Bókmenntafræði, rassvísindi og trompetrannsóknir

trompet

„Ég held að sum skáld og aðrir listamenn séu bara að djóka. Framleiða eitthvert bull sem lítur út fyrir að vera merkilegt, aðallega til að hafa fræðimenn að fíflum“ sagði ég. Kennarinn hafði enga trú á því að aðrir en augljósir asnar gætu sýnt listinni hvílíkt virðingarleysi.

 Mér fannst það ekkert ótrúlegt. Til er fólk sem ber ekki einu sinni virðingu fyrir mannslífum og hversvegna skyldi listin vera heilagri en hvað annað? En auk þess sá ég þessháttar gjörning ekki sem virðingarleysi gagnvart listinni heldur afhjúpun á froðusnakki eða uppreisn gegn tilraunum til að flokka listina og meta.

Hvar liggja mörk skáldskapar og fræða?

Ég naut hvers einasta dags í HÍ. Mér fannst námið áhugavert og flestir kennarar lögðu sig fram um að veita nemendum góða þjónustu. Voru líka sérlega opnir og víðsýnir. En satt að segja kom fyrir að mér fannst víðsýnin á mörkum þess að vera kjánaleg.

Kennari (sem ég hafði mikið álit á og hef enn) talaði um að engin skýr mörk lægju milli skáldskapar og fræða. Mér þótti þetta mjög áhugavert. List, listtúlkun, fræði. Kannski eru engin skörp skil. Ég efaðist og dauðlangaði í debat en hafði ekki þekkingu til þess að rökræða þetta. Ég ákvað að prófa hans eigin mörk og vann verkefni sem átti miklu meira skylt við smásögu en fræðilega ritgerð. Ég var ekki að gefa skít í kenninguna heldur að reyna að koma þessu heim og saman. Ég vandaði mig virkilega; lagði út af þeim bókmenntakenningum sem við vorum að vinna með og notaði neðanmálsgreinar til að skýra tengsl þeirra við skáldskapinn. Mér fannst líklegt að mér yrði sagt að þetta væri ekki ritgerð en ég komst ekki bara upp með að skila þessum undarlega sambræðingi af ritgerð og sögu, heldur fékk ég fína umsögn.

Ég prófaði það sama á öðrum kennara en þar gekk ég miklu lengra og skrifaði stutta sögu sem var svosem hægt að tengja við bókmenntakenningar en var augljóslega smásaga og laus við beinar vísanir í fræðin. Ég komst upp með það líka. Þetta hentaði mér vel enda lágu listræn skrif betur við mér en fræði. Ég var þó farin að efast um að háskólinn væri það gullvæga þekkingarsetur sem ég hafði talið.

Hvar liggja mörk kjaftæðis og fræða?

Ég sannfærðist um að bókmenntafræði væri skyldari listum en vísindum þegar ég fékk 9 fyrir ritgerð þar sem ég túlkaði söguna af Láka jarðálfi sem uppgjör módernismans við bókmenntahefðina.  Ef nemandi gat komist upp með að skrifa augljósan þvætting og kalla það bókmenntatúlkun, gátu þá virtir fræðimenn líka leyft sér að bulla?  Þurfti kannski enga skáld-trickstera? Voru fræðimenn bara einfærir um að gera sjálfa sig og kollega sína að fíflum? Þremur árum síðar svaraði vísindamaður að nafni Alan Sokal þeirri spurningu. Svarið var já; vísindamenn geta leyft sér að bulla.

Alan Sokal skrifaði grein með því markmiði að ljá fullkominni steypu fræðilegt yfirbragð. Hann sendi hroðann virtu tímariti á sviði póstmódernískra menningarfræða. Ritsmíðin var birt.

Á þessum tíma lét þetta tímarit ekki utanaðkomandi fræðimenn ritrýna greinar sem það birti. Hugmyndin var sú að með því að sleppa tökunum á hefðbundinni ritrýni og hafa víðsýni í fyrirrúmi, mætti að örva nýsköpun og frumleika á sviði fræðanna. Ritstjórn tímaritsins leit á afhjúpunina sem lúabragð af hálfu Sokals. Kannski þótti einhverjum ótrúlegt að nokkur gæti sýnt vísindunum aðra eins óvirðingu. En það var nú samt greinilega til í dæminu og eftir þetta tók tímaritið upp ritrýni.

Alan Sokal var að djóka. Hann afhjúpaði sig sjálfur til þess að afhjúpa andvaraleysi vísindasamfélagsins gagnvart gervivísindum. Við vitum hinsvegar ekkert hversu margir hafa framleitt tóma þvælu, í þeirri  einlægu trú að þeir væru að gera eitthvað af viti, og fengið þvæluna viðurkennda sem vísindi.

Rassvísindi og trompetrannsóknir

Síðustu tvo daga hafa nokkrir netverjar staðið á öndinni af hneykslun yfir því að ég skuli leyfa mér að ráðast á sjálf vísindin. Að halda því fram að ef eitthvað sem gert er í nafni fræða og vísinda líti út fyrir að vera þvæla þá sé ástæða til að tortryggja það er nógu slæmt en auk þess eiga efasemdir um rannsóknir ekkert upp á dekk, þegar efasemdamaðurinn hefur ekki einu sinni menntun á því sviði sem hann beinir spjótum sínum að.

Sama fólk sér þó reglulega fréttir af niðurstöðum vísindarannsókna sem það tekur ekkert mark á. Í dag fara t.d.  „fréttir“ af vísindalegum sönnunum fyrir tengslum rassstærðar við heilsu og gáfnafar kvenna sem eldur í sinu um fésbókina. Flestir sem ég hef séð deila þessu efast um tengsl milli gáfnafars og rassstærðar, því ef eitthvað lítur út eins og þvæla þá eru góðar líkur á að það sé þvæla. Ég hef ekki skoðað þessa rassarannsókn sjálf, aðeins séð fréttir af henni. Vera má að þetta sé vel unnin vísindarannsókn sem fjölmiðlar skrumskæla. Fjölmiðlar kynna oft bull undir merkjum vísinda, segja frá „niðurstöðum“ sem reynast svo alls ekki vera þær niðurstöður sem vísindamennirnir sjálfir kynna.

En stundum er ekki fjölmiðlum um að kenna. Nóg eru dæmin um rannsóknir sem eiga meira skylt við kjaftæði en vísindi. Hér er sagt frá rannsókn sem sænska vísindaráðið taldi tilvalið að styrkja. „Trompetinn sem tákn um kyn/kynferði.“  Ein af rannsóknarspurningunum er þessi:

Vilken klang i trumpetens breda klangspektrum blir till norm och vilken klang uppfattas som avvikande och kallas för kvinnlig respektive manlig? Vad händer med klangen, när trumpetaren spelar med en ’kvinnlig klang’?

Í lauslegri þýðingu (þetta er reyndar svo djúpt að ég efast um að í íslensku séu til orð sem koma þessari snilld til skila):

Hvaða hljómur í hinu breiða hljómrófi trompetsins verður að normi og hvaða hljómur upplifist sem frávik og kallast karllægur eða kvenlægur?  Hvað gerist varðandi hljóminn þegar trompetleikarinn spilar með „kvenlegum hljómi“?

Þetta flokkar vísindaráð Svíþjóðar sem áhugaverða rannsóknarspurningu. Fávís almúginn á auðvitað ekkert með að efast enda hefur hann hvorki vit á hinum kynjaða hljómi trompetsins, né skilning á hinni brýnu nauðsyn á að rannsaka hann.