Baráttan fyrir mannréttindum og réttlæti er eins og pendúll. Krafturinn sem þurfti til að sveifla pendúlnum í rétta átt sendir hann lengra en þörf var á. Óréttlæti er upprætt, en hættan er sú að við förum fram úr okkur.
Ég á dóttur sem hefur sætt ótrúlegri framkomu af hálfu ókunnugra, harðfullorðnna karla. Allt frá yfirmanni á vinnustað hennar sem fór með hana á hótel í öðrum bæ (mér tókst að sækja hana í tæka tíð) yfir í ókunnugan mann sem nuddaði kynfærum sínum upp við hana í strætó. Svo ég veit sem faðir, bróðir, sonur, vinur og sem manneskja hversu hræðileg kynferðisleg áreitni getur verið og hversu erfitt getur verið fyrir sumt fólk að takast á við hana. Það var tími til kominn að við gerðum eitthvað í málinu.
En sú hætta vofir yfir að við fórnum of miklu í þessari nauðsynlegu baráttu. Hér eru hættumerkin sem ég sé:
1) Ellefta grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna hljóðar svo:
Hvern þann, sem borinn er sökum fyrir refsivert brot, skal telja saklausan, uns sekt er sönnuð að lögum í opnu réttarhaldi, enda hafi verið tryggð öll nauðsynleg úrræði til að halda uppi vörnum.
Það virðist víðtæk skoðun að þessi regla ætti ekki að gilda lengur. Já, ég geri mér grein fyrir því að ef 10-20 manneskjur kvarta yfir því sama þá bendir það til þess að eitthvað sé að, en að fella dóma á grundvelli frásagna einnar eða tveggja manneskja, og aðeins á grundvelli þeirra hliðar á málinu, það er mannréttindabrot. Ég myndi að minnsta kosti frekar vilja að glæpamaður gengi laus en að saklaus karl (eða kona) sé hneppt í fangelsi. Ef þú ert ósammála, veltu þessu þá fyrir þér: Ert þú tilbúin(n) til að fara í fangelsi fyrir eitthvað sem þú gerðir ekki? Ef ekki, gerðu þá ekki ráð fyrir að aðrir séu tilbúnir til þess.
2) Það eru tvær hliðar á öllum málum. Þetta þóttu lengi svo augljós sannindi að það tók því ekki að nefna það. Nú lætur fólk eins og það sé bara ein hlið á málinu og sú hlið er upplifun meints brotaþola. En til er fjöldi dæma (og tilrauna) sem sýna að upplifun og staðreyndir fara ekki alltaf saman. Upplifun okkar eru lituð af fortíð okkar, persónuleika og væntingum. Misskilningur stafar af því að fólk túlkar sama atvik á mismunandi vegu. Og allir vita hversu algengt er að misskilingur verði milli manna. Svo af hverju ættu sögur um kynferðislega áreitni að lúta öðrum lögmálum? Eins og ég hef sagt – ef 10 eða 20 manns segja sömu söguna þá er trúlegt að fótur sé fyrir henni, en við getum ekki dæmt mannveru á grundvelli þess sem ein eða tvær aðrar manneskjur segja, án sannana um að brot hafi verið framið.
3) Mér finnst ömurlegt hvað fólk fær mikið kikk út úr þessu. Það er slúðurblaðablær á umfjöllun fjölmiðla um ásakanirnar. Maður sér næstum heykvíslarnar á lofti og bálkestina hlaðna og tendraða. Jesú Kristur sagði:
Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum. (Jóh. 8.7)
Ég efast um að til sé sú manneskja sem aldrei hefur gert neitt um ævina sem ástæða er til að iðrast. Ég efast um að nokkurt okkar stæði upprétt ef fortíð hvers og eins yrði grandskoðuð. Gleymum því ekki að frægt fólk er fjölmiðlamatur svo það eru miklu meiri líkur á að sögur af þeim sem eru áberandi komi fyrir almannaaugu en sögur af þér. Það þýðir ekki að þú sért neitt skárri. Já, ég veit að það er auðveldara fyrir þá frægu og voldugu að misnota aðstöðu sína, en það verður samt að vera svigrúm fyrir mannlegan breyskleika. Við getum ekki látið eins og heimurinn sé svarthvítur. Frægt fólk er líka manneskjur.
4) Og það leiðir okkur að næsta atriði. Nýju möntrunni um að kynferðisleg áreitni skuli undir engum kringumstæðum líðast. Þegar fólk nefnir „zero tolerance“ fæ ég sting í hjartað. Gráa svæðið milli nauðgunar og kynlífs með upplýstu samþykki er býsna stórt. Það verður að vera til svigrúm fyrir misskilning og heimskulega framkomu áður en við úrskurðum alla „skrímsli“ sem hafa verið ásakaðir um kynferðislega áreitni. Og afsakið, en ég held ekki að það sé alltaf hægt að dæma persónuleika manns út frá framkomu hans. Stundum gerir fólk heimskulega hluti, en það þýðir ekki að það sé vondar manneskjur. Við erum ekki summan af hinum verstu stundum í lífi okkar, við erum meira en það. Eins og lögregluþjónninn Jim Kurring sagði í kvikmyndinni Magnolia (1999):
Fólk heldur að þegar ég felli úrskurð sé ég að dæma það persónulega. En það er ekki það sem ég geri og það er ekki það sem á að gera. Ég verð að taka því sem að höndum ber og finna lausn á hverju máli fyrir sig. Stundum þarf fólk svolitla hjálp. Stundum þarf fólk fyrirgefningu. Og stundum þarf það að fara í fangelsi. Og það er afar snúið fyrir mig … að fella þann úrskurð. Lög eru lög, og ég er fjandinn hafi það ekki að fara að brjóta þau. En ef hægt er að fyrirgefa einhverjum … það er erfiði hlutinn. Hvað getum við fyrirgefið? Það er erfiðasti hlutinn af þessu starfi. Það er vandamál þess sem er á göturöltinu.
5) Það eru ekki bara konur sem verða fyrir kynferðislegri áreitni. Ég hef skrifað um það áður, svo ég ætla ekki að endurtaka eigin persónulegu reynslu hér, en spyrjið hvaða karlmann sem er hvort hann hafi einhvern tíma upplifað kynferðislegan áhuga frá konu sem hann kærði sig ekki um, og það eru yfirgnæfandi líkur á að svarið sé já. Nánast allt fólk upplifir kynferðislega áreitni um ævina. Það þýðir ekki að við séum öll fórnarlömb. Ég hef orðið fyrir kynferðislegri áreitni bæði af hálfu karla og kvenna en þar sem það skildi ekki eftir nein ör og ég gat bara hrist það af mér þá lít ég ekki á sjálfan mig sem fórnarlamb. Það afsakar auðvitað ekki alla kynferðislega áreitni, það þýðir bara að við getum ekki gengið út frá því að öll kynferðisleg áreitni geri manneskju að fórnarlambi. Kynferðisleg áreitni er ekki bara karlmennskuvandamál. Hún er að hluta menningarlegt vandamál, að nokkru leyti fylgifiskur mannlegra samskipta og að hluta misneyting, Og þetta þrennt er ekki sami hluturinn. Það er gráskali.
6) Sú hætta er yfirvofandi að þessi (mikilvæga) barátta leiði til púritanisma. Við sjáum nú þegar hættumerkin. Karlar spyrja í óvissu sinni hvar mörkin liggi. Bara það að menn sjái ástæðu til að spyrja vekur ugg af tveim ólíkum ástæðum: Það er ógnvekjandi ef karlar átta sig ekki á því að það að bera sig eða þvinga einhvern til kynmaka er ekki í lagi. Það ætti að vera augljóst að það er ekki ásættanleg hegðun. Það er líka ógnvekjandi ef karlar þora ekki að kyssa konu á stefnumóti af ótta við að verða ásakaðir um kynferðisáreitni eða eru hræddir við að daðra af því að það yrði ef til vill notað gegn þeim. Ég tala um karla, af því að fram að þessu hafa það aðallega verið karlar sem liggja undir ámæli. En það er bara tímaspursmál hvenær ásakanirnar fara að beinast gegn voldugum og frægum konum. Viljum við virkilega fara þangað? Var Viktoríutíminn virkilega svo frábær?
7) Að síðustu þá óttast ég upphafningu fórnarlambsvæðingarinnar. Fólk nýtur viðurkenningar sem fórnarlömb, en mjög fáir öðlast viðurkenningu fyrir getuna til að hrista hlutina af sér. Vinkonu minni var nauðgað og hún einsetti sér að láta það ekki skilgreina hver hún væri. Hún fékk mikið af neikvæðum viðbrögðum vegna þess. Hún var ekki að takast á við sársaukann og svo framvegis og framvegis … Allt hefur sinn tíma. Fólk gengur í gegnum sorgarferli en þegar því lýkur er tímabært að halda áfram. Já, ég skil að kona upplifi kynferðislega áreitni sem meiri ógn en karlmaður af því að flestir karlar eru sterkari en flestar konur en ég efast um að það sé eina ástæða þess að bara konur tjá sig nú. Körlum hefur verið kennt að hrista hlutina af sér. Taka sér tak. Konur eru hvattar til að segja frá. Kannski þurfum við hvort tveggja?
Við ættum að minnsta kosti ekki að skapa menningu þar sem fólk fær ekki að halda áfram heldur er hvatt til þess að lifa í hlutverki píslarhetjunnar. Þar sem manneskjan nýtur aðeins aðdáunar ef hún annaðhvort fórnarlamb eða múr sem stendur öll áföll af sér. Það þarf að vera til millivegur.