nema málið hafi verið rekið á eðlilegum hraða og þar sem nægur tími hafi gefist til að senda málið áfram til saksóknara sé því skilyrði ekki fullnægt. Hann vill því beita farbanni en ekki gæsluvarðhaldi. Það eru ströng skilyrði fyrir beitingu gæsluvarðhalds og ef maður er hnepptur í gæsluvarðhald og síðan sýknaður á hann rétt á miskabótum frá ríkinu. Finnst þér í alvöru hægt að lesa það út úr þessu sératkvæði að Jón Steinar vilji ekki koma lögum yfir nauðgara?

Ég bjóst allt eins við því svari að fyrst mat Jóns Steinars stangaðist á við mat  meirihlutans á því hvort málið væri rekið á hæfilegum hraða mætti draga þá ályktun að hann vildi hlífa kynferðisbrotamönnum. Það svar hefði gefið tilefni til að skoða hvernig hann hefur metið skilyrði gæsluvarðhalds í öðrum málaflokkum.

Ég fékk hvorki það svar né nokkurt annað. Þessi kona sem ég hafði andartak talið að væri tilbúin til að ræða málin með rökum reyndist ekki eins opin fyrir því og ég hafði haldið.  Hún svaraði ekki og lét öðrum það heldur ekki eftir, heldur fjarlægði hún ummælin og blokkaði mig. Þetta er skýrt dæmi um þöggun femínista í þágu málstaðarins. Þöggun sem þjónar því markmiði að koma í veg fyrir rökræðu og viðhalda misskilningi. Eitt hinna fjórtán einkenna femínismans er einmitt stjórnlyndi sem birtist m.a. í ritskoðunartilburðum. Í þessu tilviki er viðkomandi femínisti búinn að fá ábendingu og verður því ekki annað séð en að hún sé vísvitandi að reyna að telja fólki trú um það, gegn betri vitund, að dómstörf Jóns Steinars séu óvönduð og beri vott um annarleg sjónarmið. Blekkingar í þágu málstaðarins eru einmitt meðal fjórtán einkenna femínismans.

Er maðurinn sjálfum sér samkvæmur?

Jafnvel þótt við gefum okkur að umræðan um Jón Steinar sem nauðgaravin sé lituð af fordómum gagnvart honum sem persónu og reiði út í réttarkerfi sem er ófært um að mæta þörfum brotaþola, þá sannar það auðvitað ekki að Jón Steinar sé ekki forpokaður verndari kynferðisglæpamanna. Til þess að meta hvort hann er prinsippmaður sem almennt túlkar vafann sakborningi í vil eða sérlegur nauðgaravinur þyrfti að skoða dómaframkvæmd hans í öðrum brotaflokkum og finna út hvort hann er sjálfum sér samkvæmur. Ég hef ekki gert neina áreiðanlega úttekt á því en þeir dómar sem ég þó hef skoðað benda til þess að Jón Steinar geri einnig strangar kröfur um að skilyrði gæsluvarðhalds séu uppfyllt í líkamsárásarmálum. Það á bæði við um mat á því hvenær almannahagsmunum telst ógnað og sönnunarmat. Hann slakar ekki einu sinni á sönnunarkröfunum þegar maður er grunaður um tilraun til manndráps  Af þessum dómi má ætla að hann vilji heldur ekki beita gæsluvarðhaldi frjálslega í auðgunarbrotamálum en þarna var hann annar tveggja dómara sem höfnuðu framlengingu gæsluvarðhalds. Það sama á við um fíkniefnamál, í þessu máli var hann t.d. annar tveggja dómara sem ekki töldu að almannahagsmunir útheimtu gæsluvarðhalds.

Ég hef ekki skoðað nema brot þeirra mála þar sem Jón Steinar Gunnlaugsson hefur verið í dómarasæti. Mér sýnist í fljótu bragði að hann sé sjálfum sér samkvæmur í afstöðu sinni til beitingar gæsluvarðhalds óháð brotaflokkum. Ef það er rangt mat hjá mér þá þigg ég ábendingar með þökkum. Fjöldi sýknudóma hans í kynferðisbrotamálum virðst svo aftur stórlega ýktur. Það er ekki einfalt að bera saman sönnunarmat dómara milli brotaflokka enda eru kynferðisbrot sér á báti að því leyti að skortur á sönnunargögnum er stórt vandamál. Ef einhver veit þess dæmi að Jón Steinar hafi fallist á trúverðuga frásögn brotaþola í einhverjum öðrum brotaflokki sem fullnægjandi sönnunargagn þá auglýsi ég hér með eftir uppýsingum um þá dóma.

 

Væri hægt að ræða þetta með rökum?

Mikill fjöldi sératkvæða bendir vissulega til þess að Jón Steinar hafi óvenjulega sýn á lögin og/eða geri óvenju strangar kröfur til sönnunar. Það væri áhugavert að heyra rök þeirra sem telja sönnunarmat hans óeðlilegt en hingað til hef ég aðeins heyrt upphrópanir og skítkast. Ef á að vera eitthvert vit í umræðunni þyrfti einnig að forðast að beita markvissri þöggun gegn öllum sjónarmiðum öðrum en þeim að Jón Steinar sé einfaldlega ógeð og hafið yfir vafa að mat hans sem dómara sé litað af annarlegum hvötum.

Ég hef ekki áhyggjur af umræðunni um Jón Steinar eða umræðunni um dóma í kynferðsbrotamálum. Ég hef heldur ekki áhyggjur af þögguninni. Á tímum internetsins er ekkert hægt til lengdar að halda rökræðum frá öðrum en þeim sem kjósa hvort sem er að halda fyrir eyrun. Vonandi eru þeir til sem vilja skoða sönnunarmat Jóns Steinars án froðufellandi heiftar. Við getum t.d. velt því fyrir okkur hvort gögn á borð við trúverðuga frásögn eða vottorð um áfallastreituröskun ættu að duga sem sönnun um kynferðisbrot. Vel má það vera. Og ef svarið er já, ættu slík gögn þá ekki líka að duga í öðrum brotaflokkum? Ætti trúverðug frásögn manns sem kærir konu fyrir rangar sakargiftir t.d. að nægja til að sakfella hana? Hvað ef hann reiðir líka fram vottorð um áfallastreituröskun? Fólk sem bregst við slíkum spurningum með því að leggja símtólið á, fjarlægja málefnalegar athugasemdir af spjallþráðum eða útlioka fólk með önnur sjónarmið frá umræðunni getur ekki búist við að vera tekið alvarlega.

 

* Þar sem innlegg mín við skjáskotin hafa verið fjarlægð er ég ekki með orðalagið á hreinu.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook