Hvað er kennivald?

kennivald

Ég hef orðið þess vör að margir tengja hugtakið kennivald eingöngu við Kaþólsku kirkjuna á miðöldum og hafa fremur óljósa hugmynd um merkingu þess. Það er kannski ekki undarlegt, því gúggull vinur minn er ekki meðvitaðri um merkingu orðsins kennivald en svo að ég hef ekki fundið neina góða skilgreiningu á netinu. Orðabókarskýringin er einfaldlega „vald klerka“ svo það er kannski ekki við öðru að búast en að menn biðji um skýringar þegar ég tala um femíníska lífssýn sem nýtt kennivald. En kennivald er miklu víðtækara hugtak en svo að það eigi eingöngu við um kirkjuna á miðöldum. Kennivald þrífst einnig í nútímasamfélagi. Það þrífst alls ekki allsstaðar en getur þrifist m.a. í trúflokkum, pólitískum hreyfingum, menningu og listum og jafnvel innan vísindanna.

 

Hvað er kennivald?

Kennivald byggir alltaf á almennri sátt um tiltekin grundvallaratriði. Miðaldakirkjan byggði þannig kennivald sitt á þeirri almennu hugmynd að til væri almáttugur Gvuð með ákveðnar skoðanir á því hvernig fólk ætti hugsa og hegða sér og vald til að úthluta umbun eða refsingu að eigin geðþótta. Sá sem efaðist um þessa hugmynd var ekki marktækur. Á sama hátt ríkti sátt um þekkingu og listir. Kirkjan tók svo að sér að útfæra þetta allt saman nánar og almenn sannindi og sannleikstúlkun kirkjunnar runnu saman.

Kennivald er í hnotskurn bæði formlegt og óformlegt vald til að leggja út af grundvallarkenningum sem almenn sátt ríkir um innan hvers samfélags. Því sem við teljum hafið yfir vafa. Þar sem kennivald þrífst innan vísinda byggist það á almennri sátt um það hvað teljist grundvallarsannleikur, en kennivaldið skilgreinir sjálft hvernig lagt skuli út af honum og hvaða þekking teljist mikilvæg. Kennivald í menningu og listum snýr t.d. að skilgreiningu á hámenningu og lágmenningu og viðleitni til að stjórna framboði og aðgengi að listum. Kennivald í siðferðilegum efnum varðar bæði hegðun einstaklinga, t.d. hverskonar kynhegðun sé ástættanleg og einnig ýmis félagsleg gildi svosem samhjálp og réttarfar. Stundum nær kennivald yfir öll þessi svið, t.d. átti það við um Kaþólsku kirkjuna á miðöldum.

 

Dæmi um algildan sannleika

Í dag ríkja einnig ákveðnar hugmyndir um sannleikann. Innan nútíma náttúruvísinda ríkir t.d. almenn sátt um þá hugmynd að lífverur hafi þróast samkvæmt náttúruvali. Þróunarsinnar þurftu þó á sínum tíma að þreyta erfiða baráttu gegn kennivaldi kirkjunnar sem stóð í vegi fyrir nýrri sýn á heiminn. Í dag er hugmyndin um þróun lífsins svo almenn að vísindamaður sem hafnar henni yrði að byrja á því að sannfæra stóran hluta vísindasamfélagsins um að þróunarhugmyndin sé í meira lagi vafasöm, áður en nokkur tæki mark á túlkunum sem gengju út frá þeirri hugmynd að engin þróun hefði átt sér stað. Einnig ríkir í grundvallaratriðum sátt um áherslur, t.d. það að allir þurfi að læra að lesa.

Þrátt fyrir stöðug átök um listina, ríkir þar einnig grundvallarsátt um hvað þurfi til þess að listamaður fái opinbera fyrirgreiðslu. (Þeir sem sjálfir eru ósáttir við það hvernig styrkjum er úthlutað myndu þó eflaust fallast á þá hugmynd að þar beri á ákveðnu kennivaldi.)

Á sama hátt ríkir almenn sátt um ýmis siðferðisleg atriði. Sá sem talar opinskátt gegn mannréttindum og lýðræði telst andfélagslegur og ómarktækur og réttarkerfið okkar er byggt á almennri sátt um það hverskonar hegðun skuli ekki umborin.

 

Hvernig verður kennivald til?

Kennivald verður til þegar hópur fólks með sameiginleg markmið og skoðanir, tekur að sér að skýra veruleikann út frá grundvallarhugmyndum á borð við ofangreindar, leggja út af þeim og bæta við þær. Með tímanum verða þær kenningar svo að viðteknum sannindum. Einhverskonar stofnun verður til og hún öðlast með tímanum formlegt vald til viðbótar við áhrif sín á almenna túlkun. Kannski eru mannréttindastofnanir á vegum Sameinuðu þjóðanna besta dæmið um slíkar stofnanir í nútímanum, því þeirra vald er bæði formlegt og óformlegt. Vald kirkjunnar var þó miklu víðtækara.

Kennivald  miðaldakirkjunnar teygði sig inn í alla stjórnsýslu. Kirkjan ákvað hvaða þekkingu lýðnum bæri að tileinka sér og hverju skyldi haldið frá honum, hverskonar hegðun bryti í bága við vilja Gvuðs og hvaða refsingum skyldi beitt. Fáir komust upp með að draga mat kirkjunnar í efa.  Aðrar stofnanir, trúarlegar og veraldlegar, tóku svo við þessu valdi hver innan síns samfélags.

Í dag hefur íslenska þjóðkirkjan ekki sterkt kennivald nema kannski innan safnaðarins. Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju verður æ sterkari og það þykir ekki tiltökumál þótt fulltrúar hinna ólíkustu hópa gagnrýni kirkjuna. Orð biskups þykja ekkert marktækari en orð hvers annars, nema innan þröngs hóps. En á sama tíma og kirkjan er að tapa völdum er annað kennivald að rísa. Kennivald femínismans.

 

Kennivald kvenhyggjunnar

Femínismi (eða í beinni þýðingu kvenhyggja) er að hasla sér völl innan vísindanna. Kynjafræði (feminist theory) er þannig kennd við marga háskóla þrátt fyrir að vera afar vafasöm fræðigrein sem gengur út frá vægast sagt umdeilanlegri pólitískri kenningu um að samfélag okkar sé afsprengi feðraveldis og miði leynt og ljóst að því að halda konum niðri. Kynjafræðingar sniðganga iðulega vísindalegar aðferðir en sæta þó undarlega lítilli gagnrýni. Að einhverju leyti helgast það af því að flestir vísindamenn gagnrýna fyrst og fremst það sem er að gerast á þeirra eigin sviði og fólk getur ekki starfað innan kynjafræðinnar nema gangast inn á þessa grundvallarkenningu, ekki frekar en trúlaus maður getur notið sín sem prestur. Þannig byggir kynjafræðin meira og minna á kennivaldi fremur en hlutlægum rannsóknum en þetta tvennt fer ákaflega illa saman. Næsta skref er svo að troða kenningunni um undirskipun konunnar ofan í grunnskólabörn, undir yfirskini svokallaðrar jafnréttisfræðslu. Kennivaldið snýr þannig í senn að því hver sannleikurinn sé, hvernig lagt skuli út af honum og hvað skuli kenna.

Femínisminn hefur einnig öðlast ákveðið kennivald yfir menningu og listum þótt á takmörkuðu sviði sé. Kennivald femínismans birtist fyrst og fremst í flokkun listar og annarra menningarfyrirbæra út frá hugmyndum femínista um klám og útlitsdýrkun. Fullyrðingar um skaðsemi kláms, kynjaímynda og neðanbeltishúmors, eru smámsaman að verða að viðteknum sannindum.

Femínískt kennivald er einnig farið að hafa veruleg áhrif á siðferðishugmyndir og þeirra gætir í æ ríkara mæli innan réttarkerfisins. Þetta kristallast sennilega gleggst í tilraunum til að endurskilgreina kynferðisofbeldi, og vilja til að slaka á sönnunarkröfum í kynferðisbrotamálum.

 

Kennivaldið yfirtekur orðræðuna

Eins og allt annað kennivald sækir femínsminn styrk sinn í grundvallarhugmyndir sem almenn sátt ríkir um. Hugmyndir sem tengjast mannréttindum og lýðræði. Meðal þeirra eru hugmyndir um að ekki megi mismuna fólki á grundvelli kynferðis, að allir séu jafnbornir til mannhelgi, frelsis og virðingar og að tjáningarfrelsið sé hornsteinn lýðræðisins.

Með því að spila stöðugt á misjafnlega vel rökstuddar hugmyndir um kúgun kvenna og þöggun kvenna, hafa femínistar náð því að yfirtaka orðræðuna um jafnréttismál, þannig að orðanotkun þeirra og endurskilgreiningar á ýmsum hugtökum eru orðin viðtekin í almennri umræðu. Þannig táknar orðið „feðraveldi“ ekki lengur samfélag þar sem karlar ríkja, þar sem flestar mikilvægar ákvarðarnir eru á forsendum karla og feður hafa ægivald yfir börnum sínum, einkum dætrum og kerfisbundin kúgun á konum er viðurkennd, heldur allt sem að mati femínista veldur konum einhverskonar óþægindum. „Feðraveldið“ hefur svo í rauninni öðlast svipaða stöðu og helvíti á miðöldum. Allt sem okkur geðjast ekki má rekja til hins illa feðraveldis. Klámvæðingin (annað uppáhaldsorð femínista) er nánast eins og djöfullinn sjálfur. Hinir sanntrúuðu sjá klám í hverju horni, rétt eins og ofsatrúarmenn 16. aldar fundu kennimark Kölska hvar sem þeir leituðu þess.

 

Kennivaldið verður að ómissandi stofnun

Samtímis hefur femínistahreyfingin svo haslað sér völl innan samfélagsþjónustu sem með réttu ætti að vera á höndum opinberra aðila (að því gefnu að ríki og sveitarfélögum beri að halda uppi heilbrigðis- og velferðarþjónustu.) Á sama hátt og trúarhreyfingar víða um heim sinna ýmsu líknarstarfi, t.d. þjónustu við útigangsfólk, sjúka og fatlaða,  hafa femínistar tekið að sér þjónustu við þolendur heimilsofbeldis og kynferðisofbeldis. Þetta er mikilvæg þjónusta og þegar hið opinbera vanrækir hana verða samtök sem byggja á hugmyndafræði fljótt ómissandi.

Ég tel ekkert vafamál að mikil þörf hafi verið á slíkri þjónustu þegar Kvennaathvarfið og Stígamót tóku til starfa. Hvort tveggja er lofsvert framtak hugsjónafólks sem á heiður skilinn fyrir sitt brautryðjendastarf. Hitt er aftur gagnrýnivert að í stað þess að taka starfi þessara hreyfinga sem áminningu um að þjónustu hins opinbera væri ábótavant, tóku yfirvöld framtakinu sem nokkurveginn sjálfsögðum hlut og hafa aldrei sett neitt spurningarmerki, hvorki við starfsaðferðir né kenningagrundvöll þessara samtaka. Það er þó ekkert launungarmál að bæði Kvennaathvarfið og Stígamót ganga út frá þeirri hugmynd kynjafræðinnar að skýringin á öllu ofbeldi sem karlar beita konur sé þrá þeirra eftir yfirráðum. Þessar vafasömu kenningar eru svo kynntar sem sannleikur, fjölmiðar básúna rakalausum staðhæfingum frá þessum hreyfingum, t.d. um tíðni og alvarleik ofbeldis, algerlega gagnrýnislaust. Aldrei nokkurntíma hef ég séð dæmi þess að blaðamaður spyrji talskonur þeirra á hvaða rannsóknum þær byggi kenningar sínar. Ég hef heldur ekki séð neinn fréttamann gera minnstu tilraun til að kanna sannleiksgildi fullyrðinga á borð við þá að ástæðan fyrir því að þolendur nauðgana kæri ekki sé sú að réttarkerfið sé svo óréttlátt. Enginn hefur heldur spurt hverskonar brot sé um að ræða þegar þær flokka börn undir 10 ára aldri sem kynferðisofbeldismenn. Ég hef heldur ekki séð opinbera og vel ígrundaða gagnrýni í veigamiklum fjölmiðlum á þá hugmynd að karlmenn séu í stöðugri baráttu við að halda konum niðri. Gagnrýnin fer aðallega fram í upphrópanastíl á umræðukerfum netmiðlanna og fb.

 

Af hverju eru yfirvöld og fjölmiðlar svona gagnrýnislaus?

Ástæðan fyrir því að spurningum um hugmyndafræði og aðferðir femínista er ekki velt upp; ástæðan fyrir því að opinberir sjóðir henda peningum í fullkomlega gagnslausar „rannsóknir“; og að fulltrúar þeirrar menningar og listar sem femínistar gagnrýna sem harðast (þ.e. þeir sem standa fyrir tískuheiminn, klám- og kynlífsþjónustu) segja varla orð sér til varnar á opinberum vettvangi, er ekki sú að femínistar hafi alltaf rétt fyrir sér. Hún er sú að femínistar hafa öðlast kennivald, kennivald sem styrkist óðum og er þegar töluvert meira áberandi í stjórnsýslunni, réttarkerfinu og almennri umræðu, en klámið á vinnustöðum Reykjavíkurborgar.