Glæpur gegn femínismanum

skopmynd

Álfheiður Ingadóttir vill láta birta nöfn vændiskúnna. Hún er svosem ekkert sú fyrsta sem viðrar þá skoðun og við fyrstu sýn er það undarleg ákvörðun að leyna nöfnum brotamanna í einum og mjög afmörkuðum málaflokki.

Nú hafa fáir dómar fallið í vændiskaupamálum á Íslandi og einu dómarnir sem ég hef fundið þar sem málið snýst aðeins um vændiskaup en ekki nauðgun eða misneytingu, eru í tengslum við mál Catalinu Ncogo. Það mál er um margt sérstakt, m.a. vegna þess að dómarnir bera vott um lítinn vilja dómara til að sakfella mennina en annars er sjaldgæft að sjá sýknuviljann drjúpa af kynferðisbrotadómum. Hinir ákærðu voru þannig sýknaðir ef engin kona fékkst til að vitna um að hafa þjónustað þá, þrátt fyrir að þeir hefðu pantað þjónustu á stað þar sem engin þjónusta var í boði nema vændi, farið inn í herbergi með konu, komið út og greitt fyrir vændi. Það þarf meira en varfærni til að telja  skynsamlegan vafa á því að mennirnir hafi keypt sér kynlífsþjónustu og sennilegasta skýringin á sýknudómunum er sú að dómarinn líti ekki á vændiskaup sem glæp og hafi því ekki viljað sakfella þessa menn. Vel get ég skilið þá afstöðu en sorrý Arngrímur, hlutverk dómara er að dæma eftir lögum, ekki að skera úr um hvort lögin eigi rétt á sér. Auðvitað átti að dæma þessa menn seka fyrst þessi fáránlegu lög gilda á annað borð.

A.m.k. tveir menn voru sakfelldir fyrir vændiskaup í tengslum við starfsemi Catalinu en nöfn þeirra voru einnig máð úr dómsskjölum.  Ástæðan fyrir því að nöfn voru ekki birt er væntanlega sú að þarna var um að ræða glæp gegn feminismanum en ekki gegn einstaklingum. Þetta voru glæpir án þolenda. Ekkert kemur fram í dómunum sem bendir til þess að konurnar telji sig hafa orðið fyrir nokkurskonar miska af hálfu þeirra sem sakfelldir voru. Það má auðvitað deila um hvort það skipti einhverju máli, lög eru bara lög, en rökin hljóta að vera þau að vændiskaup séu ekki ofbeldi og það yrði óþarflega íþyngjandi fyrir menn sem hafa ekki brotið neitt verra af sér en það að stunda kynlíf sem samræmist ekki smekk sjálfskipaða siðapostula að einkalíf þeirra yrði afhjúpað.

Hversvegna ætti að birta nöfn vændiskaupenda? Einu rökin sem mér sýnast augljós eru þau að sekur sé sekur, og þessvegna allt í lagi að gefa almenningi færi á að leggja líf hans í rúst, sama hversu ómerkilegt brotið er. Jú önnur rök eru auðvitað nefnd en halda þau vatni? Mér þætti t.d. áhugavert að vita hvað Álfheiður hefur fyrir sér í þeirri kenningu að nafnbirting auki fælingarmátt, það er allavega ekki að sjá að nafnbirting haldi aftur af þeim sem brjóta önnur lög. Bestu og kannski einu góðu rökin fyrir því að birta nöfn afbrotamanna eru þau að fólk geti þá frekar varast þá. Ef þú veist að dæmdur innbrotsþjófur býr í hverfinu, geturðu allavega fengið þér öryggisbúnað. Ef barnaníðingur býr í hverfinu geturðu varað barnið þitt við. En á þetta við í málum vændiskaupenda? Ætlar fólk að benda á manninn í næsta húsi og segja við dóttur sína „þessum manni skaltu passa þig á að sofa ekki hjá, hann borgar nefnilega fyrir dráttinn“? Einhvernveginn grunar mig að margir þeirra sem heimta nafnbirtingu séu ekki að hugsa um fælingarmáttinn eða rétt almennings til að varast hættulega menn, heldur að fiska eftir veiðileyfi.

Krafa Álfheiðar um nafnbirtingu er í sjálfu sér ekkert ósanngjörn. Það eru lögin sjálf sem eru vond og þjóna ekki öðrum tilgangi en þeim að festa í sessi nýtt kennivald. Kennivald hreyfingar sem barðist lengst af gegn valdi kirkjunnar yfir einkamálum fólks og berst nú gegn áróðri markaðsaflanna um það hvernig konur eigi að vera og hvernig samskiptum kynjanna skuli háttað, en er þó ekki meiri byltingarhreyfing en svo að hún einfaldlega yfirtók valdið til að skerða kynfrelsi kvenna.

Það er nefnilega það sem gerðist, feminisminn rændi kennivaldinu og berst nú fyrir því að feministahreyfingin fái það lagalega vald sem kirkjan hafði áður. Kirkjan bannaði fóstureyðingar, feministar banna staðgöngumæðrun. Kirkjan bannaði kynmök samkynhneigðra, feministar banna kynmök gegn gjaldi. „Feðraveldið“ (ef maður notar skilgreiningu kynjafræðinnar sem er vægast sagt umdeilanleg) er ekkert á undanhaldi, það lifir góðu lífi í feminismanum sem hefur síður en svo upprætt þá hugmynd að konur séu stór börn sem aðrir þurfi að hafa vit fyrir, heldur einmitt tekið hana upp á arma sína. En gott og vel, nú er búið að lögfesta þetta kennivald að hluta og krafa Álfheiðar á rétt á sér, enda þótt tilgangurinn kunni að vera andstyggilegur.

Eftir stendur spurningin, hvernig vill Álfheiður (og aðrir sem kvarta um að lögunum sé ekki framfylgt) að lögreglan beri sig að við að finna vændiskúnna?  Á löggan að elta druslulega klæddar konur og handtaka menn sem gefa sig á tal við þær? Eiga starfsmenn kynferðisbrotadeildar að hanga á einkamal.is og láta hlera síma þeirra sem virðast vera að  sækjast eftir vændi eða á að skipa sérstaka njósnadeild til þess? Á löggan þá líka að lesa póst þeirra kvenna sem þeir eiga í samskiptum við á einkamal.is og öðrum síðum þar sem grunur leikur á að samningar um kynlífsþjónustu fari fram? Á að yfirheyra stúlkurnar sem dilla sér á Goldfinger um það hvort þær hafi þegið peninga, gjafir eða greiða af viðskiptavinum? Á löggan að elta bíla með starfsstúlkum Goldfinger? Ef fréttist af því að lauslát kona í fjárhagsvandræðum hafi fengið karlmann í heimsókn, á löggan þá að ryðjast inn og reyna að standa þau að verki? Og ef kemur í ljós að maður hefur greitt gleðikonu fyrir þjónustu, á þá að þvinga hana til að skýra frá því fyrir rétti ef hún hefur engan áhuga á að kæra hann? Hversvegna ætti hún að vilja kæra viðskiptavin? Ef hann hefur nauðgað henni eða brotið gegn henni á annan hátt þá kærir hún væntanlega fyrir það. Það er jafn ólöglegt að nauðga dræsum og dándikonum.

Já hvernig á eiginlega að framfylgja þessum lögum? Mig langar að vita það, vegna þess að þær leiðir sem helst blasa við eru til þess fallnar að skerða persónufrelsi og friðhelgi vændiskvenna, strippara og kvenna sem eru grunaðar um að veita kynlífsþjónustu af einhverju tagi. En það myndi auðvitað þjóna tilgangnum.

Deildu færslunni

Share to Facebook