Að taka afstöðu

shit

Uppskrift að áburði:

Finnum gamlan, botnfallinn skít. Hrærum rækilega upp í honum og dreifum soranum sem víðast svo öruggt sé að drullan lendi í sem flestum hálfgrónum sárum.

Jafnvel þótt útilokað sé að eyða leðjunni og eina leiðin til að hreinsa vatnið sé sú að leyfa henni að setjast, höldum þá áfram að hræra upp í skítnum. Berum svo mykjuna á túnið. Þannig grænkar beitiland sorpblaðamennskunnar.
Upplýsingaskylda eða hefnd?
Er ástæða til að fjölmiðlar segi frá hneykslismálum valdafólks? Fokk já og þolandinn hefur fullan rétt til þess að tjá sig. Ég er talsmaður hefndar. Ég lít svo á að þegar engin von er til þess að skúrkurinn horfist í augu við brot sitt og geri það sem hægt er til að bæta fyrir það, sé hefnd jafnvel gagnleg. Hefnd verður hinsvegar að vera persónuleg til að þjóna tilgangi. Ríkið getur ekki tekið hana að sér (þessvegna er refsikerfið ein allsherjar mistök) og ég dreg í efa að fjölmiðlar eigi að gegna því hlutverki að koma persónulegri hefnd á framfæri.Upplýsingaskylda eða hefnd?

Málið vandast þegar skúrkurinn er opinber persóna, jafnvel stórlax sem hefur skúrkast á meðan hann gegndi valdastöðu. Ráðherra og sendiherra á ekki að senda unglingi berorðar lýsingar á ástalífi sínu og eiginkonunnar eða annað klám og mér finnst eðlilegt að almenningur fái að vita af því ef sitjandi stórfiskur getur ekki fundið klámkallinum í sér smekklegri farveg.

En það skiptir máli hvernig staðið er að fréttum. Mín fyrstu viðbrögð við dónabréfabirtingunum voru þau að það hefði ekkert upplýsingargildi fyrir almenning að birta bréfin orðrétt. Með því væri fjölmiðill að valda ástvinum Jóns Baldvins, saklausu fólki, sársauka og vanvirðu að nauðsynjalausu. Ég er samt enn ekki viss. Ef mál eru á annað borð gerð upp í fjölmiðlum, er hætta á því að almenningur fái skakka mynd af atburðum, svo kannski er bara best að segja sannleikann allan. Ég á satt að segja erfitt með að taka endanlega afstöðu til þess hvort Nýtt Líf var fyrst og fremst að sinna upplýsingarskyldu eða koma á framfæri persónulegri hefnd með þessari umfjöllun.

Sorpblaðamennska
Ég á hinsvegar ekki erfitt með að taka afstöðu til þess hvað var á ferðinni þegar DV  gerði sér mat úr örvæntingarfullum snjáldurfærslum barna Jóns Baldvins Hannibalssonar, daginn sem dónabréf skrifuð af föður þeirra, bréf sem innihéldu m.a. lýsingar á kynlífi foreldra þeirra, voru birt alþjóð. Það var svokölluð sorpblaðamennska, „fréttir“ sem þjóna þeim tilgangi einum að höfða til þeirra sem vilja runka sér á gömlum hneykslismálum og fá kikk út úr þjáningu aðstandenda, fólks sem hefur ekkert unnið sér til óhelgi.

Og það var ekki nóg að birta skrifin heldur voru athugasemdir líka leyfðar. Skrif Glúms, sem benda nú ekki beinlínis til þess að maðurinn hafi verið í jafnvægi, bjóða beinlínis upp á háð. Hann fór heldur engan varhluta af háði og spotti og á umræðuþráðum, bæði á DV og annarsstaðar viðraði fólk þá skoðun að fjölskyldan ætti ekkert betra skilið en að öll smáatriði málsins kæmu fram, fyrst þau tóku ekki eindregna afstöðu með stúlkunni þegar þau fréttu af málinu.

Að taka afstöðu
„Að taka afstöðu með þolandanum“ merkir í þessu sambandi að snúa algerlega baki við óþokkanum, úthýsa honum úr mannlegu samfélagi og ofsækja hann það sem eftir er ævinnar. Það er þannig sem við förum með kynferðisbrotamenn og greinilegt að margir setja samasemmerki á milli þessara bréfa og barnanauðgunar. Fjölskyldan átti semsagt ekki að fyrirgefa. Mátti það ekki, aldrei. Hún átti að gera það sem okkur, sem aldrei höfum lent í þeirra sporum, finnst líklegt að við myndum gera, af því að við höldum að við séum svo réttsýn. Trúum því ekki að við myndum nokkurntíma standa með dónakalli enda þótt reynslan sýni að aðstandendur kynferðisbrotamanna afneita því iðulega að þeir séu sekir.

Ég undrast það viljaleysi til að setja sig í spor annarra sem opinberast í umræðunni um bréfamálið. Heldur fólk virkilega að pólitísk rétthugsun sé eða eigi að vera mannlegum tilfinningatengslum æðri? Finnst fólki virkilega sanngjarnt að krefjast þess að manneskjur leysi upp fjölskyldur sínar og snúi baki við föður sínum og maka til 40 ára þegar hann gerir sig sekan um ósæmilega framkomu? Jú fólk virðist gera þá kröfu til aðstandenda dónakalla. Þessi krafa endurspeglast m.a. í vægðinni sem fyrrverandi konum ofbeldismanna er sýnd þegar þær vitna gegn þeim til þess að ná fram hefndum. Þótt konan hafi umborið ofbeldi og kynferðislega misnotkun á sínu eigin afkvæmi árum saman, leynt brotunum og réttlætt þau, fyrirgefst henni þegar hún er tilbúin til að „taka afstöðu“. Bæði vegna þess að kona hlýtur alltaf að vera kúguð og ber því enga ábyrgð á vanrækslu sinni en líka af því að nú er hún til í að sameinast hinum refsandi skríl í viðleitni sinni til að drepa skrímslið. Kona sem fyrirgefur dónaskrif skal hinsvegar hengd, fyrst hún tekur ekki þátt í að refsa dónanum og börnin hans skulu heldur ekki sleppa nema þau „taki afstöðu“. Ég sé ekki slíkar kröfur gerðar til aðstandenda manndrápara en þegar kyn og klám er annarsvegar er eins og fólk hreinlega missi sig.

Munur á þöggun og nærgætni
Nei, það á ekki að þagga niður ósæmilega framkomu fólks í valdastöðu. Hitt má hafa í huga að allt hefur sinn stað og sína stund og að þrátt fyrir að siðareglur blaðamanna séu furðulega fáar og frjálslegar, er þar samt að finna þessi tilmæli um að valda ekki saklausum óþarfa sársauka og skömm. Þegar fjölmiðlar taka þann pól í hæðina að valið standi um þöggun eða að þyrla upp margra ára gömlum skít og bjóða almenningi að hnusa rækilega af hverju sparði fyrir sig, þá væri dálítið næs af þeim að gera skúrknum og aðstandendum hans viðvart áður, jafnvel þótt fréttastjóra finnist það engu bæta við fréttina. Eins má netmiðill alveg hugsa sig um áður en hann býður til opinberrar umræðu um sálarlíf aðstandenda, án þess að nokkur tilgangur sé sýnilegur annar en sá að refsa þeim fyrir að elska föður sinn og maka þegar almenningur telur hann þess óverðugan.

Vel má vera að fjölmiðlar megi birta lýsingar á kynlífi konu sem tók ekki þá ákvörðun að snúa baki við þeim sem skrifaði þær. Vel má vera að fjölmiðli sé fullkomlega heimilt að maka krókinn á hysterískum viðbrögðum barna hans á facebook. Vel má vera að siðareglur blaðamanna krefjist þess ekki að fjölmiðlar sýni ofurlitla mannúð þegar þeir hræra upp í gömlum skít. Á hinn bóginn er heldur ekkert í siðareglum blaðamanna sem bannar það. Málið er bara að virðing fyrir mannsálinni hentar illa sem áburður á það iðjagræna tún sem tekist hefur að rækta upp á runklandi íslenskrar blaðamennsku.

Deildu færslunni

Share to Facebook