Er Eva fórnarlamb feðraveldisins?

images

Þetta er hann Dr. Gunni. Honum finnst gaman að pæla í tónlist og flytja tónlist. Dr. Gunni hefur svo brjálæðislega gaman af tónlist að hann kýs að vinna við að stjórna spurningaþætti um popptónlist.Hugsanlega finnst Dr. Gunna líka gaman að prjóna og spila scrabble en  hann hefur allavega haldið tónlistaráhuga sínum meira á lofti.

 

598433_10150901204267963_77316994_n

Þetta er hún Eva. Evu finnst gaman að lesa greinar og skoða heimildamyndir sem varpa ljósi á valdatengsl af ýmsu tagi. Evu finnst líka gaman að skrifa, taka þátt í mannréttindabaráttu, fremja galdraathafnir, elda mat, prjóna, skoða söfn og spila scrabble.

Evu finnst ekki gaman að pæla í tónlist. Eva hlustar stundum á tónlist en hún þekkir ekki óbó frá kontrabassa og er alveg sama hvað flytjandinn heitir og hvaða lög eru í efstu sætum vinsældalista. Eva hefur aldrei tekið þátt í spurningakeppni enda sér hún engan tilgang í að leggja á minnið alls kyns smáatriði sem hún getur flett upp á netinu hvenær sem er. Ef einhver spyrði Evu hvort hún vildi taka þátt í Popppunkti þá myndi Eva segja nei.

Fyrir þá sem hafa gaman af spurningakeppni:

1      Af hverju hefur Eva ekki áhuga á tónlist?
a)  Af því að feðraveldið innrætir henni að að konur eigi bara að hafa áhuga á    naglalakki.
b) Af því að feðraveldið hefur takmarkað aðgengi hennar að tónlist.
c) Það er engin sérstök skýring á því, fólk er misjafnt og hún hefur önnur áhugamál.

2    Af hverju er Eva ólíkleg til að taka þátt í spurningakeppni?
a) Af því að feðraveldið hefur talið henni trú um að konur séu heimskar.
b) Af því að hún er óframfærin og skortir sjálfstraust eftir illa meðferð feðraveldisins.
c) Af því að konur hafa að jafnaði minna keppnisskap en karlar frá náttúrunnar hendi,

3     Hverjum er það að kenna að Eva skuli ekki vilja taka þátt í Popppunkti?
a) Dr. Gunna af því að hann hefur ekki dekstrað hana til þess.
b) Feðraveldinu.
c) Það er engum að kenna enda er það ekkert vandamál.