Þörf fyrir andfemínisma

Það er alveg sama hvaða hugmyndakerfi við skoðum, það er alltaf einhver sannleikskjarni í hugmyndafræði sem á annað borð nær útbreiðslu. Kalvínismi, Islam, Stalínismi, Fasismi … það er alltaf eitthvert óréttlæti sem veldur því að kúgandi kerfi öðlast virðingu og talsmenn þess komast til valda og taka að kúga aðra. Það á einnig við um femínismann.

Femínismi hefði aldrei orðið „mainstream“ nema vegna þess að flestar ef ekki allar konur verða fyrir barðinu á karlrembu. Konur verða stundum fyrir óþolandi framkomu sem beinist að þeim vegna þess að þær eru konur og það er ekki langt síðan mismunun á grundvelli kynferðis var talin sjálfsögð. Ég held að það sé í rauninni alveg eðlilegt að margar konur missi sig í karlfyrirlitningu og ég hef svo sannarlega átt slík tímabil sjálf. Það er ekki jákvætt, auðvitað ekki, karlhatur er ekki viðhorf sem er bara allt í lagi að tileinka sér, en það er „eðlilegt“ í þeirri merkingu að þegar manneskjur hafa stöðugt á tilfinningunni að litið sér á þær sem annarsflokks fólk og rekast allsstaðar á veggi, þá er bara mannlegt að bregðast við með reiði. Og þegar reiðin kraumar undir niðri árum saman þá leiðir það til tortryggni, fyrirlitningar og loks haturs.

Það er ekkert undarlegt að femínismi skuli hafa náð útbreiðslu og orðið æ öfgakenndari. Það er hinsvegar ekkert jákvætt við það að svara hrottaskap með hrottaskap, ýkja vandamál og sniðganga vísindalegar aðferðir til að ná fram þeim niðurstöðum sem rannsakandinn vill. Þegar við bætist að karlfyrirlitning er orðin svo sjálfsögð að hún er farin að einkenna fjölmiðla og stjórnsýslu, þá er þörf á að spyrna á móti. Femínismi er nefnilega orðinn stærra vandamál en karlremba, að minnsta kosti í okkar samfélagi. Það er tímabært að þeir sem sjá karlkúgun og ritskoðun ekki sem lausn á vandamálum í samskiptum kynjanna rísi gegn femínisma. Lausnin er ekki sú að karlar fari í stríð við konur eða taki upp sama fórnarlambs-jarmið og femmurnar. Við ættum miklu frekar að hætta að hegða okkur eins og karlar og konur séu óvinir.

Femínisminn skaðar ekki bara karla. Forsjárhyggjan og fasistatilhneigingarnar sem fylgja þessum ófögnuði bitna beinlínis á konum í kynlífsiðnaði, konum sem vilja vera staðgöngumæður og þeim sem vilja nýta sér þjónustu staðgöngumæðra. Óbein áhrif eru svo fjandsamleg viðhorf til kvenna sem kunna vel við hefðbundin kynhlutverk.

Ég vona að styttist í að hreyfing andfemínista á Íslandi verði að veruleika.

Deildu færslunni

Share to Facebook