Sniðugir strákar og uppstilling landsliðsins

Eva: Hvaða Ásgeir? Á ég að vita hver hann er?
Einar: Já. Þú talaðir heilmikið við hann í afmælinu hans Steindórs.
Eva: Ha???
Einar: Í fimmtugsafmælinu hans Steindórs manstu?
Eva: Haaaallooó!
Einar: Hvað?
Eva: Hann Steindór er ekki orðinn fimmtugur. Við mættum hinsvegar í fimmtugsafmælið hennar Jónínu. Og jú, ég man núna hver þessi Ásgeir er, hann hélt einmitt eina ræðuna um það hvað hann Steindór er sniðugur strákur. Eina af mörgum.

Þannig var nú það. Ekkert skrýtið að í minningunni verði þetta afmælið hans Steindórs því konan hans var algert aukaatriði í veislunni, þótt tilefnið væri afmælisdagurinn hennar. Að vísu snerist ein ræðan um það hvað Jónína sjálf væri góð og gáfuð en þegar ræðumaður fór að lýsa snilli hennar sem hannyrðakonu greip afmælisbarnið sjálft fram í fyrir honum og leiðrétti. Hún hafði prjónað eina lopapeysu og faldað gardínur fyrir 20 árum. Ræðumaður varð vandræðalegur.

Og þetta er ekkert eina dæmið sem ég þekki. Ég sat eitt sinn íburðarmikið fertugsafmæli konu þar sem vinir eiginmannsins fluttu lofræður um hann, með gamansömu ívafi auðvitað og gátu þess í leiðinni að það væri nú mikil blessun að þessi grallaraspói hefði fundið konu sem hefði sæmilega stjórn á honum. Það þótti sniðugt. Eitthvað var líka minnst á það hvað konan sjálf væri góð og gáfuð, dugleg og skemmtileg en fáir virtust kunna neinar sögur af henni. Á milli ræðuhalda sté söngvari á svið og söng „brúnaljósin brúnu þín“ að eigin sögn „til afmælisbarnsins“ – konan er gráeyg.

Vera má að mín reynsla sé óvenjuleg en einstök er hún ekki. Vinkona mín kom einhverju sinni til mín fnæsandi af reiði eftir að hafa fylgt ömmu sinni til grafar. Presturinn hafði verið heimilsvinur til margra ára og líkræðan var notaleg lýsing á heimili og gestrisni „þeirra heiðurshjóna“. Frásögnin var svo skreytt með skemmtilegum smásögum af afanum, sem hafði látist nokkrum árum fyrr. Í bakgrunni var amman einhvernveginn alltaf í eldhúsinu að steikja kleinur ofan í gestina eða marinera kótilettur á grillið.

Ég er ekki að halda því fram að karlar fái alltaf og alls staðar meiri athygli en konur eða að þessar lýsingar hér að ofan eigi almennt við. Ég er ekki að skamma þá sem mæta í veislu sem haldin er til þess að fagna afmæli eða einhverjum öðrum áfanga í lífi konu fyrir að halda ekki fleiri og innihaldsríkari ræður um afrek hennar og uppátæki. En ég veit að margar konur hafa það stöðugt á tilfinningunni að karlar þurfi furðulítið að afreka til þess að eftir þeim sé tekið og sú tilfinning sprettur ekki af engu. Ef kona sem býður til veislu er gjörsamlega laus við að vera áhugaverð væri kannski betur viðeigandi skála bara og geyma lofræður og gamansögur af karlinum um sinn. Það munu áreiðanlega gefast fleiri tækifæri til að tala um það hvað hann Kiddi/Tryggvi/Jón er sniðugur strákur.

Ég er heldur ekkert að horfa fram hjá því að stundum eru viðbrögðin við þeirri athygli sem karlar fá út úr korti. Fyrir nokkrum dögum fóru netverjar á límingunum vegna myndar sem tekin var af  kvennalandsliðinu í fótbolta og þjálfurum, þegar haldið var í keppnisferð. Femínistar fylltust heilagri reiði yfir því að karlarnir hefðu stillt sér upp fyrir framan hinar sönnu hetjur landsliðsins. Fljótlega benti karlmaður á að landslið karla hefur stillt upp á nákvæmlega sama hátt og væri því ekki dæmi um undirskipun kvenna. Kunnu femínistar honum litlar þakkir fyrir, gripu það á lofti að hann vísaði til tilfinningasemi og héldu áfram að æpa. Viðbrögðin eru ekki – ok, frábært að þetta skuli vera misskilningur, vonandi erum við komin lengra en við héldum, heldur – víst er ástandið hræðilegt, hvernig sem á það er litið.

Þessi tilhneiging femínista til að gera úlfalda úr mýflugi eða þegar verst lætur að teikna úlfalda þótt hvergi sé mýflugu að sjá, er sem betur fer merki um málefnaþurrð. Kerfisbundið misrétti er ekki það vandamál sem það var fyrir 40 árum. Konur og karlmenn njóta jafnréttis að lögum, í nokkrum tilvikum eru konur betur settar lagalega en karlar og félög og fyrirtæki vilja almennt að minnsta kosti gefa þá mynd af sér að þar ríki kynjajafnrétti. En í daglegu lífi eru konur ekki jafn áberandi og karlar og jafnvel þegar þær eru það beinist athyglin frekar að körlum. Karlar eru álitnir sniðuga kynið og þarf oft merkilega lítil sniðugheit til þess að þau teljist í frásögur færandi. Ég er ekki viss um að það eigi endilega að „gera eitthvað í því“ í þeirri merkingu að grípa til skipulegra aðgerða en ég held að kynjahallinn jafnist fyrr ef við erum meðvituð um hann.

Ég held að sé þessi tilfinning – konan er hitt kynið, fylgifiskur karlsins, þjónusta hans, hvíslarinn að tjaldabaki og aldrei í aðalhlutverki – sem hefur kraumað undir niðri frá ómunatíð, sem gýs upp við jafn ómerkilega atburði og uppstillingu íþróttaliðs. Sú tilfinning á sér sannarlega stoð í veruleikanum og ekki aðeins í liðinni tíð heldur líka þeim veruleika sem blasið við á okkar tímum. Það er frekar klikkað að froðufella af reiði yfir kynjamisrétti þar sem það er ekki til staðar en kannski ættum við að velta því aðeins fyrir okkur af hvaða rótum öll þessi reiði er runnin og bregðast við því með því að gefa konum sama vægi og körlum í hinu daglega lífi. Ekki til að sefa reiðina, það verður hvort sem er aldrei hægt að friða þá sem eru í heilögu stríði, heldur vegna þess að samfélag þar sem fólk nýtur viðurkenningar óháð kyni, stéttarstöðu og uppruna er réttlátara, skemmtilegra og bara á allan hátt betra.

Deildu færslunni

Share to Facebook