Ég er að verða ponkulítið leið á þeirri goðsögn að konur hafi slæmt aðgengi að fjölmiðlum. Ég dreg líka í efa að kvennakúgun og yfirgangur karla sé stóra skýringin á minni pólitískri þátttöku kvenna en karla.Ef konum væri á einhvern hátt meinuð stjórnmálaþáttaka og aðgengi að fjölmiðlum eða allavega gert erfitt fyrir, þá hlyti hlutfall þeirra sem skrifa og taka þátt í umræðum á netinu að vera hærra. En er það svo?
Fyrir mörgum árum skoðaði Sigurður Hólm kynjahlutfall á pólitískum vefritum.
Hann birti annan pistil um sama efni í dag.
Ég kíkti til gamans á þá miðla sem ég hef fylgst með undanfarin ár. Ég er ekki búin að telja nákvæmlega eða reikna út hlutföll en lausleg skoðun leiddi mig að eftirfarandi niðurstöðum:
Eggin: Karlar skrifa.
Gagnauga: Karlar skrifa.
Kryppan: karlar.
Rósturpennar skrifa ekki undir nafni.
Nei-ið er dáið, því miður, flestar greinar þar eru nafnlausar.
Svartsokka hefur verið óvirk undanfarið og getur ekki höfunda en ég býst við að konur séu í meirihluta þar.
Múrinn, besta vefrit allra tíma er löngu dáinn, þar voru karlar í meirihluta og skrifuðu fleiri greinar en konurnar.
Svipan getur ekki alltaf höfunda en þegar það er gert þá er pistillinn oftar en ekki eftir karlmann.
Smugupennar: Karlar í meirihluta og skrifa að jafnaði fleiri greinar. Reynt er að gæta jafnvægis meðal fastra penna og hallar þó aðeins á konurnar og aðsendar greinar eru mun oftar eftir karlmenn.
Deiglan: Karlar fleiri og afkastameiri
Tíkin er á fb. Lítur út eins og fréttatenglasafn. Þar er ekki neinn penni eða nein umræða,allavega engin sem er sýnileg öðrum en þeim sem ‘læka’ síðuna.
Ekki veit ég hvernig á því stendur en skrif karla virðast líka vinsælli en skrif kvenna. Af 10 vinsælustu bloggurum blogggáttarinnar, þegar þetta er skrifað, eru 9 karlmenn. Af 5 vinsælustu færslunum eru 4 eftir karlmenn og af 5 vinsælustu færslunum á fb (skv. blogggátinni) eru 4 eftir karlmenn.
Ég held ekki að spurningin sé sú af hverju fjölmiðlar og pólitískir flokkar haldi konum niðri, heldur frekar hversvegna konur hafi minni áhuga á pólitík en karlar og hversvegna þær skrifi minna. Það er allavega ekki vegna þess að þær hafi ekki aðgengi að internetinu.
————————-
Við karlarnir þrír sem rekum Eggina erum vel meðvitaðir um kynjaslagsíðuna. Við höfum margoft beðið fleiri að ganga til liðs við okkur, og þá ekki síst konur, en árangurinn hefur ekki verið nógu góður. Á meðan svo er — á meðan við fáum ekki efni frá konum — þá er erfitt fyrir okkur, þrjá karla, að leiðrétta hallann.
Posted by: Vésteinn Valgarðsson | 24.03.2011 | 19:43:03
Nákvæmlega. Það er nefnilega ekki hægt að skrifa fjarveru kvenna frá fjölmiðum á karlrembu og eingöngu.
Posted by: Eva | 24.03.2011 | 22:42:08
Hér í landi klíkuskapar og goðaveldis hafa fjölmiðlar aldrei náð að þroskast til nútímans. Ef kynjaumræða slysast af stað skjóta karllægir fjölmiðlar það fljótlega á kaf. Kynjaumræða um fjölmiðla er róttæk í eðli sínu því hún ræðst að valdi karlmanna yfir fjölmiðlum.
Á Íslandi eru bara jafnlélegir fjölmiðlar, ekki góðir og slæmir eins og erlendis þar sem hægt er að sjá muninn. Hér eru allir fjölmiðlar á sama lága (stráka)planinu og erfitt að sjá hvað þeir eru lélegir því þeir eru það allir.
Hér eiga sömu valdaklíkurnar og fyrir hrun stærstu fjölmiðlana. Valdaklíkurnar vilja ekki umræðu um kynjamál og svo vilja hinir strákarnir það ekki heldur því þeir treysta á valdaklíkurnar til að fá vinnu við fjölmiðlana.
Fjölmiðlar eru sterkir þó þeir séu lélegir því högg þeirra eru alltaf þung.
Og til að vera ekki alltaf í fórnarlambshlutverkinu og liði lúseranna þá nenna konur ekki að slást við ofuraflið. Þær snúa sér að öðru.
Einnig hlýtur að spila inn í sá þáttur að konur bera þunga heimilisins á sínum herðum, vinnu, barnauppeldi, heimilishald og svo umönnun veikra og aldraðra því með auknum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu (sem hófst með frjálshyggjunni) eykst vinnan á konur. Þá gefst minni tími til skrifta.
Posted by: Margrét Sigurðardóttir | 26.03.2011 | 16:37:01
Takk fyrir þetta innlegg Margrét. Vel má vera að skýringin á því að konur hafa sig lítt í frammi í stærstu fjölmiðlunum sé sú að þeir séu á ‘strákaplani’. En hvernig skýrir þú þá litla þátttöku kvenna í pólitískum netskrifum. Er það vegna þess hve Eggin, Múrinn o.fl. miðlar hafa verið verið karllægir? Lagði Bríet upp laupana af því að íslenskir fjölmiðar eru svo karllægir? Er það feðraveldið sem ræður því að Tíkin er lítið annað en fréttatenglasafn?
Posted by: Eva | 26.03.2011 | 20:11:55
Og hvað varðar þetta mikla vinnuálag sem konur búa við; hvaða konur eru það sem skrifa reglulega á netið? Hvaða konur eru það sem gefa út bækur? Eru það þær konur sem búa við minnst vinnuálag?
Eru öryrkjar, atvinnulausir, heimavinnandi húsmæður og aðrir sem maður hefði haldið að hefðu töluverðan tíma afkastamestu pennarnir? Ég hef ekki séð neina rannsókn á því svo ef einhver getur bent á einhverjar slíkar, endilega látið mig þá vita.
Posted by: Eva | 26.03.2011 | 20:17:23
Ég hef reynt að fylgjast með pólitískum vefritum en hætti um leið og róttæklingarnir eru farnir að halda með fótboltaliðum af hjartans sannfæringu.
Áhugamenn um fótbolta eru oft bundnir á klafa fjórflokksins og þarmeð ekki frjálsir hugar að mínu mati þó þeir séu góðir í að berja á frjálshyggjudrengjunum eftir áralanga þjálfun. Og það er svosem ekki erfitt því þeir drengir liggja vel við höggi nú.
En þetta volaða land þarfnast róttækari umræðu en innan-4-flokkaátök. Í reyndinni eru í 4-flokknum allir sammála um að tryggja lánastofnunum áfram okur-aðgangi að fjölskyldunum landsins og eignaupptakan í fullum gangi. Enginn gerir athugasemdir við það nema Hagsmunasamtök heimilanna, sem fjölmiðlar neita oft að birta álit frá ef það er „ekki akkúrat í deiglunni“ segja miðlarnir.
Sá óskapnaður sem íslensk pólitík er þarfnast aðhalds kröftugrar umræðu og róttæks aktívisma. Fræðasamfélag tekur engan þátt í umræðu um ömurlegt stjórnmálaástand. Stjórnmálaskýrendur með prófessorsstöður koma í fjölmiðla og segja að „Lilja hafi aldrei rekist vel í flokkum“. Konan hefur bara verið í einum flokki um 2ja ára bil, en prófessorinn er Samfylkingarmaður og fréttamaður sem gubbar út viðtalinu hváir ekki einu sinni!
Mögulegt er að konur sem skrifa reglulega á netið og gefa út bækur, búi við minna vinnuálag en aðrar. Enginn hefur áhuga á að rannsaka þetta.
Manstu þegar femínistarnir fóru að verða sýnilegir? Þá hljóðaði umræðan um sömu laun fyrir sömu störf en baráttan snerist um menntaðar konur og háu launin. Einu sinni voru til samtök kvenna á vinnumarkaði sem börðust fyrir verkakonur. Ég held að Kvennalistinn hafi slátrað slíkum samtökum því þær soguðu til sín alla kvennabaráttuna en enduðu svo í Samfylkingunni og eru þar í frjálshyggjuarminum sem er sammála Sjálfstæðisflokknum um einkavæðinguna!
Eins hef ég fregnað að konur sem fá styrki til að skrifa séu úr „elítu“-umhverfinu og ekki hverri sem er, er hleypt að ritlaunum. Við verðum að feisa það að Ísland er ekki stéttlaust samfélag.
Mest lesnu konurnar í blogginu eru öryrkjar og/eða heimavinnandi, sjálfstætt starfandi.
Ég hef ekki séð rannsóknir um þetta en bara lausleg skoðun á blogg-gáttinni gefur ágætis yfirsýn yfir þetta.
Posted by: Margret | 27.03.2011 | 7:31:46
En nú er ekkert sérstakt sem bendir til þess að konur búi við meira vinnuálag en karlar. Meiri hluti heimilsstarfa er á höndum kvenna en þær skila á móti færri stundum á vinnumarkaði. Karlar hljóta að þurfa sama tíma og konur til að skrifa. Auk þess er það einhver misskilningur að sjálfstætt starfandi fólk hafi minna að gera en aðrir. Þvert á móti lendir maður gjarnan í því að fólki finnst allt í lagi að koma í heimsókn á vinnustaðinn eða ef maður er með verkefni heima, að koma í heimsókn í tíma og ótíma eða biðja mann um greiða á þeirri undarlegu forsendu á sá sem ræður vinnutíma sínum, hljóti að hafa fleiri klukkustundir í sólarhringnum en annað fólk. (Reyndar gæti ég vel trúað að konur verði frekar varar við þessa skoðun en karlar.)Ef sjálfstætt starfandi konur skrifa meira en aðrar, þá er það sennilega frekar vegna þess að þær eru sjálfstæðari, ákveðnari og hugsanlega duglegri en meðalkonan.
Þær eru nú ekki margar sem fá yfirhöfuð einhvern lestur samkvæmt bloggáttinni (og varla er það feðraveldið sem hindrar lesendur í að lesa blogg kvenna) en hvort tveggja þá eru ekkert allir bloggarar tengdir blogggáttinni og auk þess telur blogggáttin ekki allar heimsóknir, heldur aðeins þær sem fara í gegnum síðuna. Það sem er þó greinilega hægt að sjá af blogggáttinni er að skrif karla fá meiri lestur.
Það er mjög erfitt að fullyrða um það hvaða bloggarar eru lesnir en ef ég ætti að nefna nokkrar konur sem ég er sannfærð um að hafa haft áhrif með sínum skrifum þá eru fyrstu nöfnin sem koma upp í hugann Lára Hanna, Sóley Tómasar, Hildur Lilliendahl, Jenný Anna, Freyja Haraldsdóttir og Heiða B. Heiðars. Engin þessara kvenna skrifar af því að þær hafi svo lítið að gera heldur vegna þess að þær hafa svo mikið að segja. Það hjálpar auðvitað til að hafa tíma en ég held að þurfi eitthvað meira en venjulegt vinnuálag til að þagga niður í þessum konum.
Posted by: Eva | 27.03.2011 | 8:13:49
Æ já, ég gleymdi Vantrú. Það má deila um réttmæti þess að flokka Vantrú sem pólitískan miðil en hún er vissulega róttækur miðlill.
Þar skrifa karlar og stór meirihluti athugasemda við færslur eru frá körlum.
Hvar eru konurnar eiginlega? Ekki þó á barnalandi, femin og bleikt.is?
Posted by: Eva | 27.03.2011 | 14:40:45