Hvar eru femínistarnir núna?

kortNöldurskjóða dagsins er smátittlingur AMX „fréttastofunnar“. Í dag tuðar smátittlingurinn yfir því að fólk sem hefur sætt óréttlæti skuli kvarta yfir því að eiga ekki bótarétt. Hann gerir svo verulega auma tilraun til að vera sniðugur með því að benda á að lífslíkur karla séu minni en kvenna og ekki séu feministar að gera allt brjálað þessvegna.

Hugsjónafólk er alltaf gagnrýnt fyrir áherslur sínar og aðallega af þeim sem ekkert leggja til baráttunnar sjálfir. Saving Iceland hreyfingin var á sínum tíma rökkuð niður fyrir að berjast ekki gegn botnvörpuveiðum. Ég þekki engan SI liða sem er fylgjandi botnvörpuveiðum og hefði einhver annar tekið að sér að skipuleggja mótmæli gegn þeim, hefðu mörg okkar mætt. En það var bara enginn sem sá um það og ég gæti best trúað að nöldurseggirnir sem sátu heima og tuðuðu yfir því að við værum með rangar áherslur hefðu áfram setið sem fastast, hefði einhver annar staðið í baráttu gegn botnvörpuveiðum. Ég gef ekki mikið fyrir gagnrýni þeirra sem láta sér ekki nægja að biðja um aðstoð, heldur krefjast þess að einhver annar beri hitann og þungann af vinnunni.

Ég hef gagnrýnt feminsta fyrir ýmislegt. Fyrir fullyrðingar sem engin gögn staðfesta, fyrir paranoju, forræðishyggju og fórnarlambshugarfar. Mér finnst allt í lagi að gagnrýna feminista eins og aðra en voðalega finnst mér það samt leiðinlegur smátittlingsháttur að skjóta athugasemdum um að feministar hafi ekki áhyggjur af því hvað karlar eigi bágt inn í alla umræðu um jafnréttismál en gera svo ekkert í málunum sjálfur.

Það er alveg rétt að summstaðar hallar á karla. Karlar eru mun frekar skyldaðir til að gegna herþjónustu en konur og eru sendir á hættulegri svæði. Karlar vinna meirihluta hættulegra starfa, eru almennt í meiri slysahættu en konur, líklegri til að fá alvarlegra geðsjúkdóma og réttarkerfið tekur harðar á körlum en konum. Lengi mætti telja. Blessunarlega þurfa Íslendingar ekki að hafa áhyggjur af herþjónustu (ekki ennþá en á meðan ýmist hægri menn eða hægri sinnaðir vinstri menn eru við stjórn, getur allt gerst.)  Þó er ástæða til að huga að ýmsum sviðum þar sem hallar á karla á Íslandi, ungir karlmenn eru t.d. mun líklegri en ungar konur til að hætta námi og það mun með tímanum leiða til þess að karlar lenda í veikari stöðu en konur.

Ennþá hljóðar lagabókstafurinn upp á kynbundið misrétti í barnsfaðernismálum. Barnalögin kveða á um hverjir geti höfðað barnsfaðernismál og samkvæmt þeim er ekki reiknað með að maður sem telur sig föður barns, sem hefur verið kennt öðrum manni, geti gert tilkall til þess. Sjálfsagt er það hægt eftir krókaleiðum því barn á heimtingu á því að vera rétt feðrað. Réttar föður til barns er þó hvergi getið og það segir dálítið óþægilegan sannleika um viðhorf samfélagsins. Það full ástæða til að vekja athygli á svona málum og krefjast leiðréttingar.

Í þessum eina málaflokki, rétti foreldra til barna sinna, hefur orðið vart við hagsmunabaráttu karla. Ekki hef ég séð hóp karla berjast fyrir sanngirni gagnvart körlum eða drengjum á neinu öðru sviði. Reyndar sé ég aðeins einn karlmann á Íslandi ræða hagsmunamál karla sérstaklega en umfjöllun hans lýsir í raun frekar andúð á málflutningi og baráttumálum feminista en áhyggjum af stöðu karla. Aðrir sem hafa lagt orð í belg varðandi jafnréttismál, hafa aðallega það markmið að benda á aðra hlið á málum og mótmæla oftúlkun eða mistúlkun. Gagnrýni Kristins Theódórssonar á feminisma (sem er öllu málefnilegri en hinar hefðbundnu tussu- og þurrkuntuupphrópanir) er þannig oftast ætlað að koma áleiðis því sjónarmiði að umræðan um óréttlæti gagnvart konum sé ýkt, fremur en að gagnrýnin bendi til þess að  honum finnist staða karla slæm miðað við stöðu kvenna.

Það er ástæða til að berjast gegn misrétti gagnvart körlum. Spurningin er hinsvegar hver eigi að standa í þeirri vinnu. Mér finnst krafan um að feministar taki frumkvæði í hagsmunabaráttu karla, svona álíka asnaleg og að væla yfir því að starfsfólk á veitingahúsum krefjist ekki launahækkunar fyrir leikskólakennara. Ástæðan fyrir því að svo fáir eru að berjast fyrir hagsmunum karla hlýtur annaðhvort að vera sú að fáir þeirra finni sárt fyrir óréttlæti eða þá að þeir eru of kúgaðir til að megna að koma af stað hagsmunabaráttu af eigin rammleik. Hvort ætli sé nú nær lagi?

Þegar ég spyr karla hversvegna enginn veki athygli á misrétti gegn körlum nema þá með því að skjóta á feminista, fæ ég þau svör að karlréttindabarátta sé óraunhæf, vegna þess að feministar séu svo yfirgangssamir. Mér finnst þetta alveg með ólíkindum léleg afsökun. Við hvað eru karlar eiginlega hræddir? Að Hildur Lilliendahl kalli þá hrútskýrendur eða að María Lilja segi að þeir hafi brenglað viðhorf til kvenna og kynlífs? Andskotinn hafi það, þessar konur hafa staðið af sér allt tussutalið og ég vorkenni ykkur nú ekki mikið að standa af ykkur smá skítkast ef ykkur finnst virkilega ástæða til að mótmæla misrétti gegn körlum (ekki svo að skilja að ég sé að mæla með skítkasti en það er nú bara lögmál í allri réttindabaráttu að hægðir henda.) Karlar hafa ekki verið í neinum vandræðum með að stofna hagsmunasamtök í gegnum tíðina. Það voru karlar sem stofnuðu verkalýðshreyfinguna, karlar héldu uppi baráttunni gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku, karlar stjórna stríðsrekstri og fjármálamörkuðum. Ef karlar líta raunverulega á barnalögin sem vandamál (að mínu viti eru þau meingölluð) þá hljóta þeir að gera eitthvað í því. Það sama gildir um önnur svið þar sem hallar á karla, hvort sem það er réttarkerfið eða lífslíkurnar. Af hverju eru karlar ekki að berjast fyrir jafnrétti?

Konur hafa minni völd en karlar. Karlar njóta síður verndar en konur. Ég tel að skýringin á valdaójafnvægi kynjanna liggi að verulegu leyti hjá konunum sjálfum og hef gagnrýnt það sjónarmið feminista að vogaraflið eigi að leiðrétta með valdboði að ofan eða utan. Vitanlega á jafnrétti að vera bundið í lög en ég tel að rétta leiðin til að leiðrétta kynjaójafnvægi í fréttaflutningi sé ekki sú að fjölmiðlar taki upp kynjakvóta, heldur sú að konur láti meira að sér kveða. Á sama hátt tel ég að nauðsynlegt sé að breyta lögum þannig að feður njóti sama réttar til barna sinna og konur en það er ekki nóg, ef feður ætla að ná raunverulegu jafnrétti þurfa þeir að gera sig gildandi í lífi barnanna. Ef karlar ætla að standa jafnfætis konum í atvinnulífinu eftir 20 ár, verða þeir að finna leið til að efla áhuga drengja og ungra pilta á námi. Ef þeir vilja að karlar njóti betri verndar heilbrigðis- og réttarkerfanna, þurfa þeir að velta fyrir sér hvers vegna karlar fari frekar út í afbrot en konur og hversvegna þeir leiti sér síður hjálpar í veikindum.

Ég skal verða manna fyrst til að taka undir það sjónarmið að ákveðin fórnarlambshugsun einkenni feminíska umræðu. Nei, ég skal ekkert „taka undir“ það, sennilega hef ég verið helsti talsmaður þeirrar skoðunar á íslensku, það er því réttara að segja að aðrir taki undir með mér. Ég stend við þá skoðun að valdefling kvenna verði að koma innan frá og að fátt sé jafn vel til þess fallið að halda konum niðri og það að firra okkur ábyrgð. Ég hafna kynjakvótum, ég hafna forsjárhyggju gagnvart konum, ég hafna þeirri hugmynd að eina leiðin til að komast hjá því að kynferðið takmarki möguleika okkar, sé sú að svipta kynin sérkennum sínum. Ég hafna þeirri hugmynd að bleikir legókubbar hindri stelpur í því að rífa kjaft og ég sé ekkert sem bendir til þess að aukið aðgengi að klámi dragi úr tækifærum kvenna til að lifa því lífi sem þeim bara sýnist. Ég hafna fullyrðingum um bakslag í kvenréttindabaráttunni og sé ekki betur en að við konur njótum meiri réttinda og frelsis en nokkur kynslóð kvenna hefur áður upplifað. Ég hafna því m.a.s. að það halli nokkuð meira á konur en karla, ójafnvægið liggur bara á öðrum sviðum. Ég hvet kynsystur mínar til að hætta að væla yfir því að karlar fái fleiri bókmenntaverðlaun en konur og reyna frekar að laga það með því að skrifa fleiri bækur.

En kæru kynbræður (því varla eru ókunnugar konur mér skyldari en karlar), þið sem lítið þetta sömu augum og ég. Þið sem kvartið um að konur væli of mikið og sjái ekki hvað þið hafið það skítt, hvernig ætlið þið eiginlega að taka á málunum? Eruð þið að hugsa um að gera eitthvað til að þess að laga kynjahallann á geðdeildunum, í fangelsunum og í háskólunum? Ætlið þið að krefjast þess að löngu úreltum ákvæðum barnalaga verði breytt til hagsbóta fyrir börn, feður og á endanum fyrir mæður líka?

Eða ætlið þið bara að bíða eftir því að konur taki þessa baráttu að sér og halda áfram að væla um hvað feministar séu vondir við ykkur? Það fer þessum leiðinlega AMX penna reyndar ágætlega en elsku bræður, finnst ykkur virkilega innlegg þessa smátittlings í jafnréttisumræðuna áhugavert?

 

Deildu færslunni

Share to Facebook