Bara sleppa því að ljúga takk

maxresdefault (1)

Kapítalisminn laug að okkur. Hann sagði okkur að við yrðum hamingjusöm af því að drekka sæta gosdrykki og gúlla í okkur fitu og sykri í ótæpilegu magni. Við urðum ekki rassgat hamingjusöm en mörg okkar urðu hinsvegar feit.

Þegar við fórum að sjá í gegnum lygina kom kapítalisminn aftur og laug að okkur. Í þetta sinn í gervi heilbrigðis- og hollustu. Sagði okkur að með því að borða megrunarkex og dietallskonar og léttallskonar í stað þess sem við vorum vön, yrðum við ekki bara hamingjusöm, heldur bæði grönn og hamingjusöm. En við urðum ekkert sérstaklega hamingjusöm og héldum áfram að fitna. Að lokum fór að renna upp fyrir sumum okkar að útlitið á umbúðunum stemmdi ekki við innihaldið og megrunarkaramellurnar veittu ekkert meiri fyllingu en salat.

9e53602b8ca9ecd954a84e811eeb6b98Og enn kom kapítalisminn og laug að okkur. Hann reisti líkamsræktarstöðvar og sagði okkur að með þeim myndum við losna við spikið. Hann náði líka þeim sem ekki voru með aukakíló með skýrum skilaboðum um að það væri ekki nóg að vera grannur, óþjálfaður líkami væri forljótur. Við féllum fyrir lyginni um töframátt vöðvaræktar, sum okkar stóðu ekki í þessu og héldu áfram að vera dinglandi á sundfötum, önnur fóru að keppa við súpermódel sem allir vita að eru fótósjoppuð í druslur en eins og ein vinkona mín orðaði það; hversvegna ætti ég að vilja líta út eins og eðlileg kona? Og útlitsiðnaðurinn gekk lengra og lengra, við eigum að éta próteinduft og orkustangir, við getum ekki lengur hreyft okkur á réttan hátt nema hafa einkaþjálfara og svo eigum við auðvitað líka að vera sólbrún allt árið og með fullkomið hár og förðun; eigum við að tala um fegrunaraðgerðir?

Mér finnst þetta ógeðslegt alltsaman. Ekki af því að ég geti ekki unnt fólki þess að borða hamborgara, það geri ég iðulega sjálf. Ekki vegna þess að mér finnist eitthvað að því að eltast við svokallaðar heilsuvörur, skil það alveg. Og jú mér finnst óhófleg vöðvasöfnun ógeðsleg og líka fegrunaraðgerðir sem miða að því að láta fólk líta út fyrir að vera úr plasti, en gagnrýni mín snýst ekki um það. Fólk má mínvegna safna vöðvum og grilla á sér húðina þar til það lítur út eins og gamalt leðursófasett, láta skera sig í ræmur, fjarlægja rifbein og láta fylla skrokkinn á sér af silikoni. En það sem ég þoli ekki eru lygarnar á bak við þetta allt. Lygin um að tiltekið morgunkorn geri mann grannan, að enginn vilji manneskju með maga sem stendur fram fyrir beltið og að lýtaaðgerðir séu næsta áhættulausar. Einkum fer það fyrir brjóstið á mér þegar lygin er dressuð upp sem vísindi, hvort sem það er bull um að kartöflur séu jafn óhollar og áfengi eða að pillur séu góð leið til að grennast.

Á sama hátt finnst mér það beinlínis ógeðslegt þegar einhverjir feitabollufeministar bjóða upp á enn eina lygina um mataræði og holdafar, nefnilega þá að offita sé ekki heilbrigðisvandamál. Ekki nóg með það heldur tala menn jafnvel um megrun eins og hungur af völdum megrunar sé víðtækt vandamál í vestrænu samfélagi. Jafnvel í íslensku samfélagi þar sem meira en 20% barna eru ofalin og fólk deyr árlega af völdum offitu. Við erum að tala um næstfeitustu þjóð í heimi og skilaboðin eru þau að við eigum bara að hætta að líta á það sem vandamál. Finnst ykkur þetta í lagi?

feitur-drengurÞar sem enginn Íslendingur hefur mótmælt forræðishyggju fórnarlambsfeminsta jafn ötullega og ég, hlýt ég að reikna með að þessar dylgjur séu mér ætlaðar. Hér er verið að gera mér upp skoðanir með útúrsnúningum sem eru einkennandi fyrir alla rökvillinga, ekki síst í hópi feminista. Þá skoðun að ástæðan fyrir því að ég set spurningamerki við feitabollufeminismann sé sú að feitar konur séu svo ógeðslegar. Vissulega finnst mér yfirdrifin offita ógeðsleg. Mér finnst ógeðslegt að sjá samfélag sem býr við góða menntun og almenna velmegun fara svona með börn.

111327NV5C0d7T

Mér finnst þetta …  

Screenshot from 2014-08-25 22:31:56

En eins og allir sem hafa lesið mín skrif um þessi mál vita þá snýst gagnrýni mín ekki um ógeðsleik offitu.  Fólk má mín vegna vera eins ógeðslegt og það bara vill. Og nei, ég ætla ekki að segja orð um kostnað samfélagsins, það samfélag sem hefur efni á því að leyfa matvælaiðnaðinum, heilsuiðnaðinum og útlitsiðnaðinum að ljúga að okkur, getur bara drullast til að útvega feita fólkinu hjálpartæki, læknisaðstoð, örorkubætur og heimahjúkrun, þegar afleiðingarnar koma í ljós. Ég er hinsvegar ekki til í að láta ljúga því að mér og öðrum að það hafi engar afleiðingar að fitna úr hófi, að engin tengsl séu milli ofeldis og heilsu eða að spiksöfnun sé einfaldlega óviðráðanleg. Þegar slíkum yfirlýsingum er haldið á lofti í nafni vísinda, og það er einmitt það sem fat acceptance hreyfingin í Bandaríkjunum og Bretlandi gerir, þá er það ekkert skárra en lygar þeirra sem blekkja okkur til að kaupa orkuríkan mat undir merkjum hollustu. Að halda því svo í þokkabót á lofti að einhver sérstök fegurð sé fólgin í sjúkleikanum, er ekki skömminni skárra en að halda að okkur þeim viðhorfum að tiltekin fæða geri okkur vinsæl eða að við þurfum að misbjóða líkamanum til að standa undir óraunhæfum útliskröfum.

Svo kæru feminstar og annað líkamsvirðingarfólk; hikið ekki við að fitna ef það er það sem þið viljið. Sleppið því bara vinsamlegast að ljúga upp einhverjum vísindum til að réttlæta það, þið þurfið þess ekki því allir eiga rétt á því að vera eins feitir og þeim bara sýnist. Reyndar er spurning hvort fólk á rétt á að fita börnin sín en það er nú efni í annan pistil.

Svo já, það er nú bara það sem ég meina með þessu; ég er ekki til í að láta kapítalismann ljúga að mér, ég er ekki til í að láta feitabollufeminismann gera það heldur.