Konan sem gerði eitthvað í því

Þann 7. nóvember 2013, fyrir réttum fjórum árum, birti ég þennan pistil.  Sama dag var Kvennablaðið gert almenningi aðgengilegt.

Kvennablaðið er auðvitað ekki ljósvakamiðill en ég held nú samt að sé óhætt að fullyrða að enginn Íslendingur hafi lagt jafn mikið af mörkum til þess að jafna kynjahallann í fjölmiðlum og Steinunn Ólína gerði með endurreisn Kvennablaðsins. Ja nema ef skyldi vera hún Bríet, langamma hennar sem gaf út fyrsta fjölmiðilinn sem tileinkaður var íslenskum konum; Kvennablaðið. 

Nokkrum mánuðum fyrr hafði ég fyrst spjallað við Steinunni Ólínu á Facebook. Henni fannst, eins og mér, að hlutur kvenna í fjölmiðlum ætti að vera meiri. Hún sá hinsvegar engan tilgang í því að væla yfir því, heldur hafði hún ákveðið að feta í fótspor langömmu sinnar og gera eitthvað í því. Þegar hún sagði mér frá hugmynd sinni um netmiðil tileinkaðan konum spurði ég, full efasemda, hvort það yrði ekki bara enn einn lífstílsmiðillinn eða þá femínístamiðill. Mér fannst hugmyndin um kynhreinan fjölmiðil ekkert sérlega heillandi.

En það var alls ekki ætlunin búa til miðil sem snerist bara um „kvennamál“. Enda eru konur alveg jafn fjölskrúðugur hópur og karlar. Hugmynd Steinunnar Ólínu var sú að skapa vettvang þar sem konum yrði sérstaklega velkomið að skrifa um allskonar efni. Karlar yrðu vitanlega velkomnir en miðillinn ætti að verða konum hvatning, áherslan yrði á skrif kvenna og efni sem konur sýndu áhuga. Mér fannst þetta miklu meira spennandi hugmynd en lífstílsmiðill eða rit sem snerist fyrst og fremst um kynjapólitík. Ég var sannarlega til í að leggja eitthvað af mörkum til þessarar tilraunar en ég var alveg hæfilega bjartsýn á að slíkur miðill myndi lifa lengi.

Tilraunin heppnaðist prýðilega. Á þessum fjórum árum sem liðin eru frá stofnun Kvennablaðsins hafa margir tugir kvenna sem hafa verið áberandi í samfélaginu skrifað fjölbreytt efni fyrir blaðið en meira máli skiptir að annar eins fjöldi kvenna sem enginn vissi að væru pennafærar hefur nýtt þennan vettvang til að koma skrifum sínum á framfæri. Karlar skrifa líka enda er Kvennablaðið hvorki í stríði gegn körlum né að reyna að stjórna þeim. Ritstjórnarstefnan er einföld og anarkísk; skrifum er ekki hafnað nema þau séu óbirtingarhæf og það er sjaldgæft. Og Kvennablaðið er ekki bara góður vettvangur fyrir skrif kvenna, það er líka mikið lesið, meira en nokkur annar netmiðill sem hefur konur að markhópi.

Það er ekki sérstaklega vinsælt þessa dagana að minnast á að konur hafi kannski þegar allt kemur til alls á valdi sínu að gera það sem gera þarf til þess að jafna stöðu kynjanna en ég sagði það fyrir fjórum árum og ég segi það enn – ef við viljum að fjölmiðlar geri konum jafn hátt undir höfði og körlum þurfa konur bara að vera duglegri að gera eitthvað í því.

Ég óska Kvennablaðinu til hamingju með afmælið og bestu þakkir til Steinunnar Ólínu og allra sem hafa lagt sitt af mörkum til að gera Kvennablaðið að veruleika.

Deildu færslunni

Share to Facebook