Kvenfólk handa Carrey

carreyVinsæll leikari á leið til landins og búinn að panta mat, vín og sæg af kvenfólki. Þetta þykir auðvitað hin mesta hneysa, ekki sæmandi að líta á konur sem hverja aðra neysluvöru, ætlar maðurinn að gogga upp í sig smásnittur með annarri hendinni og næla sér í kvenmannskropp með hinni eða hvað? Agalegt, alveg ferlegt og ekki séns í helvíti að stúlkurnar taki þátt í þessum ósóma sjálfviljugar. Örugglega allar með Stokkhólmsheilkennið, sjálfsvirðingarlausar eftir að hafa lent í biðraðadóna um 16 ára aldurinn og þessvegna fullkomlega ófærar um að ákveða sjálfar hver fær að gera klípklíp og á hvaða forsendum. Má jafnvel reikna með að þessum leikaradóna þyki viðeigandi að einhver þeirra gisti hjá honum og gangist þar með undir „samþykkta nauðgun“.

Hefði sjarmörinn beðið um mat, vín og glás af góðum harmónikkuleikurum, hefði það verið allt annað. Félagi íslenskra harmónikkuunnenda hefði verið sannur heiður af því að þenja nikkuna fyrir hann. Þeir hefðu æft sig daglega og bloggað um ánægjulegt kvöld og góð viðkynni. En stelpur sem skemmta manni með því að daðra og dansa, það er annað mál.

Í flestum ef ekki öllum stórum samfélögum er til stétt kvenna sem hefur það hlutverk að sannfæra karla um að þeir séu æðislegir eða í það minnsta gjaldgengir. Konur sem hafa atvinnu af því að lappa upp á sjálfstraustið hjá skítblönkum mönnum með því að glenna sig fyrir þá á nektardansstöðum og síðum klámblaða. Konur sem vinna við að vera ríkum körlum þægilegur félagsskapur án þess að því fylgi neinar væntingar um að karlinn hafi samband aftur eða taki nokkra þá ábyrgð gagnvart konunni sem hann tæki ekki gagnvart þjóni á veitingahúsi, einkaþjálfaranum sínum eða hverjum öðrum sem þjónustar hann. Stundum felst þjónusta fylgdardömunnar aðallega í því að gefa manni sem er varla nema í meðallagi skemmtilegur, færi á að líða eins og hann sé Einsi kaldi úr Eyjunum. Sýna honum dálítið meiri persónulegan áhuga og aðdáun en efni standa til. Sumar þessarra kvenna ganga lengra en að vera ánægjulegur félagsskapur, þær fara í bólið með viðskiptavinum sínum og fara heim með myndarlega peningaupphæð eða dýra gjöf.

Eins og allt annað fólk eiga escort dömur og kynlífsþjónar sína góðu og slæmu daga. Oft vill svo til að konunni finnst kúnninn í alvöru áhugaverður félagsskapur og leiðist hreint ekkert að sofa hjá honum. Svo lendir hún líka í hundleiðinlegum kúnnum og verður dauðfegin að komast heim. Rétt eins og harmónikkuleikarinn hefur vonandi oftast gaman af sínu starfi þótt hann langi mest að reka prjón inn í hlustina á sér þegar hann er beðinn um að spila „Undir bláhimni“ eina ferðina enn. Harmónikkuleikarinn getur sagt nei. Ef einhver gengur fram af honum með kröfuhörku eða dónaskap þá þarf hann ekki að láta það yfir sig ganga. Ef hann yrði beðinn að spila Undir bláhimni í tvo klukkutíma án hlés, myndi hann sennilega gera upp við sig hvort hann væri yfirhöfuð tilbúinn til að leggja það á sig eða hvort sú fjárhæð sem honum væri boðin fyrir það dygði honum til að halda það út.

Ég spái því að það verði auðvelt verk að finna glás af gellum sem eru reiðubúnar til að halda Jim Carrey félagsskap, hlæja þegar hann segir misfyndna brandara og láta sem þær taki ekkert eftir því hvað hann lítur miklu verr út án sminks og fótósjoppu. Ég spái því að fjölmargar stúlkur séu til í að gera þetta frítt, just for the story and the glory, og að hann fái kost á ókeypis maraþonreið ef hann bara kærir sig um.

Og hvað með það? Skaðar það einhvern? Hver er munurinn á harmónikkuleikara og konu sem gengst sjálfviljug undir slíka hlutgervingu? Hver er munurinn á því að panta skemmtikrafta til að spila tónlist og mótleikara fyrir hlutverk töffarans sem Jim Carrey dreymir um að vera? Ætti að banna körlum að panta þjónustu fylgdarkvenna eða bjóða þeim í partý þegar markmiðið er augljóslega að fá þær til að skemmta körlunum en ekki öfugt?

Mér finnst það ekki. Ekki frekar en mér finnst koma til greina að banna „Undir bláhimni“. Þótt það lag hljóti að hafa stórskaðað geðheilsu margra tónlistarmanna.

Deildu færslunni

Share to Facebook