Má bjóða þér vinnu sem gengur út á að þrasa og þrefa? Þar sem þú getur ekki lokið einu einasta verkefni sem skiptir máli, án þess að fjöldi manns reyni að skjóta það niður og draga úr þér kjarkinn? Þar sem hluti af starfinu felst í því að gera lítið úr vinnufélögunum, fá fólk til að sýna þeim vantraust og eigna sér góðar hugmyndir annarra?
Viltu vinna á vinnustað sem býður þér upp á að bjóða börnunum þínum góða nótt í gegnum síma, kvöld eftir kvöld? Þar sem þú getur reiknað með tímabilum þar sem fundasetur taka svo langan tíma að þú þarft að taka höfuðverkjatöflur daglega?
Viltu vinna starf þar sem þú getur verið örugg um að vera ekki metin að verðleikum? Þar sem allt gott sem þú gerir mun verða traðkað í svaðið? Þar sem þú munt alltaf verða gagnrýnd, sama hversu mikið þú leggur þig fram? Vinnu þar sem þú munt fyrr eða síðar þurfa að svíkja hugsjónir þínar ef þú ætlar að halda góðu sambandi við nánasta samstarfshóp þinn og þar sem þú getur reiknað með að flæmast úr starfi ef þú stendur við sannfæringu þína?
Þá skaltu gerast þingmaður? Eða bjóða þig fram til borgarstjórnar.
Konur fá bara ekki tækifæri. Vælvælvæl. Konur eru í minnihluta á þingi, í póltík almennt. Meira væl. Það þarf að efla sjálfstraust kvenna. Væl. Þetta bendir til kynjamisréttis og kvenfyrirlitningar! Við þurfum jafnréttisstefnu, betri jafnréttislög, kynjakvóta! Væl.
Halló Stína! Konur hafa minni áhuga á pólitík en karlar og af hverju er það undarlegt? Hversvegna ætti einhver kona að vilja taka þátt í þessu ógeði? Hversvegna ætti nokkur manneskja sem ber umhyggju fyrir sjálfri sér að vilja koma nálægt pólitík?
Er þörf fyrir fleiri konur í pólitík? Já, segja þeir sem vilja að viðhorf kvenna, sem hljóta að jafnaði hafa aðeins annan reynsluheim en karlar, fái meira vægi í stjórnmálum. Og hvað gerist? Konur bjóða sig fram, komast á þing og nokkrum árum síðar eru þær farnar að hugsa eins og karlar. Komnar í karlgervi eins og kynjafræðingar myndu orða það.
Til hvers er þá unnið? Hvað höfum við með fleiri konur að gera ef þær vinna á nákvæmlega sama hátt og karlarnir? Og hvar í fjandanum eru allar konurnar sem langar að segja álit sitt og hafa áhrif? Ekki að hamast við að stjórna stórfyrirtækjum, ekki eru þær virkar á pólitískum vefritum. Þær eru hinsvegar áberandi á barnalandi, femin.is og bleikt.is.
Hvernig stendur eiginlega á þessu? Af hverju hafa konur ekki áhuga á pólitík? Mér detta í hug tvær skýringar;
a) konur eru heimskar og lítt áhugasamar um að móta samfélag sitt,
b) pólitíkin er heimskuleg, ómannúðleg og gefur andskotans engin færi á því að að móta samfélag sitt nema þá með fremur fyrirlitlegum aðferðum.
Mér finnst fyrri skýringin ótrúleg, m.a. vegna þess að konur eru virkir þátttakendur í hverskonar mannúðarstarfi. Þær eiga ekki í neinum vandræðum með póltík sem ekki snýst um valdabaráttu. Og vitið hvað? Ég er í raun ekkert hissa á þeim konum sem telja tíma sínum betur varið til að prófa ‘það nýjasta í nöglum’ en að standa í stjórnmálabaráttu. Maður getur allavega lakkað á sér neglurnar án þess að eiga það á hættu að vera brotinn niður. Það er hinsvegar ólíklegt að maður fái frið til að breyta heilbrigðiskerfinu og harkan sem það útheimtir er bara ekkert öllum eðlileg.
Getur verið að í stað þess að reyna að troða fleiri konum í pólitík, væri reynandi að breyta pólitíkinni? Getur verið að aðrir sem taka lítinn þátt í pólitík, svosem gamalmenni, börn, fátæklingar, fatlaðir og þeir fjölmörgu karlar sem hafa engan áhuga á valdastöðum og hafa ekki fjármagn eða félagstengsl til að trana sér fram, væru til í að vera með ef stjórnmál væru eitthvað annað og meira en slagsmál um það hverjum hlotnast sú virðingarstaða að vera snati auðvaldsins? Getur verið að allt þetta fólk hefði bara fullan áhuga á því að taka þátt í að móta samfélgið og bera ábyrgð gagnvart því, ef póltíkin einkenndist af samstarfi, jafnræði og manngæsku?
Hvað myndi gerast ef við hættum að reyna að breyta konunum og breyttum frekar pólitíkinni? Hvað myndi gerast ef við hættum að sætta okkur við það að hafa stjórnkerfið og fjölmiðlana í höndum mafíósa? Hvað myndi gerast ef við reyndum að fara norsku leiðina til að uppræta pólitískt vændi, þ.e. að gera kúnnan ábyrgan? Ég veit svoesem ekki hvort það væri skynsamlegt, allavega snerist sú aðferð illa í höndum norskra feminista sem sköpuðu mafíósum góðan starfsvettvang með björgunaraðgerðum sínum gagnvart konum sem vildu ekki sjá neina bjargvætti. Hugsanlega er þetta mjög vond hugmynd. Verra er þó að það er lítil eða engin umræða í gangi um það hvort einhver leið sé fær í stjórnmálum, önnur en sú mannskemmandi valdabarátta sem flest heilbrigt fólk hefur blessunarlega vit á að forðast.
——————————–
Umræður
Í búsáhaldabyltingunni var einmitt mikið pælt í leiðum til breytinga. Sumir vildu inn í flokkana og breyta innan frá. Þeir eru sumir núna á þingi að greiða atkvæði með sölu auðlinda því annars fá þeir ekki að vera með. Sumir vildu nýja flokka og einn komst inn á þing. Það kom vel út því þingmenn Hreyfingar eru að gera góða hluti, eru að segja frá því sem gerist innandyra. Þau eru eins og óþolandi randaflugan sem pirrar og pirrar og tekur ekki þátt í sukkinu. Fleiri svona flokka.
Posted by: Rósa | 19.04.2011 | 11:45:12
Allt of oft koma fréttir af aðgerðum ríkisstjórnar og alþingis sem valda mér verulegum vonbrigðum. Og nú það síðasta er makkið með leyndó skjöl, fjölmiðlalög og orkuna.
Málið er að ég vil ekki vera neikvæð og því koma dagar sem ég les bara fréttir á léttum nótum en þá finnst mér ég vera að svíkjast undan og fæ samviskubit.
Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að það eigi ekki að hleypa fólki sem sækist eftir völdum í þannig stöður.
Ég gæti vel trúað að stjórnmál yrðu geðslegri pakki ef við þyrftum virkilega að hafa fyrir því að FÁ að ráða gott fólk, hugsjóna- og athafnafólk (í jákvæðri merkingu), í opinberar stjórnunarstöður; fólk sem við höfum fylgst með vera að gera góða hluti á öðrum vettvöngum. Síðan yrði tíminn að leiða í ljós hvernig þær persónur höndluðu stjórnmálin.
Ég er sammála þér Rósa að Hreyfingin hefur gefið okkur ágæta innsýn inn í það sem er að gerast í stjórnmálum á Íslandi. Og það hafa verið mjög fróðlegar upplýsingar.
Posted by: Sigríður Halldórsdóttir | 19.04.2011 | 13:37:33
Á meðan félagssamtök hafa kjörgengi, get ég ekki kosið konur sem ég treysti.
Á lista með slíku fólki eru líka klíkur kvenna og karla, sem alls ekki er treystandi fyrir klinkdollunni minni.
Hvað þá sameiginlegum gull pott okkar.
Hreyfingin hafði Þráinn, sem var nóg til að stoppa mitt atkvæði til þess ágæta flokks.
Posted by: Skuggi | 19.04.2011 | 13:53:57