Af karlrembu Egils Helgasonar

literatures_gender_gap

Fyrir rúmri viku sá ég því fleygt á spjallþræði á netinu að hlutföll kynjanna í sjónvarpsþáttum Egils Helgasonar, Kiljunni, væru 85 karlar á móti 15 konum. Þetta reyndust rangfærslur en með því að telja saman alla rithöfunda og þá sem fjallað er um í fræðiritum og ævisögum, hvort sem um er að ræða nýjar skáldsögur eða forn fræðirit (sem voru skrifuð af körlum um karla), fást hlutföllin 77 karlar á móti 23 konum. Þetta þykir hroðalegt, í ljósi þess að 40% meðlima rithöfundasambandsins eru konur.

Fjöldi kvenna í rithöfundasambandinu segir þó lítið um fjölda útgefinna verka. Árið 2010 komu út 72 skáldverk, 50 eftir karla 22 eftir konur. Sem merkir að 30% nýútkominna bóka voru eftir konur. Ég ætla ekki að fara út í djúpar pælingar um ástæður þess að konur gefa út færri bækur en karlar en bendi á að hlutfall blaðagreina eftir konur er svipað. Konur virðast ennþá skrifa minna en karlar.

þessu hefur verið svarað með því að raunveruleg kynjahlutföll rithöfunda í fortíð og nútíð skipti ekki öllu máli, það séu einfaldlega jafnréttislög í gildi í landinu. Ég finn enga grein í jafnréttislögum sem gerir ráð fyrir kynjakvótum í sjónvarpsþáttum og ef þetta er túlkun manna á 24. grein laganna þá hlýtur þetta að eiga við alla menningarstarfsemi og afþreyingu. Samkvæmt þessari túlkun væri vafasamt að halda torfærukeppni nema helmingur keppenda væru konur. Ríkisskólar gætu ekki boðið upp á saumanámskeið nema helmingur þátttakenda væri karlkyns. Og ef hluti vandans er sá að karlar séu of mikið til umfjöllunar í bókmenntum, ættum við þá að setja kynjakvóta á rithöfunda? Skikka Arnald til að láta Elínborgu í aðalhlutverk í annarri hverri bók? Banna útgáfu á ævisögu einhvers karls, þar til komin er út sambærileg saga konu?

Það er óþolandi ef kyn rithöfundar ræður því hvort bókin fær umfjöllun eður ei og ef sú er raunin væri rétt að bæta úr því. Þetta virðist samt ekki vera alveg svona einfalt. Ég hef spurt hvað eftir annað á umræðuþráðum á fb og blogginu, hvaða konur hafi verið sniðgengnar. Ég hef fengið 2 svör. Barnabókahöfundar og Guðrún frá Lundi.

Barnabækur eru ekki til umfjöllunar í Kiljunni. Konur skrifa barnabækur og barnabækur eru yfirleitt ekki hátt skrifaðar. Það eru ekki barnabækur sem fá íslensku bókmenntaverðlaunin eða Nóbelinn. Þær barnabækur sem eru verðlaunaðar fá annaðhvort sérstök barnabókaverðlaun eða verðlaun í flokki barnabóka. Þetta á reyndar við um alla barnamenningu.

Ég tek undir það sjónarmið að menningarvitar ættu að fjalla meira um barnamenningu og verk sem eru ætluð börnum. Ég virði Agli það þó til vorkunnar að það viðhorf að barnabækur séu ekki bókmenntir er ríkjandi og frekar ósanngjarnt að ásaka hann um kvenfyrirlitningu vegna þess. Kynjahlutföllin í Kiljunni endurspegla nefnilega það almenna viðhorf að barnamenning sé ekki ‘alvöru’. Þau segja hinsvegar ekki neitt um karlrembu Egils Helgasonar.

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Af karlrembu Egils Helgasonar

  1. —————————-

    Það sagði enginn að Egill væri karlremba. Það þarf að leggja sig fram vilji maður sjá sök í eigin máli; en það er fullkomlega áreynslulaust að sigla í gegnum lífið blindur á eigin gjörðir og hugurinn sér sjálfur um að sannfæra mann um að allt sem maður gerir og hugsar sé í fullkomnu samræmi við allar mögulegar heiðarleikakröfur.

    En hérna – með þýddum bókum fer hlutfallið upp í 40/60. Og það var enginn að meina að forlögin væru stikkfrí – það var enginn einu sinni að meina að konur væru stikkfrí. Heldur bara að Egill þyrfti að standa sig betur. Það er annars búið að drepa þessu máli svo á dreif að það er ekkert eftir af því – gagnrýni á Íslandi vill þvælast svona út um víðan völl þar til það sem um var rætt hverfur í þokuna. En svona fyrst það er enginn búinn að nefna það, þá finnst mér líka ekki nógu margar konur keyra strætó. Gera eitthvað í því, takk, áður en þið kvartið yfir öðru.

    Posted by: Eiríkur Örn Norðdahl | 23.03.2011 | 11:13:33

    Jújú, það sögðu margir að Egill væri karlremba. Sú skoðun kom fram á mörgum umræðuþráðum, m.a. á hans eigin færslu um þetta mál á Eyjunni. Það getur líka vel verið að hann sé karlremba en hlutur kvenna í Kiljunni sannar það ekki neitt.

    Posted by: Eva | 23.03.2011 | 11:54:52

    Hef enga s´serstaka mynd af því hvort Egill Helgason er karlremba eða ekki. Ef nokkuð er hallasat ég fremur frá því en að. Hins vegar er þessi kynjakvóti sem alls staðar skýtur upp kollinum að verða þreytandi. Gott er dæmið um að þá ætti ekki að vera hægt að halda saumanámskeið nema 50% þátttakenda væru karlar. – Neita ekki tilvist téðrar rembu EN öllu má nú ofgera, líka kynjakvótaumræðu þar sem “paranoian” er allt að drepa.

    Posted by: Helga Ágústsdóttir | 23.03.2011 | 14:46:36

    og alltaf kemur kona og tekur upp hanskann.

    Þarf að greina þetta í tætlur? Staðreyndin er að öll umfjöllun hvort sem er um bókmenntir eða pólitík, já hvað sem er hallar á konur.

    Kjaramál eru enn önnur saga.

    Áts, hvað þetta er leim.

    Posted by: Jenný Anna | 23.03.2011 | 15:07:04

    Já, Jenný Anna, ef hallar á annað kynið þá þarf að finna ástæðurnar fyrir því og ef ástæðan er fordómar eða hrein og klár kvenfyrirlitning þá þarf að uppræta þær ástæður.

    Að hluta skýrist þetta háa hlutfalli karla í Kiljunni af því að þar er einnig fjallað um bókmenntir frá þeim tíma sem þótti fara konum illa að vera læsar, hvað þá skrifandi. Ef hallar virkilega á þá rithöfunda sem eru virkir í dag, þá hef ég allavega ekki ennþá, fengið eitt einasta nafn.

    Á meðan konur skrifa minna en karlar mun halla á þær í bókmenntaumfjöllun. Á meðan konur hafa minni afskipti af pólitík en karlar, mun halla á þær í pólitík. Það er frekar leim að ætla að breyta því með því að falsa samtímasöguna.

    Posted by: Eva | 23.03.2011 | 15:43:16

    Það þótti ekki alltaf fara konum illa að skrifa, hvað þá að yrkja, það þótti bara ómerkilegt sem þær skrifuðu. Og fékk ekki athygli lærðra karla – var ekki fest á bókfell eða nöfn þeirra einu sinni fest á minnið. Mér finnst ekki skrítið að konur nenni lítið að fást við bókmenntir eða pólitík, ef þær eru iðulega hunsaðar í pólitík og bókmenntum – það er tilgangslaust að tala ef enginn nennir að hlusta á mann.

    Posted by: Eiríkur Örn Norðdahl | 23.03.2011 | 16:13:19

    Rétt Eiríkur en hvaða kvenrithöfundar eru það sem fá ekki umfjöllun í dag? Ég hef enn ekki heyrt eitt nafn fyrir utan barnabókahöfunda á starfandi kvenrithöfunum sem Kiljan hefur sniðgegnið og barnabækur eftir karla hafa heldur ekkert verið til umfjöllunar í Kiljunni.

    Kvartað er um að konur eigi ekki greiðan aðgang að fjölmiðlum og ljótt er ef satt er. Það er þó alveg á hreinu að kynin hafa jafnan aðgang að netinu en ég rekst allavega mun oftar á pólitískar greinar eftir karla en konur.

    Posted by: Eva | 23.03.2011 | 16:54:58

    Já og takk fyrir að leiðrétta mig. Það hefur ekki verið talið konum til vansa að skrifa eitthvað um sólina og blómin. Það þótti í sjálfu sér ekki ókvenlegt að skrifa, það þótt bara ókvenlegt að hafa skoðanir, ögra viðteknum hugmyndum og kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Sú skoðun er reyndar langt frá því að vera dauð.

    Posted by: Eva | 23.03.2011 | 16:58:42

    Þórdís Gísladóttir fékk stærstu ljóðaverðlaun á Íslandi í fyrra – Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar – án þess að fjallað væri sérstaklega um bókina eða henni boðið í þáttinn. Það var að vísu nefnt að hún hefði fengið verðlaunin, en eiginlega ekkert meira. Guðrúnu Evu og Auði Jóns var einu sinni boðið saman í viðtal, eins og pari – ég á erfitt að sjá fyrir mér Egil gera það við Hallgrím og Sjón. Barnabókahöfundar eru náttúrulega dæmdir út af sakramentinu fyrirfram – einsog þú nefnir – þótt sama gildi ekki sveppabókahöfunda eða alls kyns bókafólk. Þá mætti þátturinn líka endurspegla að stærstur hluti lesenda eru konur – 80/20 á bókasöfnum, laug einhver í mig.

    Posted by: Eiríkur Örn Norðdahl | 23.03.2011 | 17:31:21

    Jæja. Loksins einhver rök.

    Posted by: Eva | 23.03.2011 | 17:40:30

    Þessi kynjahlutföll sem voru nefnd í þessari könnun eru fengin með mjög sérkennilegri talningaraðferð.

    Hvað varðar það að Guðrúnu Evu og Auði hafi verið boðið saman í þátt, þá var það bara til að nýta dýrmætan tíma rétt fyrir jól.

    Hið sama var gert með Sölva Björn og Guðmund Óskars í fyrra.

    Það er líka fjallað um barnabækur í þættinum, það hefur til dæmis verið fjallað um Þórarin Leifsson, Kristínu Helgu, Sigrúnu og Þórarin Eldjárn, Gerði Kristnýju, semsagt það besta sem hefur verið gert á þessu sviði hér.

    En eins og ég segi, þessi tölfræði er mjög sérkennileg.

    Og svo er eins og nefnt er ekki hægt að benda á neina kvenkynshöfunda sem hafa verið sniðgengnir í þættinum.

    Posted by: Egill Helgason | 23.03.2011 | 18:11:55

    Egill, fyrst tölfræðin er svona sérkennileg, ættir þú að sýna fram á það með með öðrum hætti en að æpa „TÖLFRÆÐIN ER SÉRKENNILEG“. Það eru engin rök, og enginn trúir þér fyrr en þú gerir grein fyrir því hvað þú átt við. Áður en þú belgir þig meira út ættirðu kannski að setjast niður og íhuga málið aðeins betur.

    Posted by: Gunnar Hrafn | 24.03.2011 | 8:34:05

    Voru ekki Ingunn Snædal og Vilborg Davíðsdóttir að nefna það á FB að þeim hefði aldrei verið boðið í þáttinn?

    Og varðandi þetta 85/15% hlutfall sem Eva nefnir í byrjun pistilsins, þá var það úr þremur þáttum eftir áramót, en þegar allir þættir frá upphafi voru skoðaðir breyttist hlutfallið svolítið.

    Posted by: hildur | 24.03.2011 | 10:49:57

    Mér finnst reyndar liggja alveg í augum uppi hvað Egill á við með sérkennilegri tölfræði. Í þáttunum er m.a. fjallað um bókmenntir fyrri alda. Bókmenntir voru karlamenning og það getur nú varla talist sanngjarnt að ætlast til þess að í slíkri umfjöllun sé konum gert jafn hátt undir höfði og körlum. Eins er vafasamt að hengja manninn fyrir það að meirihluti ævisagna séu sögur karla. Það eru höfundar sem stjórna því um hvað þeir skrifa.

    Vilborg Davíðs eh… kannski er vanrækslu fjölmiðla enn að kenna en ég man síðast efir bók frá henni 2006.

    Niðurstaðan er semsagt sú að Egill hefði getað gert Þórdísi hærra undir höfði og hann hefur vanrækt Ingunni. Hann hlýtur að hafa hundsað vinsamlegar ábendingar um það fyrst það þykir tilefni til opinberra ásakana um lögbrot og vanhæfi.

    Eða hvað?

    Posted by: Eva | 24.03.2011 | 11:35:56

    Hjá mér vaknar sú spurning hvort einnig séu til verk eftir karla sem ekki hafa ratað í Kiljuna, þrátt fyrir að vera þess virði. Einnig hvort einhver prýðilegur karlrithöfundur eða ljóðskáld hafi fengið jafn snubbótta afgreiðslu og Þórdís.

    Ég þekki þættina ekki nógu vel til að svara þeim spurningum en kannski er einhver annar fær um það?

    Posted by: Eva | 24.03.2011 | 11:44:00

    Ég gerði stutta og óvísindalega úttekt á umfjöllun Eirkíks Arnar Norðdahl um bókmenntir síðustu 4-5 mánuði og taldist mér til að hann hafi fjallað um 12 bækur eftir karlhöfunda og 4 eftir kvenhöfunda. Vitaskuld er Eiríkur ekki settur undir jafnréttisstefnu RÚV. Hins vegar má af því sjá að hann praktíserar annað prívat en hann predikar fyrir pöpulinn.

    Posted by: Helgi Ingólfsson | 24.03.2011 | 11:51:23

    Það er almennt ákaflega lítil samræða í þessari umræðu lengur. Einu sinni var gerður bókmenntaþáttur, mig minnir að það hafi verið 1994, hann sætti sömu gagnrýni um kynjahlutföll, þá var ekki legið í skotgröfum kommentakerfa heldur haldinn umræðuþáttur um bókmenntir og kyn í sjónvarpi, hóað í fullt af rithöfundum og fræðimönnum og málið rætt á víðum og vitrænum grundvelli, eða í það minnsta var það reynt. Af hverju er ekki það sama gert núna?

    Posted by: Hermann Stefánsson | 24.03.2011 | 16:09:44

    Góð ábending Hermann. Mér finnst staða kvenna í fjölmiðlun og samfélagsumræðu almennt mjög áhugaverð og er nokkuð viss um að lægra hlutfall kvenna en karla á sér mun flóknari skýringar en þá að karlar séu svo yfirgangssamir. Ég væri alveg til í að sækja málþing eða sjá vandaðan umræðuþátt um kyn og fjölmiðla.

    Posted by: Eva | 24.03.2011 | 17:17:48

    Mér skilst það sé týpískt karlrembueinkenni að fara í vörn fyrir sjálfan sig. Frá því að ég byrjaði að skrifa gagngert um pólitískar bókmenntir í september hef ég skrifað um 5 bækur eftir konur en 11 eftir karlmenn – ég las reyndar aldrei nema fyrstu tvö kaflana í einni þeirra. Ég skrifaði hins vegar 69 færslur um bækurnar eftir konurnar, en einungis 49 um bækurnar eftir karlana – án þess að það hafi verið sérstaklega kynjajafnað (þar munaði mestu um doðrantinn Atlas Shrugged eftir Ayn Rand). Bara svo það sé á hreinu.

    Posted by: Eiríkur Örn Norðdahl | 24.03.2011 | 23:40:59

    Jájá … tölfræðin er sérkennileg …

    http://gagnrynt.blogspot.com/2011/03/tolfrin-er-serkennileg.html

    Posted by: Sigurbjörn | 25.03.2011 | 8:14:34

    Ég er annars ekki viss um að það vaki alltaf fyrir fólki að teknir verði upp kynjakvótar – og það gerði það ekki fyrir mér þegar ég skrifaði undir umrædda áskorun. Ef það á að telja og flokka þá fer á endanum kannski allur tíminn í að telja og flokka – hins vegar ætti að vera ástæða til þess að staldra við og íhuga málin annað veifið. Það hefði verið gaman ef Egill hefði bara gert það, þó ekki hefði verið nema að segjast myndu spá í þessu, þetta væru áhugaverðar tölur.

    Hinn tilgangurinn er svo auðvitað að reyna að skapa einhverja umræðu, koma af stað einhverri samræðu. Hún er auðvitað misskemmtileg og misgáfuleg, en ég held það sé þó alger óþarfi að örvænta eitthvað og ímynda sér að allt hafi verið betra í fornöldinni 1994. Minnið er selektíft og heimildir enn selektífari og ég reikna fastlega með því að lágkúrulegasta og vitlausasta hjalið hverfi í tímans rás – sýnin á fortíðina er í eðli sínu sjónskekkja.

    Helst myndi ég vilja að við notuðum þetta – að konur séu undirrepresenteraðar í bókmenntum – sem kreatíft tækifæri. Mér þætti t.d. mjög gaman af því ef einhver sem kann til verka gæti farið í gegnum þann kveðskap kvenna sem til er í heimildum og gæfi út góða antólógíu. Ég held a.m.k. að það séu flest viðbrögð skárri en skætingur.

    Posted by: Eiríkur Örn Norðdahl | 25.03.2011 | 18:27:55

    Hvílík speki.

    Gaman að því hvað Helgi er presís hér að ofan.

    Og reyndar athyglisvert ýmislegt sem Egill fyrir sitt leyti bendir á sínu frávarpi og sínum andsvörum. Það þyrfti að vera bæði platform og kapasítet til að hugsa það.

    Posted by: Hermann Stefánsson | 25.03.2011 | 19:23:02

    Tölfræði er tvíbent og kyndugt tól, um það þarf ekki að deila. Hér að ofan telur EÖN sér t.d. til tekna, kynjahlutfallslega séð, að hafa sallað niður bækur tveggja kvenna – í löngu máli, það jafnar faktískt færslufjölda. Og hér er einnig fljótt farið að bera í bætifláka, rétt eins og Egill gerir, sem er svo sem ekkert skrýtið, málið er ekki einfalt. Eins mætti spyrja þeirrar spurningar hvort kyn hafi hugsanlega eitthvað með tóntegund gagnrýni að gera, með það að gera að karl slátrar bókum kvenna. Furðu sætir óviljinn til að velta fyrir sér hvort fleira geti komið til en Kiljan, sem vissulega er valdamikil og í aðstöðu til útskúfunar. Egill bendir meðal annars á útgefendur með afar skakkt hlutfall kynja. Fyrst verður að gefa út áður en umfjallendur koma til skjalanna, frá útgefendum kemur úrvalið. Þar liggja upplýsingar um hvernig kynjahlutfallið snýr síðan í handritum sem hefur verið hafnað. Er handritum hafnað af því að þau eru eftir konur? Getur verið að handritum sé hafnað af því að þau eru eftir ókvenlegar konur? Óhlýðnar konur? Of kvenlegar konur? Getur verið að handritum sé hafnað af því að þau eru eftir karla? Fólk af rangri stétt? Og fleira og fleira. Hjá höfundunum sjálfum liggur svo ábyrgð á því andrúmslofti sem þeir skapa í kringum sig, hvernig þeir tala um bækur kvenrithöfunda, hvernig þeir hegða sér gagnvart forlögum, hvernig þeir tala eða tala ekki um bækur eftir konur o.s.frv. Ástæða þess að hallar á skáldverk kvenna er ekki bara Egill Helgason. Því miður. Ábyrgð þess hvort málið er tekið til umræðu í sjónvarpinu er síðan áherslur sjónvarps hverju sinni.

    Posted by: Hermann Stefánsson | 25.03.2011 | 23:31:42

    Eiríkur, í áskoruninni er talað um brot á jafnréttislögum. Ef hugmyndin var ekki sú að taka upp kynjakvóta, hvernig höfðuð þið þá hugsað ykkur að mæla hvort konum væri gert nógu hátt undir höfði?

    Posted by: Eva | 26.03.2011 | 12:31:23

    Hvað meinarðu, sannfærir þig ekki? Ég var að bera í bætifláka, jájá, en ég var ekki beinlínis að meina að ég væri “saklaus”, telja mér eitt eða neitt til tekna – bara að málin væru flóknari. Ég rústaði líka Helga Ingólfs og Ingimari Erlendi og hóf Virginiu Woolfe og Margaret Atwood upp til skýjanna, kláraði ekki einu sinni Zombínasistann. En þessi umræða er komin út á tún ef hún á að fara að snúast um bloggið mitt – þótt það megi alveg draga það til, taka af því dæmi. Þetta eru ágætis pælingar, efni í margar greinar, greinaflokka og alls kyns debatta (sem mætti taka sem víðast sem fyrst) en enginn þeirra breytir því að það er fjarska undarlegt að ekki skuli vera meira fjallað um bækur kvenna í Kiljunni. En það má sosum líka alveg fagna því ef bréfið (sem er ágætt að ég nefni, að var ekki mitt framtak, þótt ég hafi skrifað undir það) kæmi einhverjum þessara greinaflokka á skrið, þessum deböttum í gang. Þá er a.m.k. eitthvað unnið.

    Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki jafnréttislög svo gjörla – og ég skrifaði ekki bréfið heldur var sóst eftir því að ég setti nafn mitt á það. En það best ég veit stendur ekkert um kynjakvóta í jafnréttislögum, heldur er þar almennt orðað að ekki skuli mismuna kynjunum.

    Posted by: Eiríkur Örn Norðdahl | 26.03.2011 | 14:52:54

    Eftir stendur semsagt að í prívatbókmenntaumfjöllun Eiríks Arnar Norðdahl er kynjahlutfallið ekki ólíkt því sem er að finna í Kilju Egils Helgasonar. Steinar og glerhús? Harður húsbóndi í hjáleigunni, en hæverskur á herragarðinum? Það er aumt yfirklór að monta sig af því að hafa tvisvar hælt kvenrithöfundum í hástert – hver hefur ekki gert það einhvern tíma?

    Fróðlegt er að EÖN sver tvisvar af sér að hafa skrifað umrætt gagnrýnibréf á Kiljuna; hann hafi bara undirritað það. Forvitnilegt væri að vita þá frá hverjum það er komið. Þorir höfundur (eða höfundar) þess virkilega ekki að koma fram undir eigin nafni?

    P.S. Ég elti ekki ólar við persónuleg skeyti EÖN í minn garð, en gæti gert það á öðrum vettvangi; af umfjöllun hans um bók mína getur hver sem er séð að hann hafði myndað sér frámuna neikvæða skoðun á henni, ÁÐUR en hann las hana.

    Posted by: Helgi Ingólfsson | 26.03.2011 | 19:19:17

Lokað er á athugasemdir.