Er þörf fyrir andfemínisma í samfélagi sem stendur á öndinni af hneykslun ef einhver hálfviti segir eitthvað sem mögulegt er að túlka sem karlrembu en finnst svona auglýsing bara allt í lagi?
Í samfélagi sem kyngir því bara hráu þegar alþýðuskilgreiningin á kynferðisofbeldi er rýmkuð þar til orð eins og „kynferðisleg áreitni“ og „nauðgun“ hafa enga merkingu lengur?
Í samfélagi þar sem biskup tekur að sér rannsókn sakamála?
Í samfélagi sem í stað stað þess að hveta til skoðanaskipta og rökræðna lætur það óátalið þegar reynt er að þagga niður í hverjum þeim sem hefur aðrar skoðanir en dólgafemínistar, ekki bara með ritskoðunarórum heldur einnig með því að kalla andmælandann kaktuspung og perra en þolir svo ekki ókurteisi gagnvart konum?
Í samfélagi sem krefst þess að karlar taki ábyrgð á kynferðisofbeldi en úthúðar þeim svo fyrir valdníðslu þegar þeir leggjast í duftið og játa syndir sínar opinberlega?
Í samfélagi sem kallar hefðbundnar ástar- og hetjusögur „skaðlega karlmennsku“ en getur ekki svarað því hverskonar karlmennska teljist þá óskaðleg?
Í samfélagi þar sem lögreglan er ýmist gagnrýnd fyrir að letja brotaþola til að kæra eða fyrir að hvetja til þess. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að rannsaka mál og sakfella menn ef mál eru ekki kærð fyrr en mörgum vikum eða mánuðum síðar? Hvað er eiginlega verið að biðja um?
Í samfélagi sem gengur út frá því sem staðreynd að launamunur kynjanna byggist á ómálefnalegum sjónarmiðum og setur því tugi milljóna í að fróa femínistum, t.d. með árangurslausri jafnlaunavottun, enda þótt vísindamenn hafni því að tölfræðin staðfesti mismunun.
Í samfélagi þar sem endalaust er grenjað yfir því að konur komist hvergi að í menningu og listum enda þótt sannleikurinn sé sá að konur stjórna þar nánast öllu.
Í samfélagi sem lítur á afbrot kvenna sem „harmleiki viðkvæmra sálna“ en talar afar sjaldan um afbrot karla sem neitt flóknara en afbrot.
Í samfélagi sem finnur karlrembu sinni farveg í femínisma með því að skilgreina það sem nauðgun ef konur láta undan suði í karlmönnum eða reyna jafnvel beinlínis að draga karla til ábyrgðar fyrir gjörðir kvenna, eins og t.d. þegar femínistar krefja Einar um skýringar á mínum skrifum?
Er þörf fyrir andfemínisma í samfélagi sem er svo gegnsýrt af þessari klikkuðu hugmyndafræði að það er útilokað að skoða netmiðlana án þess að verða fyrir sífelldu óumbeðnu femínistarunki? Þar sem fólk heldur að það að kalla sig femínista sé hugtaksatriði um almennilega manneskju og með því að hafna ruglhugmyndum um feðraveldi og nauðgunarmenningu sé maður að samþykkja karlrembu og ofbeldi gegn konum og leggja til að konur verði sviptar kosningarétti?
Langt fram á síðasta ár hafði ég verulegar efasemdir um gildi þess að mynda skipulega andófshreyfingu gegn femínisma. Það er hætta á hjarðmyndun í öllum pólitískum hreyfingum og þær geta auðveldlega orðið skálkaskjól fólks sem hefur allt önnur markmið en þau sem lagt er upp með. En dólgafemínisminn er ekkert á undanhaldi og fyrr eða síðar verður einhver að bregðast við. Ég held svei mér þá að það sé tímabært að stofna skipulögð samtök gegn þessum ófögnuði.