Kona fór með barnabarn sitt í leikhús. Önnur kona gerðist svo dónaleg að spyrja lítinn dreng hvort honum fyndist telpan ekki sæt. Túlkun ömmunnar: Konan er að kenna drengnum að glápa á konur og dæma þær.
Fullorðið fólk getur verið óþolandi þegar það dáist að börnum. Ég skil vel að fólki þyki óþægilegt þegar ókunnugir kjá ofan í barnavagna eða gefa sig óhæfilega mikið að smábörnum. Það er líka ósiður sem allt of margir hafa tileinkað sér að tala um börn en ekki við þau. Kannski var konan sem dáðist svona mikið að litlu stelpunni í leikhúsinu yfirgangssöm.
En hér er ekki fyrst og fremst verið að gagnrýna yfirgang fullorðinnar manneskju gagnvart barni, heldur er látið að því liggja að með því að vekja athygli lítilla drengja á því að lítil stúlka sé óvenju fín, sé verið að ala þá upp til þess að hlutgera konur og áreita þær kynferðislega.
Ekki fylgir sögunni hversvegna í ósköpunum barnið var klætt í silfurlita skó og pallíettukjól en þegar ég var lítil átti ég „silfurskó“ sem ég fékk að nota ásamt kjól við hátíðleg tækifæri, af því að mér fannst gaman að vera fín. Og það hefur takmarkað gildi ef enginn tekur eftir því. En að benda á að þegar lítil stelpa er fín megi búast við að fólk hafi orð á því er væntanlega „drusluskömm“; glæpur gegn hinum pólitíska rétttrúnaði.
Ég hef séð marga undrast túlkun ömmunnar á spjalli konunnar við litla drenginn. Það ætti samt ekki að koma á óvart að fólk láti svona vitleysu frá sér á opinberum vettvangi. Dólgafemínismi hefur fengið að grassera í samfélaginu í mjög mörg ár og flest áhrifafólk sem ekki er gegnsýrt af þessum sjúku viðhorfum sjálft er heltekið af meðvirkni. Það er eins og fólk átti sig ekki á því að ein af þeim aðferðum sem dólgafemínistar beita, í því skyni að yfirtaka samfélagsumræðuna, felst í því að leggja sakleysislegustu athugasemdir út á versta veg og gera eins marga og mögulegt er tortryggilega. Markmiðið er að festa í sessi þann skilning að allir aðrir en þeir sem vinna að útbreiðslu hins heilaga orðs séu sekir. Sekir um eitthvað. Einhverskonar tjáningarglæp eða a.m.k. hugsunarglæp. Til þess þarf að dreifa ótta og sektarkennd svo sem fæstir þori að tjá sig.
Þótt atvinnufemínistar séu löngu uppiskroppa með baráttumál er engin von til þess að öldurnar muni lægja á næstu áratugum. Þær eru orðnar svo margar konurnar sem hafa atvinnu af þessu runki og þótt ekki væri nema þessvegna er nauðsynlegt að halda áfram að mjólka beljuna. Til þess þarf að hafa djöful til að berjast gegn og dogmatískt kenningakerfi sem snýr öllum hugsanlegum aðstæðum upp á djöfulinn.
Fésbókarfærslan sem varð kveikjan að grein Pressunnar er bara eitt lítið dæmi um það hvert íslenskur dólgafemínismi er kominn: Það er ekki bara hættulegt fyrir yfirmenn á vinnustað að hafa orð á því að ung kona sé falleg heldur er hver sú kona sem hefur orð á því að lítil stelpa sé sæt orðin þátttakandi í „nauðgunarmenningu“.