Þegar Ómar kjamsaði á kjömmunum

LustÍ umræðunni um hina alræmdu klámvæðingu og hlutgervingu kvenna, ber nokkuð á þeirri hugmynd að það sé nýnæmi að karlmenn líti á konur sem kynferðisleg þarfaþing. Í gær sá ég umræðu á netinu þar sem sú skoðun kom fram að í gamla daga hafi karlremba birst í því að líta á konur sem passivar og hjálparvana verur sem óþarfi væri að spyrja álits en í dag líti karlrembur ekki á konur sem viðkvæmar verur sem þarfnist verndar, heldur sem kynlífsleikföng.

Ég efast um að þarna hafi orðið nokkur stökkbreyting á. Lítum aðeins á þá dægurlagatexta sem fyrri kynslóðir ólust upp við. Ómar Ragnarsson söng um töffarann sem fór á sveitaball og gafst næði „til að gramsa þar og kjamsa þar á kjömmunum, jafnvel á ömmunum“. Gaurinn á fraktskipinu fékk sér „nýja í næstu höfn“ og allar stúlkurnar á ballinu brostu þegar þeim var boðið að dansa eftir því lagi og öðrum með álíka textum. Einsi kaldi úr Eyjunum og gaurinn sem vann við Sigöldu, þeir voru nú aldeilis svalir piparsveinar með heila kvennahjörð á hælunum. Í dægurlagatextum 20. aldarinnar eru konur sem ekki bíða heima eins og litla, sæta ljúfan góða, stórvarasamar og oftar en ekki upprunnar og búsettar erlendis. Mærin frá Mexíkó, MaríaMaríaMaría á Ítalíu og senjóríturnar suður á Spáni, það voru sko dræsur í lagi, ærðu menn af losta en voru ekki í neinum giftingarhugleiðingum.

Á þeim tíma mátti ekki segja mella í útvarpi og já textarnir eru grófari í dag. En í fullri hreinskilni; er einhver eðlismunur á þeim hvötum sem liggja að baki þessum textum og þeim illa orta hroða; ‘“Við elskum þessar mellur?“ Ég sé ekki betur en að eitthvert hlutfall karlmanna hafi á öllum tímum gengist upp í imynd kvennagullsins, töffarans sem er umvafinn kvenfólki og dreifir sæði sínu sem víðast án þess að taka nokkra ábyrgð gagnvart konunni. Og á öllum tímum hefur eitthvert hlutfall stúlkna þjónað þessum töffurum, ýmist gegn greiðslu eða í sjálfboðavinnu. Aðal nýlundan í þessum efnum er sú að færri konur taka því brosandi að karlar líti á það sem sjálfsagðan rétt sinn að gramsa í þeim og kjamsa á þeim. Kannski hefur hlutfall þessarra lauslátu piparsveina hækkað, ég skal ekki um það segja. En ef svo er, er þá víst að einu skýringanna sé að leita í klámvæðingunni?

Áður fyrr tókust á tvær kvenímyndir, mellan og madonnan. Feministar steyptu madonnunni af stóli. Það þykir ekki lengur göfugt að vera litla, sæta ljúfan góða sem verður glöð og góð þegar hann Jón kemur loksins heim eftir að hafa heimsótt viðsjárverðar senjórítur suður á Spáni. Í dag fara almennilegar konur í háskólann, taka þátt í að móta samfélag sitt og framfleyta sér sjálfar, þær þurfa ekki á karlmanninum að halda nema að því marki sem hann er ánægjulegur félagsskapur. Madónnan dó.

Mellan lifir aftur á móti góðu lífi en ólíkt madonnunni gegnir hún hlutverki fyrir sjálfsmynd unga piparsveinsins, (sem er reyndar ekkert ungur lengur.) Hún er ennþá einnota, þessi nýja í næstu höfn en fórnarlambsvæðingin virðist samt ganga öllu verr í dræsuna en hin alræmda klámvæðing. Manni dettur jafnvel í hug að hún eigi ekkert sérstaklega bágt í allri þessari hlutgervingu.

Það er ekkert nýtt að karlar njóti virðingar fyrir fjölþreifni sína en áður fyrr þurftu ókvæntir karlmenn að hafa dálítið fyrir því koma sér upp orðspori kvennagulls. Ungi maðurinn þurfti að eltast við stúlkur, lofa þeim framtíðarsambandi eða allavega gefa sterklega til kynna að hann hefði áhuga á þvi. Skyndikynni komu til greina en þar sem stúlkunni var annt um mannorð sitt, þurfti pilturinn að gefa drengskaparloforð um að segja ekki frá og þar með var bara hálfur sigur unninn. Til hvers að koma sér upp afrekaskrá ef má ekki gera hana opinbera? Eina leiðin til að lifa reglulegu kynlífi án þess að fara í felur og/eða borga fyrir það, var sú að kvænast með allri þeirri ábyrgð sem því fylgdi.

Í dag getur karlmaður búið á hótel mömmu fram á fertugsaldur án þess að þurfa að taka neina ábyrgð gagnvart fjölskyldu og heimili. Jafnvel þótt hann eigi börn þarf hann ekki að búa með þeim eða sinna þeim frekar en honum sýnist. Ef fólk stofnar til sambúðar en verður óánægt, er auðvelt að slíta henni. Konan heldur íbúðinni og börnunum, karlinn fer heim til mömmu (ókei þetta er að breytast, en hjá minni kynslóð var þetta reglan.) Áður fyrr var tilgangur sambúðar að hluta til að tryggja karlinum reglulegt kynlíf og konunni veraldlegt öryggi og tækifæri til að stunda kynlíf án þess að verða að úrkasti fyrir vikið en í dag þurfa konur hvorki að óttast óumbeðna óléttu né hafa áhyggjur af því að mannorð þeirra verði dregið niður í svaðið þótt þær verði uppvísar að því að hafa kynhvöt. Í dag mega konur stunda kynlíf með hverjum sem þeim sýnist og karlar þurfa ekki að lofa þeim neinu í staðinn. Ég held satt að segja að það þurfi enga klámvæðingu til að menn túlki þetta á þann veg að úti um allar þorpagrundir séu ókeypis mellur og um að gera að hjakkast á þeim fyrst engir skilmálar fylgja.

Og stúlkurnar? Af hverju eru þær til í þetta? Riddaranum var steypt af stalli, Gilligillihlæhlæ og félagar eru ekki að fara að kvænast þeim, sjá fyrir þeim, annast þær í hjálparleysi sínu og segja þeim hvað þær eigi að kjósa. Enda hafa þær engan áhuga á svoleiðis sambandi. Og hvað vilja þær þá? Eru þær virkilega til í að vera mellur án þess að eiga von um hreppa fenginn? Finnst þeim bara allt í lagi að gauranir riðlist á þeim og segi svo „við elskum þessar mellur“? í fleirtölu? Enginn hringur? Ekkert framtíðarplan? Er það það sem þær vilja? Það lítur út fyrir það og að sjálfsögðu hlýtur það bæði að vera afar slæmt og klámvæðingunni að kenna.

Eða hvað?

Getur verið að þetta sé eitthvað flóknara? Að þær sem eltust við Einsa kalda úr Eyjunum hafi ekki allar dreymt um að giftast honum og eignast með honum börn? Getur verið að ungar konur í dag upplifi bara ekkert meiri hlutgervingu en kvennahjörðin í Búðardal sem ýlfraði á eftir Sigöldugaurnum? Eru þessar stúlkur sem sætta sig við að vera kallaðar skinkur, guggur og jafnvel mellur, sjálfsvirðingarlaus fórnarlömb klámvæðingarinnar? Eru þær kannski sjálfar að koma sér upp afrekaskrá? Eða finnst þeim bara gott að ríða?

Mér finnst undarlegt hvað umræðan um kynhegðun og kynhlutverk er oft gunnúðug. Klám er ekkert nýtt fyrirbæri og það er kvenfyrirlitning ekki heldur. Samskipti kynjanna eru miklu flóknari en svo að það sé hægt að taka þau úr félagslegu og sögulegu samhengi og skýra þau út frá illum hvötum graðra karlmanna og ég stórefast um að klámvæðingin sé aðalskýringin á öllu þessu hórutali. Best gæti ég trúað að hvað sem allri klámvæðingu líður njóti konur almennt meiri virðingar nú en á fyrri hluta síðustu aldar.

Það að menn séu ólíklegri en áður til að gæta prúðmennsku þegar þeir koma fram opinberlega, segir kannski meira um þróun tjáningarfrelsis en kvenfyrirlitningar. Okkur ofbýður hórutal fullorðinna poppara þótt það hafi bara þótt spaugilegt þegar sveitaballatöffarinn kjamsaði á kjömmunum í den. Svo hlutgerving hvað? Af hverju er klámvæðingin svona rosalega nærtæk skýring á öllu sem þykir óþægilegt í samskiptum kynjanna?

 

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Þegar Ómar kjamsaði á kjömmunum

 1. ———————————

  Skinkur eru madonnur frekar en mellur. Spurning hvort „almennilega“ konan er mella eða madonna.
  Af hverju þessa ofuráherslu á að skipa fólk í flokka eftir tísku og menntun, eða bara yfirhöfuð?

  Ég held að fréttir af andláti madonnunar séu stórlega ýktar.

  Posted by: Steina | 11.07.2011 | 13:24:47

  ———————————

  Nú? Æ, ég hélt að skinka væri það sama og hnakkamella. Ég er ekki vel inni í þessum menningarkima og hef líklega skrifað án þess að kynna mér þetta nógu vel. Hver er annars munurinn á skinku og hnakkamellu?

  Posted by: Eva | 11.07.2011 | 13:32:34

  ———————————

  Er það klámvæðing að kjammsa á kjömmum, eða bara ef saminn er um það dægurlagatexti?

  Posted by: Brjánn Guðjónsson | 11.07.2011 | 19:47:58

  ———————————

  Ef ég skil klámvæðingarhugmyndina rétt, þá er átt við að klám sé orðið svo aðgengilegt og samofið allri menningu að það er nánast ógerningur að sneiða hjá því ef maður á annað borð lifir í vestrænu nútímasamfélagi.

  Það er klárlega meira og fjölbreyttara framboð á klámi nú en fyrir 50 árum og sumir telja að það ýti undir kynferðisofbeldi og kvenfyrirlitningu. Ég skil þessar áhyggjur en hef ekki trú á því að það stafi nein sérstök hætta af klámi og þótt til sé fullt af verulega ósmekklegu klámi er ég mjög mótfallin þeirri hugmynd að banna það. En ég vil náttúrulega helst hafa eins fá bönn og mögulegt er.

  Posted by: Eva | 11.07.2011 | 20:37:17

  ———————————

  Mér finnst þetta áhugaverðar hugleiðingar og get ekki annað en velt því fyrir mér hvort illt/klámfengið/niðurlægjandi umtal margra um konur hafi eitthvað með það að gera að þær eru sjálfstæðari og meira áberandi en áður … Að einmitt það að konur leyfi sér að sofa hjá þeim sem þeim sýnist og vinna við það sem þær vilja hafi ýtt undir þá tilhneigingu að reyna að gera lítið úr þeim. Ef það dugar ekki að ávarpa þær „væna mín“ gæti kannski dugað að ávarpa þær „hóra“ til að lækka í þeim rostann. Þeir sem hafa haft völdin vilja gjarnan halda þeim og allar leiðir eru notaðar í baráttunni.

  Ég vil taka það fram að ekki allir karlar tala niður til kvenna og jafnframt að það er fullt af konum sem gera það. Ef fólki er ekki skítsama ætti það að líta í eigin barm og hugsa sinn gang.

  Posted by: Sliban | 12.07.2011 | 9:39:19

  ———————————

  En hefur þetta illa og niðurlægjandi umtal eitthvað aukist eftir að konur urðu sjálfstæðari?

  Posted by: Eva | 12.07.2011 | 16:49:39

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *