Meintur forréttindapési „níðir“ jaðarhópa

Þú skalt ekki grínast. Eða kannski öllu heldur; þú skalt ekki grínast nema vera viss um að vera í náðinni hjá femínistum og öðrum sem vilja stjórna samfélagsumræðunni. 

Þetta er eitt hinna klikkuðu boðorða sem einkennir þá nýhreintrúarstefnu sem femínistahreyfingin hefur boðað á síðustu árum og fleiri tekið upp. Leikarinn Stefán Karl Stefánsson gerði þessa viðleitni til að stjórna tjáningu annarra og andúðina á gríni að umræðuefni í útvarpsþætti núna um helgina.

Viðbrögð femínista

Og ekki stóð á viðbrögðunum. Facebook hópar loguðu af vandlætingu og þótti þessi „miðaldra, hvíti karl“ (það er víst orðið stigma) aldeilis hafa farið yfir strikið. Femínistinn María Lilja Þrastardóttir nær ágætlega utan um umræðuna í eftirfarandi færslu á FB-vegg sínum:


(Hér er tengill á skjáskot fyrir þá sem ekki nota Facebook.)

Þessi færsla bendir reyndar til þess að höfundur hafi alls ekki hlustað á viðtalið eða lesið greinina því Stefán Karl er langt frá því að vera heimtur úr helju. Hann er með 4. stigs krabbamein, sem þýðir að þótt sé búið að skera úr honum öll mein og hann fær um daglegt líf, í bili, með því að gleypa hálft apótek á dag, er bara tímaspursmál hvenær krabbinn tekur sig upp aftur.

Það verður að teljast dálítið nýstárlegt að kalla það „forréttindastöðu“ að vera dauðvona, 42ja ára heimilsfaðir með tvo unglinga og tvö lítil börn en það kemur mér svosem ekki á óvart að femínistar sjái það sem forréttindi – enda hefur píslarhetjan verið í tísku síðustu árin.

Meintur níðingsháttur Stefáns

Og hvað var það svo sem Stefán Karl sagði sem gaf tilefni til þessara viðbragða? Sagði hann eitthvað ljótt um minnihlutahópa? Sagði hann að ofsóknir gagnvart jaðarhópum eða einstaklingum væru bara allt’í’læ?

Nei, hann sagði það ekki. Það sem hann sagði er eðlilegast að skilja sem svo að góðlátlegt grín eigi fullkomlega rétt á sér og að ef einhverjum sárni það sé best að ræða málin. Hann ympraði líka á því að þeir sem hæst emja af vandlætingu yfir ósmekklegu gríni séu ekki endilega saklausir af því sama og vísaði í því sambandi til tjaldhælsins fræga. Tjaldhælsmálið hefur varla farið fram hjá nokkrum Íslendingi sem á annað borð fylgist með fjölmiðlum og það er undarlegur útúrsnúningur að halda því fram að hann sé að bera upp á hana nauðgun með því að taka svona til orða.

 

Hverjir mega grínast á kostnað annarra?

Ég hef áður bent á dæmi um það hvernig svokallaðir „öðlingar“, karlar sem eru réttu megin í pólitík og hugnast menningarelítunni sem listamenn, virðast komast upp með ósmekklegt grín þótt þeir sem ekki hafa lýst yfir stuðningi við vinstri hreyfinguna og kannski hnýtt í femínista í þokkabót séu jarðaðir fyrir það sama. Áhugavert væri að skoða hvort svipaður tvískinnungur á við um kyn. Konur geta nefnilega haft ósmekklegan húmor og verið tillitslausar í fyndni sinni.

Fyrir skömmu var ég stödd á samkomu (á Íslandi) þar sem grínisti nokkur var með uppistand. Meðal þess sem vakti hvað mestu hlátrasköllin var lýsing á því hvernig viðkomandi gæti helst fengið kikk út úr því að setja tiltekna stjörnu inn í kynlífsfantasíu. Heilmikil hlutgerving þar, sem ég efast um að nokkur viðstaddra hafi tekið alvarlega. Þetta var nefnilega svokallað grín og þessum skemmtikrafti er fátt heilagt.

Skemmtikrafturinn er Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur, stjarnan er Bubbi Morthens. Kynlífsathöfnin sem Sigga Dögg lýsti fólst í því að smyrja miklu sleipiefni á skallann á Bubba, setjast svo á hann og halda sér í eyrun á meðan hún renndi sér fram og aftur.

Sérlega girnilegur skalli en eru eyrun nógu stór til að nota þau sem handföng?

Húmorinn í þessu er alveg á pari við það ósmekklegasta sem ýmsir meintir kvenhatarar hafa látið út úr sér opinberlega – í gríni. Það er fáránleikinn sem gerir þetta fyndið, bara svipað því og þegar maður nokkur sagði um mig „Eva, hún er nú svo lítil að það er hægt að turra hana.“ Að „turra“ er semsagt að skella dömunni upp á kjánaprikið á sér og ýta á hausinn á henni og þá snýst hún eins og þyrluspaði.

Ég tók þessa hlutgervingu ekki nærri mér enda bara um grín að ræða. Fólk grínast nefnilega með kynferðismál og margt þessháttar grín væri misnotkun eða ofbeldi ef það ætti sér stað í veruleikanum. Sem brandari eða hluti af skemmtidagskrá er það hinsvegar grín og lýsir venjulega hvorki hatri á tiltekinni persónu né tilteknum hópum. Og ég sé ekki betur en að fyndar konur noti nákvæmlega samskonar hlutgervingu og smekkleysu og karlar og segi samskonar brandara á kostnað jaðarhópa eða nafngreindra einstaklinga.

Og vitiðið hvað – fólk mun ekki hætta að grínast hvað sem femínistar og hópar sem aðhyllast samskonar bælingu tjáningar í nafni félagslegs réttlætis, æpa og emja. Maðurinn hefur nefnilega eðlislæga þörf fyrir spaug og fáir munu láta segja sér hvað þeim eigi að þykja fyndið.

[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“date“ order=“ASC“ none_text=“None found“]

Deildu færslunni

Share to Facebook