Hvað höfðingjarnir hafast að

images (1)Og svona fyrst ég er farin að tala um Megas – sem án efa er mestur núlifandi ljóðsnillinga Íslands og hugsanlega allra tíma; ætli þeir sem hvað mest hafa hamast á Gillz vegna kvenfyrirlitningar hafi kynnt sér höfundarverk Megasar? Einhverjum ofbauð jú þegar hann orti um að telpur væru töfrandi frá tólf og niður í átta en ekki einu sinni það olli öðru eins fjaðrafoki og margra ára gömul bloggfærsla markaðsvæðingargaursins.

Lítum á nokkur eldri dæmi skáldsins:

„en seg mér: hvað líður hringvöðvabólgunni
í leghálsopinu á langömmu þinni“

„Ég er að glata henni
– hvað? hverri? -glórunni
það er heljarstór bóla á hórunni“

„Eva mín þín ævintýrasaga
yljar mér um hjartað kalda daga
þú ert eitthvað ógeðslegt með gati
og ekkert meir“

„Mælti þá Eva
og mundaði júgrin:
þú veist hér er enginn
nema ormurinn og drottinn
og þú“

„Því þú ert plastkona plastlíf þitt rís og það hnígur
og plastlíkami þinn til reiðu er plastmönnum búinn“

„Þú lagðist fyrrum gleið á grund
undir gíruga mangara feita og danska
og mök við tyrkja heiðinn hund
hafðirðu og sjómenn enska og franska“

„og ég var á bænum
og bærinn á mér“

„Ragnheiður biskupsdóttir brókar var með sótt
og beiddi þegar Davíð mælti á latínu“

Og samt varð hann virtasti textahöfundur sinnar samtíðar og átti þó langt í land með að ná hæstu hæðum sínum í kvenhatri. Það er ekki hátt hlutfall hans af textum þar sem konur eru ekki ýmist ríðandi eða beiðandi og vart hægt að sjá að hann telji okkur hafa fleiri hlutverkum að gegna.

En orðsnillin verður ekki af meistaranum tekin og elítan samþykkti hann út á það. Þar með er ekki alveg eins seif að pönkast á honum og skoffíninu á símaskránni, þessum sem hélt að hann væri eitthvað en reyndist ekki hafa skáldgáfu til að bæta upp fyrir smekkleysuna. Litlir kallar og litlar kellingar velja sér nefnilega skotmörk sem enginn fínn pappír hefur álit á. Annars gæti orðið til alvöru debat.

[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“date“ order=“ASC“ none_text=“None found“]

Deildu færslunni

Share to Facebook