Feminasnar og kynjamismunun Siðmenntar

siðmennt

Þetta með kynjakvóta verðlaunahafa Siðmenntar er að verða undalegasta umræða sem ég hef lengi séð. Sem stofnfélagi Siðmenntar, stjórnarmaöur í sjö ár og eini núlifandi heiðursfélagi félagsins, er ég furðu lostinn. Félagið hefur veitt 16 viðurkenningar, þar af sex til félagasamtaka og konur hafa yfirleitt veitt þeim viðurkenningum viðtöku. Af rúmum 23 starfsárum félagisns hafa konur verið formenn í rúm 20 ár. Meirihluti ræðumanna við borgaralegar fermingar hafa verið konur og ég tel það vera meiri heiður en viðurkenningarnar. Ég tek fram að ég hef aldrei komið að vali við heiðursviðurkenningar en hitt veit ég að jafnrétti kynjanna er svo nátengt allri hugmyndafræði félagsins að kynjakvóti er félaginu mjög framandi.

Þessi orð lét Gísli Gunnarsson falla á facebook eftir miklar umræður um meinta kynjamismunun Siðmenntar. Í sama streng tekur Valgarður Guðjónsson í umræðum um þennan pistil. Kristinn Theodórsson, varamaður í stjórn Siðmenntar hefur bent á að ástæðan fyrir því að 9 karlar komu að vali verðlaunahafa en aðeins 3 konur sé einfaldlega sú að færri konur hafi gefið kost á sér til stjórnarsetu.

Gömul umræða um karlrembu Kiljunnar

Í mars 2011 loguðu netheimar af heilagri reiði feminista vegna kynjahalla Kiljunnar. Egill Helgason var ekki aðeins sakaður um karlrembu heldur einnig um brot gegn jafnréttislögum. Ég spurði ítrekað hvaða konur hefðu verið sniðgengnar. Spurði á mörgum þráðum á facebook og „taggaði“ marga sem höfðu lýst hneykslun sinni. Einu svörin sem ég fékk voru „barnabókahöfundar“ og „Guðrún frá Lundi“.

Ég skrifaði pistil og benti á að þessi svör bæru nú ekki beinlínis vott um að Egill væri blóðsekur. Í umræðum í kjölfarið nefndi einhver kvenrithöfund sem ætti erindi í þáttinn en sú kona hafði þá ekki gefið út bók í 5 ár. Annar taldi að Þórdís Gísladóttir, sem var reyndar boðin í þáttinn, hefði verðskuldað meiri athygli. Ingunn Snædal var eina konan sem ég sá nefnda í þessari umræðu sem með nokkurri sanngirni er hægt að segja að hafi verið sniðgengin. Sennilega mætti nefna einn karl eða tvo sem hefðu getað þegið meiri athygli fyrir ritverk sín.

Engar uppástungur frá femninistum

Nú er meint kynjamismunun Siðmenntar gagnrýnd. Ég get nefnt konur sem hafa unnið gott starf í þágu mannréttinda og mannúðar en man enga sem ég tel augljóslega verðugri en Jón Gnarr. Hún kann auðvitað að vera til þótt ég viti ekki af henni og í gær margspurði ég um það á facebook hvaða konur væru verðugri þessarar viðurkenningar en Jón Gnarr. Fátt varð um svör. Hildur Lilliendahl gat t.d. ekki nefnt eina einustu. Að lokum nefndi kona samtök kvenna af erlendum uppruna, sem samtök sem vert væri að skoða (ekki sem aðila sem greinilega bæri af Jóni Gnarr) og karlmaður benti á að Helga Sif Friðjónsdóttir (faglegur verkefnastjóri frúr Ragnheiðar, sem er skaðaminnkunarverkefni á vegum Rauða Krossins) ætti skilinn heiður fyrir störf sín í þágu útigangsfólks.

Ef fáar tillögur koma fram og jafnvel yfirlýstir feministar eiga í mestu vandræðum með að nefna eina einustu konu sem þeir telja verðuga húmanistaverðlauna, getur þá kannski verið að það sé eitthvað annað en þjónkun við feðraveldið sem skýrir kynjahallann í verðlaunaveitingum Siðmenntar? Getur t.d. verið að karlar séu almennt meira áberandi í mannréttindabaráttu eins og á svo mörgum öðrum sviðum og menn séu lítt meðvitaðir um afrek kvenna á þeim vettvangi?

Jón Gnarr og Birgitta Jónsdóttir

Mér finnst Siðmennt vel sæmd af því að hafa veitt Jóni Gnarr húmanistaverðlaun. Af öllum hans uppátækjum finnst mér vega þyngst sá gjörningur hans að mótmæla meðferðinni á Liu Xiaobo þegar sendinefnd á vegum kínverskra stjórnvalda kom til Íslands. Ég man ekki til þess að íslenskur stjórnmálamaður hafi áður tekið fulltrúa erlends ríkis til bæna augliti til auglitis og þótt ekki væri annað ætti hann skilið að fá viðurkenningu fyrir það. Það er erfitt að velja á milli tveggja hæfra en ólíkra og ég veit ekki um neina konu sem er augljóslega verðugri þessarar viðurkenningar en Jón Gnarr, en annar stjórnmálamaður sem á sannarlega skilið að fá húmanistaverðlaun er Birgitta Jónsdóttir.

Birgitta er að mínu mati áhugaverðasti stjórnmálamaður sinnar kynslóðar. Hún á það sameiginlegt með Jóni Gnarr að hafa nýtt pólitíska stöðu sína í þágu mannréttinda þótt hún hafi beitt öðrum aðferðum. Jón Gnarr er meira áberandi en nokkur annar mannréttindafrömuður og hann nýtur vinsælda meðal gífurlega stórra og ólíkra hópa. Kannski hafði það áhrif á val Siðmenntar. Ég er þó ekki viss um að langtímaáhrif Birgittu séu neitt minni en áhrif Jóns. Birgitta hóf auk þess sína mannréttindabaráttu löngu áður en hún komst til pólitískra áhrifa. Enginn getur sakað Birgittu um að nota mannréttindamál til þess að koma sjálfri sér á framfæri eða til þess að sýna af sér einhver sniðugheit (en Jón hefur oft orðið fyrir því og finnst mér það ómakleg umræða.) Hún hefur sýnt ótrúlega þrautseigju í sínum aktivisma, oft staðið ein og unnið heilmikið starf sem hvergi er sýnilegt á opinberum vettvangi.

Fleiri tillögur

Ef einhvern langar að verðlauna konur fyrir framlag til mannréttinda og mannúðarmála eru hér nokkrar tillögur til viðbótar:

Erla Bolladóttir fyrir starf sitt í þágu innflytjenda og flóttamanna.
Freyja Haraldsdóttir fyrir baráttu sína fyrir réttindum fatlaðra.
Helga Björk Magnúsar- og Grétudóttir fyrir aktivisma í þágu örykja og atvinnulausra.
Helga Sif Friðjónsdóttir fyrir mannúðarstörf í þágu fíkla og útigangsfólks.
Katrín Oddsdóttir fyrir að tala máli flóttamanna og aðstoða þá langt umfram það sem henni ber sem lögmanni.
Sigríður Víðis Jónsdóttir fyrir alþjóðleg mannúðarstörf og ekki síst fyrir bók sína „Ríkisfang ekkert“.

Ég er viss um að margar konur til viðbótar koma til greina þótt þær hafi ekki verið mikið í sviðsljósinu og eflaust gleymi ég einhverri. Gaman væri ef lesendur vildu bæta við listann.

Reyndar hafa mun fleiri konur en karlar fengið mannréttindaviðurkenningar …

Feministar gagnrýna val Siðmenntar á húmanista ársins. Auðvitað væri feministasamtökum í lófa lagið að bæta úr og veita konum viðurkenningar. En æjá, alveg rétt, það er einmitt það sem þau gera. Stígamót hafa t.d. veitt mörgum konum viðurkenningar.  Aðallega feministum og ekki veit ég til þess að feministasamtök hafi verðlaunað karla. Það kann þó að vera, ábendingar um það eru vel þegnar.

En það er ekki nóg að konur fái viðurkenningar frá einhverjum feministasamtökum, isspiss og abbababb. Þeir sem aðhyllast jafnrétti vita nefnilega vel að það er ekkert sérstaklega varið í verðlaun sem veitt eru á grundvelli kynferðis.  En það munu feminasnar aldrei viðurkenna.